<strong>Grænumýrarkaka</strong> Bára Lyngdal Magnúsdóttir kom með þessa jólatrésköku í kökukeppni Álftamýrarskóla í gær. Keppnin var hluti af verkefni í ritun.
Grænumýrarkaka Bára Lyngdal Magnúsdóttir kom með þessa jólatrésköku í kökukeppni Álftamýrarskóla í gær. Keppnin var hluti af verkefni í ritun. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Borðin svignuðu undan kökum af öllum stærðum og gerðum í kökukeppni í Álftamýrarskóla í gærmorgun. Þar voru á ferð kökur sem um 120 nemendur úr 4.-7.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Borðin svignuðu undan kökum af öllum stærðum og gerðum í kökukeppni í Álftamýrarskóla í gærmorgun. Þar voru á ferð kökur sem um 120 nemendur úr 4.-7. bekk bökuðu fyrir ritunarverkefni í íslensku og foreldrum var boðið að koma og smakka. Fyrir utan að baka áttu nemendur að skrifa uppskriftir, leiðbeiningar, sögur, fréttir eða endurminningar sem tengjast kökunum.

„Þetta byrjaði allt á því að kennarinn sagði að það væri rosalega skemmtilegt verkefni að skrifa fyrst sögu um kökuna, uppskriftina og þrjár meginástæður fyrir af hverju mín er best,“ segir

Einar Marteinn Einarsson í 6.-7. bekk HH. Hann var mættur með glæsilega köku í líki rafmagnsgítars sem hann bakaði sjálfur með smáhjálp systur sinnar. Hafði hann notað krem í mismunandi litum svo að kakan líktist gítar sem mest og lakkrísreimar fyrir strengi.

Hann segir að kakan sín sé best því bakari hafi sagt sér að hún væri sú besta sem hann hefði nokkru sinni smakkað. Þar fyrir utan væri augljóst hversu flott hún væri og svo gæfi hún góða tilfinningu í þokkabót.

Úrvalið af kökum var gríðarlegt og þar mátti sjá allt frá hefðbundnum súkkulaðikökum upp í bleikar, bláar og grænar listilega skreyttar kremkökur, sumar með ýmsum fígúrum og jafnvel fótboltavelli ofan á.

Bára Lyngdal Magnúsdóttir var með köku í laginu eins og jólatré sem hún kallar Grænumýrarkökuna. Hún segir að hún væri alveg til í að baka köku í öllu fögum í skólanum. En lærir maður mikið í íslensku á því að baka köku? „Ekki alveg en þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Bára glöð í bragði.

Til stendur að veita tíu til tólf verkefnum verðlaun eftir helgina og því gekk Hjörtur Þór Frímannsson, kokkur skólans, á milli borða og dæmdi hverja köku fyrir sig. Áður en yfir lauk var hann búinn að smakka allar kökurnar. Það verður þó ekki einfalt mál að velja sigurvegara því greinilegt var að krakkarnir höfðu lagt mikinn metnað í baksturinn.

„Þetta er rosalega fjölbreytt flóra. Hugmyndaflugið hjá krökkunum er alveg ótrúlegt,“ segir hann.

SAGA KÖKUNNAR

Kakan kennd við hús foreldranna

Bára Lyngdal Magnúsdóttir fékk uppskriftina að köku hjá móður sinni og ákvað að nefna hana eftir heimili foreldranna í Grænumýri á Akureyri. Þar var uppskriftin upphaflega fundin upp.

Um upphaf uppskriftarinnar úr sögu Grænumýrarkökunnar eftir Báru:

Uppskriftin að Grænumýrarkökunni kom inn í fjölskylduna mína mörgum árum áður en ég fæddist. Mamma og pabbi byrjuðu ung saman og kunnu lítið að elda. [...] Dag einn langaði þau mikið að baka köku en áttu enga uppskrift. Það var fyrir tíma internetsins og þau áttu svo litla peninga að þau áttu ekki einu sinni síma. Það varð til þess að þau gátu ekki hringt í mömmur eða ömmur til að leita uppskrifta .“