Gunnar Guðmundsson fæddist 2. júlí 1932 í Bolungarvík. Hann lést á Landspítala við Hringbraut, blóðlækningadeild, hinn 20. apríl sl.

Foreldrar Gunnars voru Guðmundur S. Ásgeirsson sjómaður og Jensína Ólöf Sólmundsdóttir. Bæði voru þau fædd í Dýrafirði en fluttu á barnsaldri til Bolungarvíkur þar sem þau bjuggu síðan. Auk Gunnars eignuðust þau þrjá aðra syni: Sævar f. 1930, Geir f. 1931 og Rögnvald f. 1934, d. 1988. Fyrir átti Guðmundur dótturina Svandísi sem er látin.

Gunnar kvæntist 5.4. 1958 eftirlifandi eiginkonu sinni Ingibjörgu Pétursdóttur, frá Tungukoti á Vatnsnesi, f. 11.6. 1934. Foreldrar hennar voru hjónin Pétur Theodór Jónsson frá Stöpum á Vatnsnesi og Kristín Jónsdóttir frá Seljatungu í Flóa. Börn Gunnars og Ingibjargar eru: 1) Guðbjörg f. 7.12. 1957, maki Pétur Ingi Guðmundsson. 2) Kristín Sigríður f. 30.9.1961, maki Sigþór Þórarinsson. Dætur Kristínar eru Sigríður Sigurjónsdóttir f. 23.12. 1983, maki Ármann Andri Einarsson, dóttir þeirra er Elín Lilja f. 11.6. 2010, og Kristína Mekkin Haraldsdóttir f. 14.12. 1990. 3) Ástrós f. 24.7. 1964, maki Þorfinnur Ómarsson. Sonur Ástrósar er Baltasar Breki Samper f. 22.7. 1989. Gunnari og Ingibjörgu fæddist andvana drengur 10.8. 1959.

Gunnar ólst upp í Bolungarvík en flutti til Reykjavíkur vorið 1952. Þar gekk hann í Iðnskólann og lagði stund á múraraiðn. Hann starfaði alla tíð við iðn sína. Á yngri árum tók Gunnar þátt í skátastarfi og hafði ætíð mikið yndi af því að ferðast um í íslenskri náttúru sem hann unni heitt. Gunnar hafði gaman af því að hreyfa sig og áhuga á ýmsum íþróttum. Hann lagði stund á fimleika og var í sýningarflokki Ármanns á 6. og 7. áratugnum og var dómari í fimleikum um skeið. Á efri árum fór hann gjarnan á gönguskíði og á skauta langt fram á áttræðisaldur. Þá hafði hann einnig ánægju af golfi. Gunnar las mikið, einkum ljóð og bækur sögulegs eðlis. Hann hafði áhuga á stjórnmálum og fylgdist vel með þróun lands- og heimsmálanna.

Gunnar og Ingibjörg fluttu í Stóragerði árið 1961 og bjó hann þar alla tíð síðan.

Útför Gunnars verður gerð frá Grensáskirkju föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 13.

Margar minningar koma upp í hugann er ég minnist bróður míns Gunnars. Hann var fæddur í Bolungarvík í húsi er stóð á malarkambinum fyrir ofan lendingarvarirnar en húsið hafði áður verið verbúð. Við vorum fjórir bræðurnir og aðeins fjögur ár skildu að þann elsta, Sævar, og þann yngsta, Rögnvald. Á þessum árum var lífsbaráttan hörð. Faðir okkar var sjómaður og var stundum í burtu á vertíðum. Foreldrar okkar höfðu hænsni og kindur til að drýgja tekjurnar og lærðum við því fljótt að hjálpa til heima. Leikvöllurinn var kamburinn og varirnar og sóttu margir drengir til okkar og var því oft glatt á hjalla. Það kom fljótt í ljós að Gunnar var efni í góðan íþróttamann og var sama hvaða íþrótt var í boði, annað en sund. Í plássið hafði flust maður að nafni Guðjón Bjarnason, bakari, frá Ísafirði. Hann var einn af fjölhæfustu íþróttamönnum landsins og sóttum við mikið til hans ásamt öðru æskufólki í þorpinu. Fyrsta viðurkenningin í íþróttum sem Gunnar fékk voru fegurðarverðlaun fyrir glímu. Hann átti síðar eftir að standa sig vel í frjálsum íþróttum en fimleikar voru hans uppáhald. Gunnar fór í sveit að Hæsta-Hvammi í Dýrafirði til heiðurshjónanna Ingibjargar Jónsdóttur og Jóns Arasonar, útvegsbónda. Mörg börn voru þá í Hvammi og voru tómstundirnar vel notaðar. Gunnar var svo heppinn að komast í skipsrúm á Bangsa til Jóns Guðfinnssonar, þá fimmtán ára gamall. Hann fór einnig að grípa í múrverk hér heima hjá Kristni Þórðarsyni Brekkholt. Meðal annars tók hann þátt í að pússa félagsheimilið og sjúkraskýlið. Gunnar fluttist til Reykjavíkur árið 1952 og fór að læra múrverk hjá Ólafi Pálssyni er kenndur var við Siglufjörð. Múrverk varð síðan ævistarf hans. Hann þótti mjög vandvirkur og var því eftirsóttur múrari og flísalagningarmaður. Vinnudagurinn var oft langur. Fyrst eftir að hann fluttist suður kom hann vestur um jól. Tvívegis kom hann hingað til Bolungarvíkur til að múra hús eftir að hann lauk námi. Fljótlega eftir að suður kom fór hann í fimleikadeild Ármanns og komst fljótt í sýningarflokkinn er fór víða um land í sýningarferðir og meðal annars fóru þeir í sýningarferð til Færeyja. Honum var boðið að koma til Finnlands til að æfa fimleika en hann þáði ekki það boð. Seinna var hann lengi dómari í fimleikum. Árið 1958 kvæntist Gunnar Ingibjörgu Pétursdóttur. Þau eignuðust fljótlega íbúð að Stóragerði 28 þar sem þau bjuggu alla tíð. Gunnar var mikill fjölskyldumaður og tók þátt í áhugamálum dætra sinna og barnabarna. Hann átti við veikindi að stríða undanfarið en vildi ekki gera mikið úr veikindum sínum. Ég var svo heppinn að hitta hann fyrir tæpum hálfum mánuði og áttum við góða stund saman. Immu, dætrum þeirra og fjölskyldum vottum við hjónin innilega samúð. Blessuð sé minning góðs drengs.

Geir Guðmundsson.

Hverfum um stund aftur til ársins 1961 en þá var borgin í örum vexti og ný hverfi eins og Háaleitishverfið í uppbyggingu. Þangað flykktist barnafólkið svo að allt iðaði af lífi og athafnasemi í umhverfinu. Þar liggja leiðir okkar hjóna og Gunnars og Ingibjargar fyrst saman. Við vorum öll frumbýlingar í Stóragerðinu sem þurftum að brasa margt sameiginlega, sér í lagi fyrstu árin. Fljótlega myndaðist þægilegt nágrannasamband okkar á milli sem haldist hefur alla tíð síðan.

Þannig varð Stóragerðið gata bernsku barnanna okkar og samgangur tíður yfir ganginn hjá ungviðinu og húsmæðrunum. Hjá Helgu og Agli börnum okkar voru þau hjón ætíð titluð Ingibjörg og Gunnar „á móti“ – en það var heiðurstitill.

Gunnar var dulur á sjálfan sig en hafði sínar skoðanir á hlutunum þótt hann bæri þær ekki á torg. Umfram allt var hann hógvær og viðmótsgóður í allri umgengni. Hann var einnig bæði liðtækur og hjálpsamur þegar til hans var leitað, eiginleikar sem við höfum ávallt kunnað vel að meta.

Gunnar var mikill fjölskyldumaður og sérlega natinn við konuna sína og dætur, ætíð vakandi yfir velferð þeirra og annarra afkomenda. Hann var ekki kvartsár maður, barmaði sér aldrei og það var alltaf allt í lagi hjá honum að eigin sögn. Þess vegna kom andlát hans okkur nokkuð á óvart þrátt fyrir að við vissum að hann gengi ekki heill til skógar.

Þau hjón Ingibjörg og Gunnar hafa reynst okkur afar góðir nágrannar og sambýlingar í hálfa öld og einu ári betur. Fyrir það viljum við þakka um leið og við sendum Ingibjörgu og fjölskyldunni allri okkar einlægustu samúðarkveðjur. Megi minningin um góðar stundir lifa í hjörtum ykkar.

Alda, Steini og fjölskylda.

Mætur maður er fallinn frá, Gunnar Guðmundsson múrari. Ég kynntist Gunnari sem unglingur er ég varð tíður gestur á heimili þeirra Ingibjargar í Stóragerði þegar við elsta dóttir þeirra, Guðbjörg, urðum vinkonur. Mér líður aldrei úr minni hversu fjarskalega vel þau hjón tóku ávallt á móti mér og ætíð fannst mér ég vera ákaflega mikill aufúsugestur. Þannig var einmitt framkoma þeirra við alla, ekki síst okkur unglingana, við okkur var rætt af alvöru og skynsemi og ekki látið sem við værum ábyrgðarlausir krakkakjánar. Það voru jafnt þjóðmál sem heimsmál sem bar á góma og sterk réttlætiskennd ríkti þar. Augljóst var að húsráðendur voru ráðvant fólk sem gekk til verka af alúð, heiðarleika og vinnusemi. Þrátt fyrir ríkan áhuga á samfélaginu var þar jafnframt glaðværð og jákvæðni, hjá Gunnari fyrst og fremst hljóðlát og hógvær kímni, en þó kunni hann vissulega að segja skemmtilega frá.

Gaman var að heyra hann segja frá æsku sinni fyrir vestan og ekki spillti fyrir að verið gat að við fengjum rikling af heimaslóðum hans til að japla á undir frásögninni. Það var dýrðin ein. Hjá Gunnari fékk ég líka að smakka almennilega kæsta skötu með hnoðmör í fyrsta sinn en þar fór smekkur okkar ekki eins vel saman og hvað yndislegan harðfiskinn að vestan varðaði. Gunnar var ætíð sannur Vestfirðingur þótt hann byggi öll sín fullorðinsár hér fyrir sunnan enda voru ferðirnar vestur honum mikilvægar.

Einnig átti fjölskyldan skemmtilegt athvarf í bústaðnum í Grímsnesinu þar sem Gunnar undi sér við að dytta að. Þangað var einnig yndislegt að sækja þau heim og maður fann að þar var Gunnar í essinu sínu. Nú eru þessar stundir minningin ein. Stundirnar með Gunnari eru nú líka dætrum hans og afkomendum dýrmætar minningar sem þau geta kallað fram, nú þegar hann hefur þurft að láta í minni pokann fyrir lúmskum andstæðingi sem hann þó barðist við af sama æðruleysi og ætíð einkenndi hann.

Missir Ingibjargar og söknuður er þó vafalaust mestur þegar traustur bóndi hennar til hálfrar aldar er genginn. Megi minningarnar veita þér huggun, Ingibjörg mín, meðan sárasta sorgin herjar á og síðan styrkja þig og verma er frá líða stundir. Þér, dætrunum, Guggu, Stínu og Ástrós, og öðrum ástvinum votta ég einlæga samúð mína og bið þess að réttsýni Gunnars verði öllum sem hann þekktu leiðarljós. Hvíli hann í friði.

Áslaug J. Marinósdóttir.