Á Bessastöðum Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók þátt í átakinu Ísland allt árið og bauð upp á pönnukökur.
Á Bessastöðum Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók þátt í átakinu Ísland allt árið og bauð upp á pönnukökur. — Morgunblaðið/Golli
Heimboð Íslendinga til erlendra ferðamanna í tengslum við markaðsverkefnið „Ísland allt árið“ náði að kitla fréttanef fréttastjóra ótal fjölmiðla.

Heimboð Íslendinga til erlendra ferðamanna í tengslum við markaðsverkefnið „Ísland allt árið“ náði að kitla fréttanef fréttastjóra ótal fjölmiðla. Fréttir um átakið birtust í 57 löndum og þeirra á meðal eru margar af stærstu fréttastofum heims. Þá náðu heimboðin miklu flugi í samfélagsmiðlum af öllu tagi.

Heimboðin voru upphaflega hugsuð sem upptakturinn að þriggja ára markaðsverkefni, „Ísland – allt árið“, sem miðar að því að fjölga erlendum ferðamönnum utan hins hefðbundna ferðamannatíma um sumarið. Árangurinn fór fram úr björtustu vonum og mikill fjöldi Íslendinga um allt land tók þátt í verkefninu við miklar og góðar undirtektir erlendu gestanna og heimspressunnar, segir í frétt frá iðnaðarráðuneytinu.

Í upphafi var einungis reiknað með að heimboð stæðu í tvo mánuði, en vegna góðrar þátttöku og mikils áhuga ferðamanna hefur verið ákveðið að heimboðin verði áfram hluti af verkefninu, en reynt verður að tengja þau áherslum herferðarinnar hverju sinni.