Ingibjörg Jónasdóttir fæddist á Siglufirði 3. febrúar 1926. Hún lést á Dvalarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði 2. nóvember 2012. Foreldrar Ingibjargar voru Jónas Sigurðsson, sjómaður, frá Ísafirði, f. 1903, d. 1962 og Ragnheiður Friðrika Guðmundsdóttir, húsfreyja, frá Flateyri, f. 1891, d. 1953. Hálfsystkin Ingibjargar sammæðra voru Dorothea, Kristján, Gerald, Ilse og Birgitta. Þau eru öll látin nema Birgitta. Hálfbræður Ingibjargar samfeðra voru Leifur og Kristján Tryggvi, þeir eru báðir látnir. Bræður Ingibjargar voru Jón Snorri Jónasson, f. 1924, d. 1979 og Ragnar Guðmundur Jónasson, f. 1927. Hinn 26. desember 1949 giftist Ingibjörg Guðmundi Albert Elíassyni frá Skáladal í Aðalvík, f. 6. mars 1923, d. 8. september 2011. Foreldrar hans voru Elías Albertsson, bóndi, f. 1897, d. 1972 og Halldóra Elín Árnadóttir, húsfreyja, f. 1889, d. 1962. Ingibjörg og Guðmundur eignuðust tvö börn. Þau eru: Ragnheiður Björk, f. 1958, gift Ágústi Ágústssyni og Ellert, f. 1965. Stjúpdóttir Ragnheiðar og dóttir Ágústs er Kolka Hvönn, f. 1998, móðir hennar er Fanney Ósk Gísladóttir. Dóttir Ellerts er Ingibjörg Aþena, f. 2004, móðir hennar er Pálína Sigrún Halldórsdóttir. Inga fluttist fimm ára með foreldrum sínum og bræðrum til Suðureyrar við Súgandafjörð þar sem hún bjó mestan hluta ævi sinnar eða þar til þau hjónin fluttust til Reykjavíkur árið 1997. Inga byrjaði ung að vinna. Hún vann í fyrstu við fiskvinnslu en hóf svo störf í verslun sem þau hjónin áttu. Hún var með meiraprófsréttindi og vann töluvert við akstur, sá meðal annars um akstur skólabarna í sundkennslu árum saman. Hún tók mikinn þátt í öllu félagsstarfi á Suðureyri hvort sem um var að ræða leikfélagið, kvenfélagið Ársól eða störf með Alþýðuflokknum en þar sat hún í flokksstjórn. Inga samdi fjöldann allan af leikþáttum, lögum og textum fyrir þorrablót og aðra mannfagnaði á Suðureyri. Tónlistin átti alltaf hug og hjarta Ingu og fór hún ekki langt án þess að gítarinn væri með í för. Á Suðureyri lék hún undir í sunnudagaskólanum auk þess sem hún starfrækti söngskóla fyrir börn. Í gegnum árin skemmti Inga víða með söng sínum og gítarleik og má þar nefna Útsýnarkvöld, Íslandskynningu Flugleiða í Færeyjum, Heilsuhælið í Hveragerði, Litla-Hraun og Þjóðhátíð í Eyjum. Eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur fór Inga oft ásamt eiginmanni sínum og bróður í heimsókn á stofnanir fyrir eldri borgara þar sem þau skemmtu með söng og gítarleik. Inga og eiginmaður hennar bjuggu síðustu árin á Hrafnistu í Hafnarfirði. Inga verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Alltaf er sárt að kveðja og sérstaklega þegar það er hinsta kveðja. Það er einhvern veginn þannig að við öll sem náð höfum fullorðins aldri erum í raun að kveðja einhvern í hinsta sinn.
Ég er bæði Hafnfirðingur og Súgfirðingur og hef elskað þessi tvö misfjölmennu byggðarlög frá því að ég man eftir mér.
Ég hef alltaf notið þess að vera í umhverfi þar sem búið hafa einstaklingar sem reynst hafa mér kærari en aðrir. Þau hjónin Inga og Mummi frá Suðureyri voru mér kærari manneskjur en margar aðrar sem ég hef átt samskipti við á lífsleiðinni. Þau voru alla tíð vinir mínir. Kærleikur þeirra, lífsgleði og einlægni var upphaf og orsök þess að svo varð.
Þegar ég var verslunarstjóri og kaupfélagsstjóri í afleysingum, stóðu þau mér nær en margur annar um árabil. Auðvitað var samkeppni milli verslananna en ekkert kom þó til greina annað en samvinna. Þorpið okkar og sveitirnar voru einangraðar á vetrum - jafnvel vikum og mánuðum saman. Við vorum fyrst og fremst að þjóna íbúunum og það var metnaður allra að gera það með sem allra bestum hætti. Gera það besta fyrir Súganda og íbúana. Sjálfum hefur mér ekki liðið betur í nokkru starfi. En samvinnan var ekki alltaf vinsæl né vel liðin og stundum var þungt fyrir fæti. Og alltaf var reynt að hliðra og leysa bráðan vanda - jafnt stóran sem smáan. Samkeppni var til - en oftast var reynt að hliðra til svo vanda mætti leysa á miðri Aðalgötunni, sem var á milli verslananna. Vinátta var plús, greiði var plús. Engir mínusar - engin pólitík þó við þrjú værum aldrei flokkssystkin. Aldrei nefnt - Súgfirðingar voru þeir sem þjóna þurfti. Og vetur gátu verið harðir.
Ég var ekki alltaf í náðinni hjá Allaböllunum og Framsóknarhetjunum. En þeir vissu þó að ég sinnti starfinu af heilum hug og oft vantaði margan klukkutímann í sólarhringinn. En á þeirri tíð var samstarfið nauðsynlegt og kötturinn fer sínar eigin leiðir.
Hvað skyldi ég hafa afgreitt mörg strandferðaskipin við Brjótinn? Hversu oft djúpbátinn? Flutningabílana á sumrin og flugvélarnar uppi á flugvelli meðan það ævintýri stóð? Þá voru engin göngin. Margir vörubílar óku vörunum í verslanirnar. Affermt til beggja handa. Friðbert Páls, Gunnar Svavars, Hilmar Gunnars, Ölli heitinn og kannski fleiri óku. Mörg hlöss - endalaus vinna. Dagur og nótt gátu runnið saman.
Inga og Mummi voru einstök hjón. Tónelsk, ljóðelsk og mannelsk. Þeirra börn og annarra börn nutu gæsku þeirra. Ef eitthvað fékkst ekki í kaupfélaginu var gengið yfir götuna - og svo öfugt. Stjórn kaupfélagsins var líklega ekki alltaf sátt við mig - en mér var svo sem sama. Fólkið var mér kærara en einhver stjórn sem sjaldan kom saman. Ég og Suðurversfólkið í samvinnu fyrir Súgandafjörð.
Örugglega - líkt og ég - átti Inga sína dimmari daga. Þá var örugglega gott að kunna á gítar, samið lög og ort texta. Í söngljóðum hennar kemur fram sú mikla elska sem hún bar til Súgandafjarðar. Inga og Mummi voru manneskjur sem aldrei gleymast meðan lífs ég er.
Sú fræga Sumargleði endaði oft sem landsbyggðarferð hér á Suðureyri. Þá var kátt í höllinni og Inga elskaði þetta allt saman. Nú ætla þeir sem eftir lifa að gera eitthvað næsta sumar. Inga hefði ekki viljað missa af því. Við förum aldrei fram hjá Suðureyri sögðu þeir Raggi Bjarna, Ómar Ragnarsson, Maggi Óli, Þorgeir Ástvalds, Hemmi Gunn og Bessi Bjarnason. Allt heimilisvinir við Aðalgötuna. Gítarinn hljómaði, söngurinn ómaði. Þá var svo gaman að vera til. Og Suðureyrardrottningin var glöðust allra.
Og nú kveð ég þessa vini mína. Eins og áin á upptök, endar hún líf sitt við ósinn. Nú lifir minningin ein um þetta góða fólk. Vinir eru kvaddir. Kært kvaddir. Og við sem eftir erum sitjum saman við borð Guðs.
Þakklæti fylgir þessum orðum mínum. Samúðarkveðjur til þeirra sem sakna. Guð elskar og styrkir.
Kæra þökk! Kærar kveðjur!

Ævar Harðarson, Suðureyri.