13. nóvember 2012 | Bókmenntir | 1658 orð | 4 myndir

Dyggðin að hugsa um eigin hag

• Skáldsagan Atlas Shrugged eftir hinn róttæka hægri sinnaða heimspeking Ayn Rand hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu Undirstaðan • Bókin hefur selst í átta milljónum eintaka

Baráttukona Heimspekingur Ayn Rand barðist kröftulega fyrir frelsi einstaklingsins eftir að hafa kynnst kommúnsima í heimalandi sínu, Rússlandi.
Baráttukona Heimspekingur Ayn Rand barðist kröftulega fyrir frelsi einstaklingsins eftir að hafa kynnst kommúnsima í heimalandi sínu, Rússlandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin er óður til mikilvægis einstaklingsins í samfélagi manna. Þeir drífa þau áfram.
Bækur

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Það er mikið fagnaðarefni að bókin Atlas Shrugged eða Undirstaðan eftir Ayn Rand sé komin út í íslenskri þýðingu. Í skáldsögunni varpar hún ljósi á heimspeki sína, mikilvægi einstaklingsfrelsisins og rökhugsunar, á skemmtilegan og skilmerkilegan hátt. En bókin er löng – 1.146 blaðsíður takk fyrir – og kostar þekkingarleitin því töluverða vinnu. Lesturinn er hins vegar hverrar mínútu virði, eða því sem næst. Í henni má öðlast góðan skilning á lífssýninni sem Rand talaði fyrir. Þetta er jú skáldsaga og höfundinum tekst að koma henni í áhugaverðan búning. Það var þó ekki skáldsagan sem slík sem dró mig áfram við lesturinn, þótt vissulega hafi ég verið forvitinn um afdrif vina minna í bókinni, heldur naut ég þess fyrst og fremst að lesa hvernig hún rökstyður lífspeki sína. Í bókinni eru fjölmörg samtöl og nokkrar stórkostlegar ræður sem er gaman að lesa og hugsa um.

Gunnlaugur Jónsson, höfundur heimspekiritsins Ábyrgðarkverið (það er smátt í sniðum og auðlesið, mæli með því við alla), benti á í erindi um Ayn Rand um helgina, að einstaklingssinnar eigi ekki að tileinka sér lífsspeki hennar umhugsunarlaust, heldur íhuga hitt og þetta sem hún hefur fram að færa og taka eigin afstöðu um hvert atriði. Einstaklingssinnar eigi ekki að hafa einhvern æðsta prest sem ráða eigi skoðunum manna.

Hefur haft áhrif á marga

Bókin kom út árið 1957 og hefur notið mikilla vinsælda, enda selst í átta milljónum eintaka, þrátt fyrir dræmar viðtökur gagnrýnenda þegar hún kom út. Ásgeir Jóhannesson, sem fer fyrir nýstofnuðu félagi um Rand, sagði í erindi þegar útgáfunni var fagnað fyrir skömmu, að bókin hefði haft áhrif á fjölmarga: Samkvæmt könnun frá 1991 sem gerð var fyrir bókasafn bandaríska þingsins og þarlendan bókaklúbb, Book of the Month Club, sem taldi fimm þúsund lesendur, hafi Atlas Shrugged hafnað í öðru sæti yfir þær bækur sem mest áhrif höfðu á þá – á eftir Biblíunni. Það er raunar nokkuð áhugaverð röðun, því Rand var trúlaus og taldi trú hættulega rökhugsun. En hún kallaði heimspeki sína hluthyggju og lagði einmitt ríka áherslu á rökhugsun. Hjartað – með allar sínar tilfinningar – á ekki að ráða för okkar í lífinu heldur skynsemin.

En Atlas Shrugged er ekki allra. Rand var og er umdeild, enda brjálaður kapítalisti – í allra bestu merkingu þeirrar fullyrðingar. Þetta er jú Morgunblaðið. Það er ekki erfitt að ímynda sér að fjölmargir andstæðingar hennar hugsi með brosi á vör til þessara orða Aristótelesar, sem var sá heimspekingur sem hafði mest áhrif hana: „Þögnin er tign konunnar.“ Já, hún hefði nú betur þagað, kerlingin! er örugglega tautað hér og hvar.

Bókin er óður til mikilvægis einstaklingsins í samfélagi manna. Samfélög er drifin áfram af einstaklingum og því er mikilvægt að leyfa hverjum og einum að blómstra – í friði. Hver með sínum hætti. Frjóir einstaklingar sköpuðu nefnilega mikilvægar tækninýjungar, listaverk, fyrirtæki og heimspeki. Þeir eru því frumforsenda blómlegra samfélaga.

Atlas Shrugged fjallar um það þegar bestu menn bandarísks samfélags; athafnamenn, vísindamenn, listamenn og heimspekingar, taka að hverfa einn af öðrum. Seinna kemur í ljós að þeir hafa fengið sig fullsadda á miklum ríkisafskiptum. Rauði þráðurinn í sögunni er afdrif Bandríkjanna þegar atvinnulífinu hefur verið slátrað með ríkisafskiptum og öflugasta fólk landsins er horfið á braut. Og lausnin sem stjórnmálamenn sjá á vandanum er æ meiri miðstýring.

Aðalsögupersónan heitir Dagny Taggart. Hún rekur risastórt járnbrautafyrirtæki sem afi hennar heitinn, sem hún lítur upp til, stofnaði. Hún er eldklár, hugsar ávallt skynsamlega og er hörð í horn að taka. Ógift er hún blessunin og keppast þrír hæfileikaríkir menn um ást hennar. Þessi ástamál trufla þó ekki lesendur sem kunna vel að meta hasar eins og í kvikmyndununum The Expendables.

Kjarninn í heimspeki Rand og í Atlas Shrugged er það sem kalla má upplýsta sérhyggju hvers manns, þ.e. hugsa skuli um eigin hag og vilja án þess að ganga á sama rétt annarra. Rand þótti mikilvægt að hver hugsi sannarlega um eigin hagsmuni og heitir t.d. heimspekirit eftir hana, sem undirstrikar þessa skoðun ágætlega, The Virtue of Selfishness.

Lögð er rík áhersla á að hver maður lifi á eigin forsendum í Atlas Shrugged en fórni sér og hamingju sinni ekki fyrir aðra – og því síður biðji aðra um að fórna sér fyrir sig. Það verður vitaskuld að haldast í hendur. Rand skýtur föstum skotum á vinstrisinnaða menntaelítuna í sögunni, sem henni þykir alls ekki fara eftir þessum gildum. Óígrunduð hjarðhegðun er enn fremur eitur í hennar beinum. Auk þess skín í gegn mikilvægi þess að einhver taki af skarið og beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Á dögunum féllu sex lykilstjórnendur Eimskips frá kaupréttasamingum, án umbunar, vegna þrýstings frá lífeyrissjóðum, sem hefðu getað aukið mjög við bankainnstæður þeirrar. Ég held að samkvæmt þessari heimspeki Ayn Rand hafi þeir breytt rangt, því þeir fórnuðu eigin hagsmunum fyrir hagsmuni annarra. Sumum kann að þykja það dyggð, en ekki Rand.

Sjáfstæð hugsun

Einhver fallegasti boðskapurinn í bókinni er að Rand hvetur fólk til að hugsa sjálfstætt. Hugsun er einstaklingsverkefni jafnvel þótt æskilegt sé að leita fanga víða. Auk þess leggur hún ríka áherslu á að ekki eigi að leyfa tilfinningum að stýra gjörðum okkar og hugsunum, heldur brúka skynsamlegar forsendur og leiða af þeim niðurstöður sem vit er í. Það eigi ekki að leyfa t.d. tilfinningunni um réttlæti að ráða því hvað sé réttlátt, heldur þurfi að íhuga málið gaumgæfilega. Himinn og haf getur verið á milli niðurstaðna eftir því hvor leiðin er farin en einungis með rökhugsun er hægt að finna kjarna málsins.

Margir telja sig eflaust oft og tíðum hugsa sjálfstætt, þegar þeir eru í rauninni einungis að fylgja tilfinningu um hvað þeim finnst eða jafnvel ríkjandi skoðun. – Þetta er raunar þema hjá mörgum heimspekingum. En það var einmitt gaman að fylgjast með því hvernig Dagny og aðrir sögupersónur bókarinnar röktu forsendur viðhorfa sinna.

Það getur verið erfitt að viðurkenna fyrir sjálfum sér, að maður hugsi einfaldlega ekki nógu sjálfstætt. Sé bara að enduróma viðhorf annarra. Eða átta sig á því, að maður þurfi að lesa sér betur til, áður en afstaðan sé tekin. Maður viti einfaldlega ekki nógu mikið um málið til að taka upplýsta afstöðu.

Það krefst mikils sjálfstrausts að hugsa sjálfstætt og lifa fyrir sjálfan sig en ekki aðra. Eitt sinn sagði móðir mín við mig, þegar á móti blés: „Stattu með sjálfum þér!“ Þau orð fanga einmitt vel kjarnann í einstaklingshyggjunni. Ég hef lengi dáðst að því í einu atriðinu í bókinni þegar fín frú vindur sér upp að Dagny í kokteilboði og segir henni að út frá ákveðinni háttsemi muni fólk draga ályktanir um að hún hafi hagað sér óæskilega. En Dagny kærði sig kollótta, og sagði að þá væru þau einungis að draga rangar ályktanir. Hér er æskilegt að nefna þrjá þætti sem Rand þótti mikilvægir í lífi hvers manns: Styðjast við rök, hafa sjálfstraust og hafa tilgang. Þessi þrjú atriði þykir mér góður tékklisti fyrir lífið.

Í kafla sem á frummálinu ber hið stórkostlega nafn The Utopia of Greed er varpað ljósi á skemmtilegt sjónarhorn. Sagt er að ef einhver girnist peninga sem hann hefur ekki unnið fyrir, þá sé litið á það sem réttláta ósk, en ef unnið var fyrir peningunum hörðum höndum, sé það fordæmt og litið á það sem græðgi. Þetta sjónarmið stangast hressilega á við ríkjandi viðhorf.

Ég fagna því að bókin sé loksins fáanleg í íslenskri þýðingu. Við erum svo heppin, að í fyrra kom út bókin The Fountainhead á íslensku, undir nafninu Uppsprettan og eftir ár kemur bókin We The Living út á íslensku. Heimspeki Ayn Rand á sannarlega erindi við íslenskan samtíma.

TVÆR LANGAR BÆKUR EFTIR HANA VERIÐ ÞÝDDAR Á ÍSLENSKU

Flúði frá kommúnisma til Hollywood

Ayn Rand fæddist árið 1905 í Pétursborg, höfuðborg rússneska keisaradæmisins. Foreldrar hennar voru gyðingar og faðir hennar var efnaður lyfsali. Árið 1917 féll keisarastjórnin og skömmu síðar náðu kommúnistar völdum í Rússlandi. Þeir þjóðnýttu einkafyrirtæki landsins, þar á meðal apótek í eigu föður Rand. Árið 1925 flutti hún til Bandaríkjanna, en þá hafði hún lokið námi í sögu og uppeldisfræði í Rússlandi. Hún var fyrst handritshöfundur í Hollywood og síðar rithöfundur í New York. Fjölmennur aðdáendahópur myndaðist í kringum hana, þar á meðal Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri. Hún skrifaði tvær langar skáldsögur, sem báðar hafa komið út á íslensku: Atlas Shrugged eða Undirstaðan og The Fountainhead eða Uppsprettan. Almenna bókaútgáfan gaf út bækurnar. Rand lést árið 1982.

ÞAÐ Á EKKI AÐ HLUTAST TIL UM ÞESSI RÉTTINDI

Líf, frelsi og eignir

Rauði þráðurinn í heimspeki Ayns Rands er: Líf, frelsi og eignir. Það á ekki að hlutast til um þessi réttindi, sagði Douglas Rasmussen, heimspekiprófessor í St. John's-háskólanum í New York-ríki, sem flutti erindi fyrir skömmu um heimspeki og skáldskap Ayns Rands þegar útgáfunni var fagnað á fundi RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.

Líf, eins og hver og einn vill haga því, en ekki eftir því hvað aðrir vilja. Fólk þarf að taka eigin ákvarðanir, útskýrði hann. Frelsi til að taka eigin ákvarðanir en vera ekki þvingaður til athafna og rétturinn til að eiga eignir og fara með þær að vild.

Fólk hefur rétt til að haga lífi sínu eftir eigin höfði, svo lengi sem það virðir rétt annarra. En Rasmussen benti á að það þýddi ekki að valið hefði endilega verið skynsamlegt. Mikilvægt er að hafa í huga að hlutverk ríkisins, í huga Rands, er að verja réttindi einstaklinga.

Rasmussen sagði að í huga Rands væri kapítalískt hagkerfi hvorki siðferðislega rétt né rangt. Aftur á móti gæti það leyst úr læðingi mesta mögulega auð og hamingju.

Við mennirnir getum hugsað. En það þarfnast mikillar vinnu. Rasmussen tók sem dæmi að þegar hann spyrði nemendur sína sem hefðu verið í skriflegu prófi í tvær klukkustundir hvort þeir væru þreyttir (samt sátu þeir nú bara á rassinum og hreyfðu höndina) svöruðu þeir undantekningarlaust: Já!

Hann hvatti fólk til að hugsa, það væri mikilvægt að þjálfa heilann. Þekking væri í raun aðalfjárfestingarvaran, þ.e. það sem notað væri til framleiðslu á öðrum vörum. Hann benti einnig á að það væri ekki hægt að þvinga fólk svo auðveldlega til að hugsa – mannshugurinn virkaði ekki vel þegar beint væri að honum byssu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.