Fjármálaráðherrann Ólafur Ragnar Grímsson á Alþingi um 1990. Hann þótti litríkur og skeleggur í embætti.
Fjármálaráðherrann Ólafur Ragnar Grímsson á Alþingi um 1990. Hann þótti litríkur og skeleggur í embætti. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erlendir lánardrottnar gætu náð heljartökum á efnahagslegu sjálfstæði okkar

Á undanförnum árum hefur ríkt mikil óstjórn í okkar landi, ekki bara óstjórn á vettvangi ríkisins heldur einnig víða í atvinnulífinu, hjá fyrirtækjunum og forstjórunum, reyndar hjá öllum þeim sem eytt hafa stórlega um efni fram. Erlendar skuldir okkar Íslendinga hafa vaxið um marga milljarða á hverju ári og senn stefna þær í svo háar upphæðir að erlendir lánardrottnar gætu náð heljartökum á efnahagslegu sjálfstæði okkar. Síðustu ríkisstjórnir hafa á engan hátt ráðið við vandann. Þær hafa ár eftir ár skotið sér hjá erfiðum ákvörðunum, verið haldnar hugarfari sjúklingsins sem finnur dag frá degi að honum þverr þróttur en hefur ekki kjark til að horfast í augu við veruleikann,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi haustið 1988.

Margir gætu ætlað sem svo að þessi ummæli væru sögð í dag en ekki fyrir 24 árum. Að minnsta kosti eru þessa lýsingar á málum líðandi stundar býsna svipaðar nú og var fyrir tæpum aldarfjórðungi. Orðfærið er nánast það sama.

Ólafur Ragnar Grímsson var þaulreyndur stjórnmálamaður og átti að baki áralangan feril í þremur flokkum þegar hann, þá nýlega orðinn formaður Alþýðubandalagsins, leiddi flokk sinn til stjórnarþátttöku haustið 1988 eftir langa eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu. Forystumenn Framsóknar- og Alþýðuflokks ákváðu að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – en Þorsteinn Pálsson, formaður þess flokks, var í forsæti ríkisstjórnarinnar. Var þá tekið höndum saman við Alþýðubandalagið og skipuðust mál svo að Alþýðubandalagið fékk fjármálaráðuneytið í sinn hlut.

Atli Rúnar Halldórsson var í áraraðir þingfréttamaður Útvarpsins og var eðli máls skv. í miklum samskiptum við stjórnmálamenn.

„Sem stjórnmálamaður bjó Ólafur Ragnar að því að hafa verið kennari, enda var framsetning hans á málum yfirleitt skýr og skilmerkileg. Á sínum tíma sat ég hjá honum í fyrirlestrum í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og stundum fannst mér ég vera kominn aftur þangað þegar ég fylgdist með honum á Alþingi. Bresk stjórnmál höfðu greinilega haft áhrif á Ólaf Ragnar. Hann fór oft bratt í hluti, var óvæginn og jafnvel ófyrirleitinn en kveinkaði sér ekki undan óvægnum árásum mótherjanna. Hitt má þó segja að stundum í ágreiningsmálum líðandi stundar, þegar Ólafur var kominn með menn „á krókinn“, gekk hann stundum skrefi lengra en ástæða var til og galt þess. Hann gat ekki látið kyrrt liggja að höggva,“ segir Atli Rúnar um fjármálaráðherrann sem lengi skoraði hátt þegar spurt var um óvinsælasta stjórnmálamanninn. Það varaði hins vegar ekki lengi og sumarið 1996, þegar þjóðin valdi sér nýjan forseta, var Ólafur Ragnar kjörinn og þótti vel að því kominn.

Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is