Viðbrögð ýmissa stjórnarliða staðfesta að réttarhöldin eru pólitísk

Allt frá því atkvæði voru greidd um ákærur Alþingis á hendur fyrrverandi ráðherrum hefur verið augljóst að um pólitísk réttarhöld yrði að ræða. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar tryggðu að þetta færi ekki á milli mála þegar þeir höguðu atkvæðum sínum þannig að einungis ráðherra Sjálfstæðisflokksins en ekki Samfylkingarinnar yrði ákærður.

Fyrir þá sem voru þrátt fyrir þetta í vafa og trúðu því enn að eðlileg sjónarmið réttarríkisins hefðu haft eitthvað með ákæruna að gera hafa nú fengið staðfestingu á hverrar gerðar ákæran er.

Þegar fram kemur einföld tillaga um að hætta málarekstrinum gegn fyrrverandi forsætisráðherra ætlar allt vitlaust að verða á Alþingi. Forystumenn ríkisstjórnarinnar ólmast við að koma í veg fyrir að málið fái efnislega meðferð og þeir ásamt áköfustu talsmönnum sínum telja að ríkisstjórnarsamstarfinu eða jafnvel flokkum þeirra kunni að stafa ógn af því ef málið fæst afgreitt.

Stóryrðin eru ekki spöruð og ekki heldur rangfærslurnar. Forsætisráðherra heldur því fram að málið hafi verið dómtekið þegar svo er ekki og til viðbótar er þeirri fjarstæðu haldið fram að Alþingi hafi ekki heimild til að hætta málarekstrinum.

Hvaðan kemur sú heift sem fær menn til að leggja allt í sölurnar svo draga megi pólitískan andstæðing fyrir dóm?