22. maí 2012 | Minningargreinar | 1505 orð | 1 mynd

Svandís Jónsdóttir Witch og Raymond Witch

Svandís Jónsdóttir Witch fæddist í Breiðholti 5. júní 1932. Hún lést 4. maí sl.

Raymond Herbert Witch fæddist í Hampton Court 6. október 1927.

Minningarathöfn um Svandísi og mann hennar Raymond Herbert Witch fór fram í Kópavogskirkju 17. maí 2012.

Í Fréttablaðinu 15.5. sá ég að auglýst var minningarathöfn um Svandísi Jónsdóttur leikkonu sem lést eftir erfið veikindi. Svandís var gift Raymond Witch sem einnig var leiklistarmenntaður. Við vorum fjögur sem byrjuðum í leiklistarskóla Ævars R. Kvaran og fórum snemma að vinna saman og æfa ýmis verkefni sem tilheyrðu náminu. Svandís tók að sér að æfa upp einþáttung fyrir stúkusýningu. Fékk hún til liðs við sig Bjarna Steingrímsson, Vilborgu Sveinbjarnardóttur og mig. Í hópinn bættist svo Sigurlína Óskarsdóttir sem benti á leikritið Festarmey að láni, eftir Astrid Lindgren.

Eftir þetta fór Ævar að nota okkur til að sýna við ýmis tækifæri. Þetta þróaðist síðan upp í það að við fengum leyfi Ævars til þess að fara með leikþáttinn til Ólafsvíkur, en þar þekkti Sigurlín vel til. Og í framhaldi af því, í lok fyrra tímabilsins á leiklistarskólanum æfðum við upp annan leikþátt, Geimfarann, sem við sýndum á Vestfjörðum. Þarna var Svandís einn aðaldrifkrafturinn, enda vel menntuð, framtakssöm og forkur dugleg.

Í lok seinni ársins á skólanum hjá Ævari fórum við í sýningarferð um landið með nýja einþáttunga og enn sem nemendur Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran. Árið á eftir stóðumst við inntökupróf í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Nú vorum við ákveðin í að fara ekki fleiri nemendasýningar, töldum skólann of virðulegan fyrir slíkar ferðir. Þá var það að Svandís átti erindi til Guðlaugs Rósinkrans þjóðleikhússtjóra. Hann spurði hvort hún væri ekki ein af þeim sem hefðu verið í Leikflokki Ævars. Hún játti því. Og nú var hún hissa þegar Guðlaugur sagði að hann hefði ekkert á móti því að við færum slíkar leikferðir sem nemendur Þjóðleikhússins.

Við urðum auðvitað himinlifandi og Svandýs fann og þýddi leikritið Morð eða hjónaband. Þar vorum við Bjarni og Svandís, auk Þorsteins Gunnarssonar, sem var þá einn af nemendum skólans. Vilborg gat ekki verið með vegna þess að hún var í MR og hann stóð lengur en leiklistarskólinn.

Til þess að fá lánaða leikmuni sem okkur vantaði frá Þjóðleikhúsinu og vegna ótta vissra kennara um að leiksýning nemenda skólans stæðist ekki gæðakröfur þurftum við að fá viðurkenndan leikstjóra til þess að leggja blessun sýna yfir sýninguna, en ég var leikstjórinn, Þorsteinn lék annan bróðurinn móti Bjarna Steingrímssyni og Svandís var frænkan, sem þeir bræður urðu, annaðhvort að giftast, eða myrða, til þess að eignin héldist í ættinni. Sjálfur lék ég, auk leikstjórnarinnar, forgamlan þjón þeirra bræðra, Harry gamla.

Öll vorum við nemendur, eins og fyrr getur, en eftir að Guðlaugur þjóðleikhússtjóri fékk umsögn Haraldar Björnssonar, leikara og leikstjóra, veitti hann okkur blessun sína og annað sem til þurfti.

Öll útskrifuðumst við svo frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins eftir tveggja ára nám sem þá tíðkaðist. Ég er viss um að allir úr leikhópi nemenda Ævars og Þjóðleikhússins 1960 sakna Svandísar og vottum við ættingjum hennar innilega hluttekningu okkar.

Kristján Jónsson.

Hugurinn leitar til bernskuáranna þegar ég hugsa um Svandísi föðursystur mína, sem nú hefur fengið hvíld eftir áralöng veikindi. Hún var yngsta barn ömmu og afa aðeins 11 árum eldri en ég. Ég leit mjög upp til duglegu frænku minnar með fallega glóbjarta hárið. Minningabrot streyma fram. Hún var félagslynd og átti góða vini. Svana í skátakjól að fara á skátafundi og útilegur. Svana átti stóra dúkku, mikla gersemi, sem gat lokað augunum og stundum fékk lítil frænka að leika sér með hana. Seinna gaf hún dóttur minni dúkkuna, sem nú er í minni vörslu. Svana í Kvennó og svo stúdent frá MR. Svana á ferðalagi í útlöndum og safnaði servíettum handa frænku sinni. Svana að vinna hjá Ellingsen. Svana í leiklistarskóla. Svana að þýða og lesa framhaldsögu í útvarpinu. Svana og leikarahópurinn í sýningarferð um landið.

Já, það var gaman þá. Oft var glatt á hjalla á Spítalastígnum, þar sem alltaf var opið hús fyrir vini og vandamenn. Fjölskyldan öll einstaklega samheldin. Stundum fékk ég að fljóta með Svönu og vinkonum hennar sem mér fannst mikil upphefð. Við vorum góðar vinkonur þrátt fyrir aldursmuninn.

Svana hélt svo til London að forframast í leiklistarfræðum. Þar kynntist hún ástinni í lífi sínu honum Ray. Þau komu til Íslands og störfuðu hér um tíma, settu m.a. upp leiksýninguna Belindu í Hafnarfirði. Svo vildi til að við giftum okkur báðar árið 1963. Ég flutti til Ísafjarðar um tíma og þangað komu Svana og Ray um páskana 1964 og dvöldu hjá okkur nokkra daga. Eftir það urðu samskiptin minni því þau fluttu til London og bjuggu þar alla tíð. Við hittumst þó yfirleitt þegar þau komu til Íslands og oft ók ég þeim á þá staði sem þau langaði að sjá meðan á dvölinni stóð, m. a. til Stokkseyrar þar sem þau giftu sig.

Ég hélt líka lengi þeim sið að senda þeim póstkort ef ég var á ferðalagi og sagði Svana mér að sér þætti það gaman. Alltaf sendi ég líka smápakka með konfekti og stundum hangiáleggi fyrir jólin. Aðeins tvisvar gafst mér kostur á að heimsækja þau í London, en þar tóku þau vel á móti mér og Eyjólfi syni mínum og fóru með okkur í fallegan lítinn bæ sem þau höfðu miklar mætur á.

Seinna skiptið sem við fórum var sjúkdómur frænku minnar farinn að gera vart við sig og ekki mörgum árum seinna var hún komin á hjúkrunarheimili. Ray reyndist henni einstaklega vel í veikindum hennar og sá til þess að allt væri frágengið og í lagi þegar hann lést eftir baráttu við krabbamein. Hann skrifaði mér nokkrar línur með jólakorti 2008 þar sem fram kemur að hann sé orðinn sjúkur og þreyttur. Því miður virðist heilbrigðiskerfið hafa brugðist og hann ekki hafa fengið þá umönnun sem hann þurfti á að halda fársjúkur. Ray lést í desember 2010 og hafði ég ekki tök á að fara við útför hans, en nú minnumst við þeirra beggja.

Ég heyrði Jesú himneskt orð:

Kom, hvíld ég veiti þér.

Þitt hjarta' er mætt og höfuð þreytt,

því halla' að brjósti mér.

Ég leit til Jesú, ljós mér skein,

það ljós er nú mín sól,

er lýsir mér um dauðans dal,

að Drottins náðarstól.

(Stefán Thorarensen.)

Katrín Eyjólfsdóttir.

Látin er í London heiðurskonan Svandís Jónsdóttir Witch. Ég var svo lánsöm að kynnast henni og tilvonandi eiginmanni hennar árið 1963. Svandís hafði þá lokið framhaldsnámi við virtan leiklistarskóla í London eftir nám sitt við leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1960. Áður hafði hún lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Hinn 1. júní 1963 gekk Svandís að eiga Raymond Witch, en hann var einnig leikari og leikstjóri. Leiðir þeirra höfðu legið saman í London og saman fluttu þau til Íslands til að freista gæfunnar. Eftir heimkomuna fékk Ray tækifæri sem leikstjóri hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar við að setja á svið leikritið „Belinda“ eftir Elmer Harris, sem Svandís hafði þýtt og lék hún aðalhlutverkið í leikritinu. Þau fengu lof fyrir þá sýningu.

En margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Það tíðkaðist ekki þá eins og nú að fá erlenda leikstjóra til að setja upp sýningar. Því miður fékk Ray ekki mikið að gera hér á landi sem leikstjóri, svo dvölin hér á landi varð ekki löng. Eftir að þau fluttu aftur til London starfaði Ray við list sína sem „free lance“ mest, lék bæði í sjónvarpi, kvikmyndum og leikhúsi. Það kom fyrir að maður sá hann í ýmsum breskum framhaldsþáttum í sjónvarpinu hér heima. Hann var einstakur maður, mikill sjentilmaður og talaði þessa líka fallegu ensku, svo unun var á að hlýða.

Svandís var íslenskari en allt sem íslenskt er. Mér fannst alltaf einhvern veginn að hún væri að koma úr Borgarfirðinum en ekki frá höfuðborginni London. Hún var alveg einstök kona, dugnaðarforkur til vinnu og góðum gáfum gædd. Það hefði verið sama hvað hún Svandís hefði tekið sér fyrir hendur. Hún var nokkurs konar „mångsysslare“. Svandís ólst upp í stórum systkinahópi og var óvenju kært með þeim öllum. Ray átti eina systur sem býr ásamt fjölskyldu sinni í London. Þeim Svandísi og Ray varð ekki barna auðið.

Svandís bjóst svo sem ekki við að fást mikið við leiklist eftir að þau fluttu utan, en hún vann alltaf skrifstofustörf þann tíma meðan hún hafði heilsu til og var afburða starfskraftur.

Svandís og Ray voru sannir vinir vina sinna. Alltaf stóð heimili þeirra, sem fyrst var í Kensington og síðar í Bloomsbury, opið gestum frá Íslandi og kærkomið var að fá íslenskan mat að heiman. Þær gleymast ekki stundirnar þegar við fórum til Oxford, Bath og fleiri staða með þeim hjónum að ógleymdum mörkuðunum í London. Það var í gegnum þeirra gleraugu sem ég kynntist þessari heimsborg.

Síðast þegar leið mín lá um London síðla árs 2009 lá Ray á sjúkrahúsi þar sem hann andaðist skömmu síðar. Svandís dvaldi á hjúkrunarheimili síðustu árin þar sem hún lést í lok apríl sl.

Þegar þessir góðu vinir mínir eru nú kvaddir koma upp í hugann góðar minningar bæði héðan og frá London.

Ég votta bræðrum, mágfólki og systkinabörnum Svandísar mína dýpstu samúð. Minningin um þau hjón mun lifa.

Bryndís Óskarsdóttir.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.