Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Ég átti tvo fundi með fulltrúum frá Dróma áður en ég fór með málið til Fjármálaeftirlitsins (FME). Það á ekki að koma þeim hjá Dróma á óvart að þetta sé komið í þennan farveg.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Ég átti tvo fundi með fulltrúum frá Dróma áður en ég fór með málið til Fjármálaeftirlitsins (FME). Það á ekki að koma þeim hjá Dróma á óvart að þetta sé komið í þennan farveg. Það er mitt hlutverk að gæta hagsmuna skuldara og hjá Dróma finnst mér mörgu ábótavant í þeim efnum,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Umboðsmanni skuldara og Hagsmunasamtökum heimilanna hefur borist fjöldi kvartana vegna aðgerða Dróma gagnvart skuldurum. Hlutafélagið Drómi var stofnað og yfirtók skuldir SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans árið 2009.

Ásta átti fund með Fjármálaeftirlitinu síðasta föstudag og segir hún embættið ekki hafa komið úr lausu lofti með mál Dróma. „Samkvæmt skýru lagaákvæði getur FME tekið þetta mál upp að eigin frumkvæði. Ég hef ekki valdheimildir en mér ber samkvæmt lögum að flytja þessar ábendingar og erindi skuldara til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds sem er FME. Það er hlutverk þess að fara í rannsóknarvinnuna og tryggja að hjá Dróma séu viðhafðir sömu viðskiptahættir og hjá fjármálafyrirtækjum.

Vill virkja eftirlit FME

Það sem mér finnst svo stór þáttur í þessu máli er að skuldir einstaklinga og fjölskyldna hafi verið settar inn í slitameðferð og þar er það slitastjórn SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans sem einnig situr í stjórn Dróma hf. sem hefur síðasta orðið. Vegna þess þurfum við sérstaklega að virkja eftirlit FME og lagaskylda þess er algjörlega skýr. Í 101.gr. a. í lögum um fjármálafyrirtæki segir að FME eigi að hafa eftirlit með framgöngu fjármálafyrirtækja, sem er stýrt af slitastjórn, gagnvart viðskiptavinum en framganga þeirra á að vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi,“ segir Ásta.

Henni finnst alvarlegt í starfi Dróma hversu seint og illa félagið svari. „Það eru ekki bara skuldarar sem fá engin svör, starfsfólk mitt fær illa svör. Þá hef ég rætt við fasteignasala sem segja samskipti sín við Dróma hafa verið erfið, sama segja starfsmenn hjá Íbúðalánasjóði og lögmenn sem starfa fyrir skuldara.“

HAGSMUNASAMTÖK HEIMILANNA

Vilja eftirlitsnefnd

Andrea Ólafsdóttir, formaður Hagmunasamtaka heimilanna, vill að þær skuldir sem Drómi er að innheimta verði teknar eignarnámi yfir í Íbúðalánasjóð svo hægt sé að meðhöndla þá lántakendur eins og aðra. „Þeir hjá Dróma hrifsa til sín eignir, fara fram á nauðungarsölur og hafna því að fara í gegnum 110% leiðina með því að meta eignir allt of hátt. Þeir ætla sér að taka eignir af fólki, ekki að afskrifa eða leiðrétta.“

Samtökin hafa sent erindi til innanríkisráðherra og fara fram á að sett verði á fót eftirlitsnefnd með aðförum að fólki. „Við viljum að þegar á að fara að taka eign af fólki sé eftirlitsnefnd sem fari yfir öll gögn málsins.“