Æti Kríur reiða sig algjörlega á sandsíli til að fæða unga sína.
Æti Kríur reiða sig algjörlega á sandsíli til að fæða unga sína. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Robert Fumes, prófessor við Háskólann í Glasgow, sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær að ásókn makríls inn á búsvæði sandsílis hér við land væri trúlega hluti skýringarinnar á hnignun sandsílastofnsins.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Robert Fumes, prófessor við Háskólann í Glasgow, sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær að ásókn makríls inn á búsvæði sandsílis hér við land væri trúlega hluti skýringarinnar á hnignun sandsílastofnsins. „Hvort það sé aðalástæðan er ómögulegt að segja til um,“ sagði hann einnig. Í fyrirlestri sínum benti Fumes m.a. á hversu mikil fylgni væri milli sterkari síldarstofns í Norðursjó og hnignunar sandsílastofnsins við Hjaltlandseyjar. Veiðar á sandsíli hefðu sömuleiðis gengið nærri staðbundnum stofnum.

Tók dýfu en rétti úr kútnum

Ástands sandsílastofnsins við suður- og vesturströnd Íslands hefur verið afar bágborið undanfarin ár með þeim afleiðingum að varp hjá fuglum sem reiða sig á sandsíli, s.s. kríum og lundum, hefur gengið hörmulega illa. Engin einhlít skýring er á hnignun stofnsins en makríllinn hefur verið nefndur sem hugsanlegur sökudólgur. Ásókn makríls á Íslandsmið hefur verið tengd við hlýnandi hitastig sjávar.

Sandsílum fækkaði mjög við Hjaltlandseyjar á níunda áratugnum og svo aftur í kringum árið 2000. Fumes sagði að hluti skýringarinnar væri án efa hlýnandi hitastig sjávar en einnig aukinn viðgangur síldarstofnsins í Norðursjó. Þar að auki hefðu auknar sandsílaveiðar haft veruleg svæðisbundin áhrif. Þaðan sem sandsíli hefði horfið liðu 5-10 ár þar til sandsílin ættu afturkvæmt. Fumes sagði í samtali við Morgunblaðið að aðstæður í umhverfinu yrðu að vera réttar til að sandsílastofninn tæki við sér. Ef stofninn væri veikur á stóru svæði tæki slíkt mun lengri tíma.