— Morgunblaðið/Kristinn
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is „Það er alveg ljóst að það sem eftir er þarf að bíða þar til botn fæst í hvernig eigi að reikna vextina. Við erum að meta fordæmisgildið og hversu víðtækt það er.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

„Það er alveg ljóst að það sem eftir er þarf að bíða þar til botn fæst í hvernig eigi að reikna vextina. Við erum að meta fordæmisgildið og hversu víðtækt það er. Á meðan aðhöfumst við ekki mikið,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans. Íslandsbanki og Landsbankinn hafa sett endurútreikning gengislána til fyrirtækja á bið á meðan skorið verður úr um þýðingu vaxtadóms Hæstaréttar sem féll í síðustu viku.

Alls ætlaði Landsbankinn að reikna út 4.400 lán til fyrirtækja upp á nýtt en af þeim eru um fimmtán prósent eftir. Alls gerir það á sjöunda hundrað lána. Sum lánanna voru hjá SpKef.

Hjá Arionbanka fengust þær upplýsingar að lokið hefði verið við að endurreikna öll fyrirtækjalán, sem hinn svokallaði Motormax-dómur náði til, um áramótin. Hins vegar þyrfti að bíða eftir niðurstöðu um fordæmisgildi vaxtadómsins frá því í síðustu viku fyrir lán sem þegar hafa verið endurreiknuð.

Samkvæmt upplýsingum Íslandsbanka eru ekki mörg mál á bið þar en endurútreikningur fyrirtækjalánanna hafi verið mjög langt kominn. Ástæðan fyrir því að ekki hafi þegar verið lokið við endurútreikninginn sé sú að Motormax-dómurinn hafi náð til lánaforms hjá Landsbankanum. Því hafi Íslandsbanki þurft að fara yfir dóminn og yfirfæra niðurstöðuna á sín lán. Það hafi tekið nokkurn tíma.