[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Fréttaskýring

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline hefur samþykkt að veita rannsóknarhópi á Landspítala og við læknadeild Háskóla Íslands styrk upp á eina milljón evra til að rannsaka faraldsfræði pneumókokka á Íslandi, áhrif bólusetningar gegn þeim, sýklalyfjaónæmi, kostnað og útbreiðslu bakteríunnar. Handhafar styrksins eru Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir, og Helga Erlendsdóttir, lífeindafræðingur og klínískur prófessor við sýklafræðideild Landspítala.

Pneumókokkar eru bakteríutegund sem er algengasta orsök lungnabólgu utan spítala og miðeyrnabólgu og önnur algengasta orsök heilahimnubólgu. Bakterían hefur fundist í 50-70% heilbrigðra leikskólabarna á Íslandi en er í flestum tilfellum skaðlaus. Þó létust 10 börn vegna alvarlegrar pneumókokkasýkingar á árunum 1975-2010 og 134 fullorðnir.

Bólusetning gegn bakteríunni hófst á síðasta ári og er framkvæmd samhliða öðrum ungbarnabólusetningum. Vonir standa m.a. til að í kjölfarið muni þekking aukast á bakteríunni, tilfellum eyrnabólgu mögulega fækka talsvert og ónæmum pneumókokkum fækka, sem myndi aftur leiða til minni sýklalyfjanotkunar.

„Það sem gerir okkur kleift að framkvæma svona rannsókn er að bólusetningin hérlendis fer fram á landsvísu og líka að hér hefur verið haldið utan um allar þessar alvarlegu sýkingar á einum stað,“ segir Helga. Hún segir þessa miðlægni upplýsinga eina af forsendum þess að styrkurinn fékkst en einnig að hér á landi hafi pneumókokkar verið rannsakaðir í tvo áratugi og mikil sérfræðiþekking orðið til samfara því.

Helga segir að rannsóknin komi til með að snerta á mörgum flötum, bakterían sjálf verði til ítarlegrar skoðunar en áhrifa bólusetninganna gæti einnig gætt víða, m.a. í breytingum á fjölda innlagna vegna lungnabólgu og í fjölda röraísetninga í eyru.

„Við höfum fengið leyfi til þess að tengja þetta við bólusetningagagnagrunn landlæknis og þegar þessi árgangur 2011 skilar sér inn í leikskólana getum við séð hvaða áhrif hún hefur haft,“ segir Helga. Hún segir að gott samstarf við leikskólana hafi skipt sköpum um að betri skilningur hafi fengist á bakteríunni og að rannsóknarhópnum hafi hlotnast þessi stóri styrkur.

„Núna í mars munum við fjórða árið í röð taka sýni úr heilbrigðum leikskólabörnum til að fylgjast með bakteríunni. Við höfum farið í fimm leikskóla í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi og tekið yfir 500 sýni á hverju ári og höfum átt frábært samstarf við leikskólastjóra og kennara og foreldra sem hafa svarað spurningalistum og verið viljug til að taka þátt í þessari rannsókn,“ segir Helga.

BÓLUSETNING

Ekki lokaútgáfa bóluefnisins

Það er GlaxoSmithKlein sem framleiðir bóluefnið Synflorix og því var sótt um styrk í sjóði þess vegna rannsóknarinnar. Helga segir að alls séu þekktar 93 svokallaðar hjúpgerðir pneumókokka en bóluefnið dugi gegn þeim tíu algengustu.

„Þetta er ekkert lokabóluefni og eitt af því sem við vonumst til að komi út úr þessari rannsókn er meiri skilningur á áhrifum bólusetningarinnar sem mun hjálpa til við þróun á betri bóluefnum við þessum sýkingarvaldi,“ segir Helga.