Bestur Luke Donald horfir á eftir kúlunni á ástralska meistaramótinu á dögunum. Árangur hans í ár er ótrúlegur.
Bestur Luke Donald horfir á eftir kúlunni á ástralska meistaramótinu á dögunum. Árangur hans í ár er ótrúlegur. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Englendingurinn Luke Donald er ekki í efsta sæti heimslistans í golfi að ástæðulausu. Donald vann magnað afrek á árinu þegar hann varð efstur á peningalistum PGA- og Evrópumótaraðanna 2011.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Englendingurinn Luke Donald er ekki í efsta sæti heimslistans í golfi að ástæðulausu. Donald vann magnað afrek á árinu þegar hann varð efstur á peningalistum PGA- og Evrópumótaraðanna 2011. Engum öðrum hefur tekist það enda þurfa menn að leika á töluvert mörgum mótum beggja vegna Atlantshafsins til að eiga möguleika.

Donald er 34 ára gamall og heitir fullu nafni Luke Campbell Donald. Hann gerðist atvinnumaður árið 2001 og hóf þann feril á PGA-mótaröðinni en áður hafði hann sigrað á lokamóti NCAA í bandaríska háskólagolfinu. Donald lét strax talsvert fyrir sér fara og tókst að vinna mót á nýliðaári sínu á mótaröðinni.

Nítján sinnum á topp 10

Áratug síðar eru sigrarnir á PGA-mótaröðinni orðnir fjórir og sex á Evrópumótaröðinni auk tveggja á minni mótaröðum. Það má því segja að Donald fagni sigri á hverju ári ef reiknað er meðaltal. Þessi tölfræði telst nú ekki geggjuð í samanburði við marga keppinauta hans en Donald er hins vegar geysilega stöðugur og er ótrúlega oft á meðal efstu manna. Hann dettur því lítið niður inni á milli og skorar þar af leiðandi hátt á peningalistunum, en allir sem komast í gegnum niðurskurð á atvinnumannamótum fá verðlaunafé.

Donald tók þátt í 25 mótum á árinu og hafnaði nítján sinnum á meðal tíu efstu manna sem er með ólíkindum ef horft er til þess hve mikil samkeppni er í íþróttinni í hæsta gæðaflokki.

Er ekki högglangur

Donald er ekki högglangur miðað við það sem gengur og gerist á mótaröðunum og af þeim sökum fagna margir velgengni hans. „Ég er viss um að einhverjir kylfingar hafa horft til minnar velgengni og áttað sig á því að maður þarf ekki að geta slegið 100 mílur. Það er margt annað sem spilar inn í þessa íþrótt en högglengd. Ég myndi njóta þess að geta slegið lengra en ég verð að stóla á það sem ég hef og mína hæfileika. Ég hef sannað að ef þú ert góður og beinskeyttur í stutta spilinu og púttunum geturðu átt gott ár, sama hvað gengur á,“ sagði Donald í samtali við Eurosport eftir að hann var kjörinn kylfingur ársins á PGA-mótaröðinni í vikunni.

Hefur ekki sigrað á risamóti

Donald er þó engan veginn búinn að sigrast á þeim áskorunum sem bíða kylfinga í heimsklassa. Þrátt fyrir mikinn stöðugleika hefur honum þó ekki tekist að sigra á risamóti. Besti árangur hans á risamóti er 3. sæti á Masters árið 2005 og 3. sæti á PGA-meistaramótinu 2006. Sama ár hafnaði hann í 12. sæti á opna bandaríska mótinu og besti árangur hans í opna breska kom 2009 þegar hann varð í 5. sæti. Donald olli miklum vonbrigðum á opna breska síðastliðið sumar og komst þá ekki í gegnum niðurskurðinn en Englendingar virðast eiga erfitt með að höndla pressuna á opna breska mótinu.

Örn sigraði manninn sem sigraði heiminn

Nú þegar Luke Donald hefur sigrað golfheiminn þá er skemmtilegt að hugsa til þess að Örn Ævar Hjartarson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja, hafði betur í alvöruleik á móti Donald fyrir áratug. Ísland lék þá um verðlaun á EM áhugamanna í golfi en þar er um liðakeppni að ræða og leikin holukeppni þegar í útsláttarkeppnina er komið.

Lið Íslands var skipað þeim Björgvini Sigurbergssyni, Ólafi Má Sigurðssyni, Haraldi Heimissyni, Helga Birki Þórissyni og Ottó Sigurðssyni auk Arnar Ævars. Í undanúrslitum mætti Ísland liði Englands sem þótti sigurstranglegt í mótinu og tapaði rimmunni en Örn Ævar lenti á móti Donald og vann leikinn.

„Indælis náungi“

Morgunblaðið hafði samband við Örn Ævar og bað hann að rifja upp kynni sín af kylfingnum sem nú er í efsta sæti heimslistans.

„Hann var einn sá besti í háskólagolfinu á þessum tíma og þar var ég einnig að spila. Hann þótti vera einn af þremur bestu áhugamönnum heims á þeim tíma. Þetta var indælis náungi og mjög viðkunnanlegur. Hann kannaðist nú lítið við mig,“ sagði Örn af hógværð en Donald hafði þó að sjálfsögðu heyrt af afreki Arnar á St. Andrews. Örn á enn þann dag í dag besta skor sem náðst hefur í þeim sögufræga golfbæ.

„Donald hefur alltaf verið mjög nákvæmur í öllu sem hann gerir. Maður tók eftir honum á æfingasvæðinu og hann gerði aldrei neitt með hangandi hendi.“

Ákveðið að vinna leikinn

Leikurinn á milli þeirra var hörkuleikur og réðust úrslitin ekki fyrr en á 18. holu en EM fór fram í Svíþjóð í þetta skiptið.

„Hann var mjög öruggur og lenti aldrei í vandræðum. Hjá góðum kylfingum er slátturinn alltaf flottur og þá snýst þetta aðallega um hvort það detti eitt eða tvö pútt. Þetta var hörkuleikur og við spiluðum báðir nokkuð vel. Ég reikna alla vega með því að skorið hefði verið mjög gott í höggleik. Ég vann hann 1/0 á 18. og það var skemmtilegt hvernig leikurinn endaði en við vorum jafnir eftir 17 holur. 18. holan er par 5 og Helgi Þóris gekk með mér seinni níu holurnar og gerðist kylfuberi. Eftir teighöggið var ég 200 metra frá og maður þurfti að slá yfir vatn til að komast á flötina.

Upphafshöggið hjá Donald var styttra og hann lagði því upp í öðru högginu. Ég hugsaði með mér að gera slíkt hið sama en Helgi rétti mér bara 3-tré og við ákváðum að láta vaða og vinna leikinn. Höggið endaði í flatarkantinum og ég fékk léttan fugl en Donald fékk par. Þetta er í mínum huga eftirminnilegast frá þessari viðureign,“ sagði Örn eins og ekkert væri sjálfsagðara og lýsir þessu eins og leikurinn hafi farið fram í 3. deild sveitakeppni GSÍ.

Nokkuð til að monta sig af

Þegar undirritaður spyr Örn hvort honum þyki ekki vænt um þessar minningar í ljósi þess sem Donald hefur nú afrekað þá getur Suðurnesjamaðurinn ekki neitað því að svo sé.

„Jú jú. Maður man vel eftir nokkrum augnablikum á ferlinum og þetta er eitt af þeim. Þessi sigur er náttúrlega einn af hápunktunum á mínum ferli og eitthvað sem ég get montað mig af,“ sagði Örn ennfremur við Morgunblaðið og hló við.