Guðný Þuríður Pétursdóttir, alltaf kölluð Þurý, fæddist í Vatnshlíð í Austur-Húnavatnssýslu 26. maí 1920. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki 4. desember 2011.

Foreldrar hennar voru Herdís Grímsdóttir frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum og Pétur Guðmundsson bóndi í Vatnshlíð. Þurý átti eina systur, Kristínu, f. 9. maí 1913, d. 25. október 2001.

Eiginmaður Þurýjar var Stefán Sigurðsson skipstjóri, f. 19. mars 1920, d. 24. okt. 1966. Dætur þeirra 1) Anna Sjöfn, f. 24. júlí 1949, eiginmaður Páll A. Pálsson, f. 1946, börn Harpa, f. 1977, og Arna, f. 1980. 2) Herdís, f. 10. mars 1951, d. 8. nóv. 1999, eftirlifandi eiginmaður Þór Sigurðsson, f. 1949, börn Stefán, f. 1974, Sigurður, f. 1978, og Þórdís, f. 1989.

Útför Þurýjar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 17. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku amma, við kveðjum þig með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér.

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur,

og fagrar vonir tengir líf mitt við.

Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum, ljúfum, dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm, er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hallstað)

Blessuð sé minning þín.

Harpa og Arna.

Þurý móðursystir mín var óvenju glæsileg kona, björt yfirlitum, snaggaraleg og létt í spori, brosmild og oftast kát. Hún hafði unun af tónlist, söng fram til síðasta dags og þeir eru ófáir kórarnir sem hún lagði lið sitt á lífsleiðinni. Skal engan undra að þegar hún kvaddi þennan heim var hún á leið á tónleika hjá Kirkjukór Sauðárkrókskirkju.

Þurý, og eldri systir hennar, Kristín, ólust upp hjá foreldrum sínum þeim Herdísi Grímsdóttur og Pétri Guðmundssyni í Vatnshlíð á Vatnsskarði. Frá bernskuheimilinu kom systrunum báðum tónlistargáfan. Ung giftist Þurý Stefáni Sigurðssyni, greindum og stórskemmtilegum sjómanni. Þau bjuggu alla sína búskapartíð á Hólavegi 2 á Sauðárkróki. Þar ólu þau upp dæturnar tvær, Önnu Sjöfn og Herdísi. Stefán lést langt um aldur fram eftir harða baráttu við krabbamein. Og mörgum árum síðar lést Herdís dóttir þeirra hjóna úr hvítblæði. Þurý var lengi styrkur að nábýlinu við foreldra sína sem brugðu búi og fluttu til Sauðárkróks. Pétur Ólafsson bróðir minn sleit barnsskónum hjá afa og ömmu á Sauðárkróki og naut góðsemi móðursystur sinnar.

Mér eru minnisstæðar sumarheimsóknir okkar mömmu á Krókinn þegar ég var barn. Aldrei gleymist bragðið af ýsunni sem Stebbi hafði veitt og Þurý eldað eins og henni einni var lagið. Í stofunni hjá Þurý gripu þær systur gjarnan gítarana og sungu af hjartans list, fyrst gömlu lögin sem þær spiluðu á böllunum í sveitinni forðum daga og svo hin sem voru nýmóðins. Tónlistin var í hávegum höfð á þessum skagfirsku heimilum, Sævarstíg og Hólavegi, og hafa afkomendurnir svo sannarlega notið góðs af tónlistaruppeldinu og sumir spjarað sig vel á þeim vettvangi.

Þurý var harðdugleg og ósérhlífin kona. Hún lagði sig alla fram við garðrækt og gerði þá ekki upp á milli skrautblóma og garðávaxta í garðinum sínum heldur sinnti öllu af sömu natni og virðingu. Híbýli hennar, bíllinn og allt næsta nágrenni báru vott um einstaka smekkvísi. Lengst af vann hún við þjónustustörf á veitingahúsum og hjá Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Þau störf áttu vel við hana. Hún naut sín vel í margmenni. Þurý var heimakær en færi hún af bæ lá leiðin oftast til Akureyrar þar sem dætur hennar bjuggu með fjölskyldum sínum. Hjá fólkinu sínu leið henni vel. Blessuð sé minning Þuríðar Pétursdóttur.

Margrét Björgvinsdóttir.

Kveðja frá Kirkjukór Sauðárkrókskirkju

Þá er komið að kveðjustund. Í dag syngjum við í síðasta sinn fyrir Þurý, heiðursfélaga Kirkjukórs Sauðárkrókskirkju. Hún stóð á pöllunum hjá okkur í tugi ára. Það voru fáir sem mættu eins vel á æfingar og athafnir, já og ferðalög, bæði æfingaferðir og messuheimsóknir, það var hægt að treysta því að Þurý mætti. Félagsskapurinn og söngurinn var henni líka allt. Það voru ekki margir sálmar sem hún kunni ekki bæði milliröddina og textann.

Hún hélt starfsorkunni lengi og var komin fast að áttræðu þegar hún þurfti að hætta að vinna og var bara alls ekki sátt við það, fannst hún hafa nóg þrek. Þetta þrek notaði hún í félagsstörfin og í kórana sína, kirkjukórinn og kór eldriborgara hér í Skagafirði. Fyrir þremur árum varð hún fyrir því óláni að detta og lærbrotna. Þá varð mikil breyting á lífinu, hún átti erfiðara með að komast um, gat ekki lengur búið heima og varð að hætta í kórunum. Tryggð hennar við kirkjukórinn var samt takmarkalaus og hún naut þess þegar við komum á Dvalarheimili aldraðra og sungum bæði við athafnir og héldum tónleika. Hún mætti alltaf og tók undir með okkur. Sunnudaginn 4. desember var hún að undirbúa sig til að koma á aðventutónleika kirkjukórsins, lagði sig til að vera vel upplögð en hennar tími var kominn og hún vaknaði ekki aftur. En við vorum sammála um það félagarnir að hún hafi verið með okkur í anda þennan eftirmiðdag.

Við þökkum Þurý samfylgdina öll árin hennar í kórnum og biðjum Guð að geyma hana.

Eins vottum við aðstandendum hennar samúð okkar.

Fyrir hönd Kirkjukórs

Sauðárkrókskirkju,

Guðbjörg Árnadóttir formaður.