Ekki er sama stóll og stóll. Ætli Grundarstóllinn myndi bera greinarhöfund?
Ekki er sama stóll og stóll. Ætli Grundarstóllinn myndi bera greinarhöfund? — Morgunblaðið/Gísli Sigurðsson
Allt byrjaði þetta á veitingastað úti í bæ. Veitingastað sem sérhæfir sig í heilsufæði, til að bæta gráu ofan á svart. Betri helmingurinn hafði sumsé dregið mig þangað inn til að snæða kvöldverð með þeim orðum að maturinn væri sérstaklega ljúffengur.

Allt byrjaði þetta á veitingastað úti í bæ. Veitingastað sem sérhæfir sig í heilsufæði, til að bæta gráu ofan á svart. Betri helmingurinn hafði sumsé dregið mig þangað inn til að snæða kvöldverð með þeim orðum að maturinn væri sérstaklega ljúffengur. Það má vel vera. Ég er alltaf svolítið skeptískur þegar heilsufæði er annars vegar, gengur bölvanlega að verða saddur af grasi. Leist þó hreint ekki illa á réttinn sem ég pantaði við afgreiðsluborðið enda kom kjúklingur með grasinu. Engin bið var heldur eftir matnum. Sem er gott.

Því næst lagði ég leið mína inn í salinn og kom auga á laust borð í honum miðjum. Setinn var Svarfaðardalur á veitingastaðnum þetta kvöld. Eftir að hafa lagt kjúklinginn og grasið á borðið hugðist ég setjast niður – eins og lög gera ráð fyrir. Skipti þá engum togum að stóllinn gaf sig um leið með þeim afleiðingum að ég skall með látum í gólfið og rúllaði þar um. Viðstaddir ráku upp stór augu. Einhverjir spruttu á fætur og buðust til að hjálpa, aðrir glottu við tönn. Eða það fannst mér alltént. Ég staulaðist af eigin rammleik á fætur, tiltölulega ólaskaður, og starði í forundran á stólinn, eða það sem var eftir af honum.

Starfsfólk staðarins baðst auðmjúklega afsökunar þegar ég skilaði stólnum fram og fullyrti að þetta hefði aldrei komið fyrir áður. Það var hughreystandi. Maturinn smakkaðist ágætlega.

Ég velti þessu svo sem ekkert mikið fyrir mér í framhaldinu. Þetta var plaststóll með visnum járnfótum og mátti augljóslega ekki við miklu. Hann hlaut að vera verksmiðjugallaður.

Fáeinum dögum síðar runnu hins vegar á mig tvær grímur. Ég sat þá við tölvuna mína í Hádegismóum, þar sem þessi orð eru skrifuð, og átti mér einskis ills von þegar skrifstofustóllinn minn, réttnefnd völundarsmíð, fór skyndilega að skjálfa undir mér. Á mig kom slagsíða. Skilrúmið kom í veg fyrir að ég steyptist á hliðina að þessu sinni en tilfinningin var vond eigi að síður. Þegar ég stóð upp hrundi járndrjóli einn mikill niður úr stólnum. Hann var mölbrotinn og stóllinn hafði augljóslega sungið sitt síðasta.

Eins og jafnan þegar eitthvað fer úrskeiðis hér í Móunum hringdi ég í Arnar Unnarsson lagermeistara. Sagði farir mínar ekki sléttar.

„Nú já, brotnaði stóllinn undan þér. Hvað segir það þér, vinur?“ voru viðbrögð Arnars. Það var föðurlegur tónn í röddinni. Síðan kom hann upp og úrskurðaði stólinn þegar í stað látinn. „Það verður ekki setið á þessum framar.“

Það var með trega sem ég kvaddi þennan dygga stuðningsaðila minn til bráðum átján ára og þegar Arnar leiddi hann í burtu sór ég þess eið að huga betur að mataræðinu strax eftir páskana – eða aldrei seinna en eftir jólin. Gras skal það vera, heillin. Og meira gras.

Í millitíðinni stóla ég ekki á neina stóla.

Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is