9. desember 2012 | Sunnudagsblað | 334 orð | 2 myndir

Upplýstar ákvarðanir

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú um stundir er mikið fjallað um verðtryggð lán. Af umræðunni má ætla að margir hafi ekki skilið til hlítar þá skuldbindingu sem þeir tókust á hendur þegar þeir tóku lán.
Nú um stundir er mikið fjallað um verðtryggð lán. Af umræðunni má ætla að margir hafi ekki skilið til hlítar þá skuldbindingu sem þeir tókust á hendur þegar þeir tóku lán. Það er áríðandi að fólk skilji fjármál sín, taki upplýstar ákvarðanir og sníði sér stakk eftir vexti. Skortur á fjármálalæsi hefur veruleg neikvæð áhrif á, ekki bara efnahag einstaklinga, heldur á almenn lífsgæði. Aukið fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum, bættum lífskjörum og auknu aðhaldi að stjórnvöldum. Fjárhagsleg velferð einstaklinga er þannig beintengd hagsæld þjóða. OECD hefur gefið út tilmæli um hvernig standa eigi að eflingu fjármálalæsis:

·Stjórnvöld og hagsmunaaðilar stuðli að hlutlausri, sanngjarnri og samræmdri fjármálalæsismenntun.

·Fjármálalæsiskennsla byrji í grunnskólum, eins snemma og auðið er.

·Ábyrg fjármálalæsisfræðsla sé hluti af góðum stjórnarháttum fjármálafyrirtækja.

·Skýr greinarmunur sé gerður á fræðslu og markaðssetningu.

·Fjármálafyrirtæki tryggi að viðskiptavinir skilji skuldbindingar sem þeir takast á hendur.

·Sérstakur gaumur skal gefinn þáttum sem hafa langtímaáhrif svo sem sparnaði, skuldum, tryggingum og lífeyri.

·Stuðlað skal að eflingu fjármálafærni. Nám miði að þörfum ólíkra hópa og einstaklinga.

·Komandi lífeyrisþegum verði mögulegt að meta framtíðarfjárþörf sína og hvernig núverandi sjóðssöfnun stendur undir henni.

·Fjölbreyttum aðferðum til eflingar fjármálalæsis sé beitt, svo sem herferðum, vefsíðum, upplýsingaþjónustu og viðvörunarkerfi ýmiskonar.

Fjármálafáfræði hefur veruleg neikvæð áhrif á einstaklinga og getur leitt til erfiðleika við útgjaldastjórnun, sem og setningu langtímamarkmiða, svo sem við húsnæðiskaup, starfslok og lífeyristöku. Þá leiðir hún einnig til þess að fólk verður verr í stakk búið til að mæta skakkaföllum. Í nýrri rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi má sjá að þekkingu þjóðarinnar fer aftur frá árinu 2008. Meðalskorið 2008 var 53% en 47% árið 2011 og er munurinn marktækur. Ennfremur halda marktækt færri bókhald. Fjármálalæsi Íslendinga er verulega ábótavant. Það þarf ekki að koma á óvart því fjármálalæsiskennsla er af skornum skammti. Skortur á því var stór þáttur í hruninu sem hér varð. Því er nauðsynlegt að efla fjármálalæsi þjóðarinnar til að hefja okkur upp úr öldudalnum og draga úr hættu á að sagan endurtaki sig.

Breki Karlsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.