Hugsandi mönnum hefur á öllum öldum orðið starsýnt á misskiptingu gæðanna.

Hugsandi mönnum hefur á öllum öldum orðið starsýnt á misskiptingu gæðanna. Snorri Sturluson sagði í Eddu : „Ef nornir ráða örlögum manna, þá skipta þær geysi ójafnt, er sumir hafa gott líf og ríkulegt en sumir hafa lítið lén eða lof, sumir langt líf, sumir skammt.“

Íslenski kommúnistaleiðtoginn Brynjólfur Bjarnason vitnaði iðulega í fræg ummæli franska rithöfundarins og Nóbelsverðlaunahafans Anatoles Frances, sem sagði um fátæklinga: „Þeir verða að ganga til verka sinna andspænis hinu hátignarlega jafnrétti laganna, sem banna ríkum sem fátækum að sofa undir brúarsporðum, betla á strætum úti og stela brauði.“

Minnir þetta beiska háð á orð írska dómarans Sir James Mathews, sem lést 78 ára 1908: „Í Englandi hafa allir sama aðgang að dómstólum – eins og að Ritz-hótelinu.“ Get ég trútt um talað. Auðmaður einn dró mig fyrir enskan dómstól, og kostaði það mig hátt í þrjátíu milljónir króna.

Snorri rakti misskiptingu gæðanna til norna, en þeir France og Mathew bentu báðir á aðstöðumun ríkra og fátækra. Sænski rithöfundurinn Arnold Ljungdal, sem uppi var 1901-1968, gekk lengra en þeir. Aðstöðumunurinn væri manngerður: „Það rignir yfir réttláta og rangláta. Vandinn er aðeins sá, að hinir ranglátu hafa venjulega komist yfir regnhlífar hinna réttlátu.“ Annar kunnur Svíi, Hjalmar Branting, leiðtogi jafnaðarmanna og þrisvar forsætisráðherra, sagði: „Það er hæðst að hinum lamaða með því að tryggja honum réttinn til að ganga, eins og frjálshyggjumenn vilja.“

Svipuð hugsun var orðuð á einfaldan hátt á fundi í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur snemma í nóvember 1960. Svavar Guðjónsson verkamaður gagnrýndi þar þá kenningu ráðamanna, að við værum öll að ausa úr sömu skálinni og ekki stækkaði hún við það, þegar menn stjökuðu þar hver við öðrum. „Já, en sum okkar hafa sleifar og önnur aðeins teskeiðar!“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is