„Hvert ár er áfangi sem ber að fagna,“ sagði Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarmaður og listmálari, sem er 65 ára í dag.

„Hvert ár er áfangi sem ber að fagna,“ sagði Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarmaður og listmálari, sem er 65 ára í dag. Hann ætlar að taka því rólega í dag en tónlistin er honum ofarlega í huga og stendur til að sinna henni eitthvað á þessu ári.

„Ég ætla að setja nýtt lag í spilun í dag og sjá hver viðbrögðin verða,“ sagði Jóhann. „Lagið heitir Á síðasta séns og er sungið af Stefaníu Svavarsdóttur. Pétur Hjaltested tók upp lagið. Vignir Snær Vigfússon spilar á gítar og Ásgeir Óskarsson á trommur. Ég fékk gamla Fender-bassann minn og spila bassann sjálfur.“

Ófærðin eftir áramótin og einangrunin sem henni fylgdi gaf Jóhanni næði til að leggjast yfir nýtt verkefni. „Ég setti saman söngleik fyrir alla fjölskylduna, hvað sem verður. Ég á mikið efni, t.d. frá því ég samdi krakkalög með jákvæðum boðskap fyrir Ruth Reginalds. Ég velti því fyrir mér hvort það mætti raða þessu efni og fleiru í söngleik og hef verið að fást við það,“ sagði Jóhann. Lagið Hjálpum þeim var endurútgefið í fyrra til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar. Jóhann sagði að styðja þyrfti hjálparstarfið allt árið og stendur til að fylgja endurútgáfu lagsins eftir á þessu ári. gudni@mbl.is