Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Herða verður reglur bæði í Keflavík og Seyðisfirði og stórauka upplýsingar um hættuna af innflutningi á lifandi dýrum."

Ísland býr við sérstöðu á mörgum sviðum og öfundsverða stöðu hvað heilbrigði búfjár varðar. Hér eru smitandi sjúkdómar í húsdýrum teljandi á fingrum annarrar handar en þeir skipta tugum í Evrópu. Margir þeirra valda miklu tjóni þar og hættu eins og við þekkjum. Við höfum stranga löggjöf og allur innflutningur á lifandi dýrum og hráu kjöti er bannaður til Íslands af bæði öryggisástæðum en ekki síður af dýravernd. Eigi að síður höfum við tekist á við afleiðingar sjúkdóma sem borist hafa hingað með lifandi búfé svo sem karakúlfé 1933. Segja má að mjólkurkýr okkar og nautabúskapur sé laus við alla alvarlega smitsjúkdóma. Þessa stöðu ber okkur að verja með kjafti og klóm. Við höfum lagt mikla peninga í að koma þeim sjúkdómum fyrir kattarnef sem hingað hafa borist eða halda þeim í skefjum. Það er ekki gert til skemmtunar að setja hunda og ketti í tímabundna einangrun sem hingað eru fluttir eða banna íslenska hestinum að sjá Ísland á ný sé hann fluttur út. Þetta gerum við af því innflutningur á lifandi dýrum er dauðans alvara fyrir hina heilbrigðu dýrastofna landsins.

Hver drap hvern og hversvegna?

Mörðurinn litli sem smyglað var með Norrænu varð að deyja. Að flytja hann til landsins var lögbrot og gat verið stórhættulegt, hann hefði þurft í einangrun en samt hefur af mörgum ástæðum verið algjört bann á að flytja merði til landsins. Tollverðir eru ekki öfundsverðir en þeir standa sína vakt og skylda þeirra er að allir hlíti lögum landsins. Það er alvarlegur hlutur ef landamærastöðvar í Evrópu stimpla pappíra ferðamanna og gefa þeim grænt ljós á að fara með lifandi dýr til Íslands. Ég skora á stjórnvöld í framhaldi af marðarmálinu að fara yfir það með ESB að slíkt sé lögbrot. Herða verður reglur bæði í Keflavík og Seyðisfirði og stórauka upplýsingar um hættuna af innflutningi á lifandi dýrum eða allskonar kvikindum og ekki síður óhreinum fatnaði t.d. hestamanna. Skaðinn af hitapestinni í hrossum olli hér milljarða tjóni og salan til útlanda datt niður um tíma og var bönnuð meðan dýralæknar rannsökuðu hverslags sjúkdómur var á ferðinni. Það er ekki síst dýravernd sem fólk þarf að hafa í huga sem veldur þessum ströngu reglum okkar. Og allir þeir sem eiga dýr elska þau og vilja ekki sjá þau þjást og kveljast eða að dreppest verði þeim að aldurtila. Lærum nú af þessari reynslu og stöndum vörð um heilbrigða auðlind sem við eigum í okkar húsdýrum. Og vegna íslenskrar náttúru minni ég á að hingað eru að berast kvikindi sem valda bæði trjám og gróðri skaða. Svo ekki sé talað um að verjast kæruleysi í kringum allan veiðibúnað laxveiðimanna sem ætti ekki að leyfa að koma með inn í landið.

Höfundur er fv. landbúnaðarráðherra.