Sókrates kvaðst vita það eitt, hversu lítið hann vissi. Þótt hann hefði ef til vill verið að gera sér upp lítillæti, erum við mennirnir skeikulir, ekki síst þegar við teljum okkur vita eitthvað, sem við vitum ekki.

Sókrates kvaðst vita það eitt, hversu lítið hann vissi. Þótt hann hefði ef til vill verið að gera sér upp lítillæti, erum við mennirnir skeikulir, ekki síst þegar við teljum okkur vita eitthvað, sem við vitum ekki.

Frægt er, þegar Lenín sagði í kveðjuræðu yfir verkamönnum í Svisslandi 8. apríl 1917 (sjá Collected Works , 23. bindi, 372. bls.): „Rússland er smábændaland og einna skemmst á veg komið í Norðurálfunni. Þar getur sósíalisminn ekki sigrað tafarlaust og beint.“ Nokkrum mánuðum síðar rændu Lenín og lið hans völdum í Rússlandi og héldu þeim í 74 ár.

Annað dæmi um slíka seinheppni var það, sem Ólafur Friðriksson sagði á 10. þingi Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins (sem þá voru ekki skilin að) í nóvember 1930: „Kreppan er hvergi til nema í kollinum á Brynjólfi Bjarnasyni.“ Vitnuðu íslenskir kommúnistar síðan oft til þessara orða.

Enn má nefna, þegar Ásgeir Ásgeirsson, þá forseti Íslands, gekk eitt sinn um á meðal vistmanna á Hrafnistu. Þar hitti hann Lása kokk, sem kunnur maður var á sinni tíð. Ásgeir sagði vingjarnlega: „Það þarf nú ekki að kynna okkur Sigurlás Angantýsson.“ En Lási kokkur hét ekki Sigurlás, heldur Guðmundur. Lási kokkur, Guðmundur Angantýsson, var uppi 1901-1985, og kom ævisaga hans út 1985.

Frumhlaup Ásgeirs var vegna þess, að hann þóttist vita það, sem hann vissi ekki. Menn geta líka hlaupið á sig, vegna þess að þeir telja sig muna það, sem þeir muna ekki. Þorsteinn Thorarensen, lögfræðingur og blaðamaður, var prýðilegur rithöfundur og skrifaði bráðskemmtilegar bækur um aldamótamenn. Á öndverðum áttunda áratug var hann fastur pistlahöfundur á dagblaðinu Vísi . Hann birti þar 9. nóvember 1973 harða ádeilu á ýmsa kristna söfnuði. Þar minntist hann á Nýja testamentið og sagði: „En jafnvel undir lok þeirrar miklu sögu spurði meistarinn: „Ja, hvað er sannleikur?““

Andstæðingar Þorsteins voru ekki seinir á sér að benda á, að samkvæmt Nýja testamentinu var það ekki Kristur, heldur Pontíus Pílatus, sem spurði, hvað væri sannleikur. Þorsteini varð svo mikið um, að hann hætti að skrifa blaðadálka: Þetta gerðist á þeim tíma, þegar Íslendingar höfðu enn hæfileikann til að roðna.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is