Guðfinna Þorsteinsdóttir skáldkona fæddist á Skjögrastöðum í Suður-Múlasýslu 26. júní árið 1891. Hún orti undir skáldanafninu Erla. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Eiríksson og Rannveig Sigfúsdóttir.

Guðfinna Þorsteinsdóttir skáldkona fæddist á Skjögrastöðum í Suður-Múlasýslu 26. júní árið 1891. Hún orti undir skáldanafninu Erla. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Eiríksson og Rannveig Sigfúsdóttir. Móðir hennar var mjög skáldmælt og Sigfús, afi hennar, ritaði margar sögur í þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Átta ára gömul fór hún í fóstur að Krossavík í Vopnafirði og ólst þar upp. Hún gekk einn vetur í unglingaskóla á Vopnafirði og nýtti tímann vel en lengri var formleg skólaganga hennar ekki.

Bókhneigð hennar kom snemma í ljós og voru ljóð og tungumál henni hugleikin. Hún þýddi meðal annars bundið og óbundið mál úr dönsku, sænsku, norsku, færeysku og ensku. Hún þýddi Slag vindhörpunnar eftir hinn færeyska William Heinesen af mikilli list.

Verk hennar eru Hélublóm, frá 1937, Fífulogar, frá 1945, og Ævintýri dagsins, frá 1958, en sú síðastnefnda innihélt þulur og barnaljóð. Guðfinna tók einnig saman þjóðsagnasöfnin Völuskjóðu og Vogrek.

Guðfinna giftist Valdimari P. Jóhannessyni frá Syðri-Vík og eignuðust þau níu börn. Sonur þeirra, Þorsteinn, var nokkuð þekkt skáld. Guðfinna hafði ekki mikinn tíma aflögu fyrir skáldgyðjuna en orti jafnan við dagleg störf. Birta og jákvæðni einkennir skáldskap hennar þar sem vísað er í ævintýri og þjóðkvæði jöfnum höndum. Eftirfarandi ljóð birtist í Hélublóm:

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því, að þér á herðar

þyngri byrði' ei varpað er

en þú hefir afl að bera.

Orka blundar næg í þér.

Guðfinna lést 23. nóvember 1972.