Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
„Ef við hefðum ekki haldið áfram að smíða jólaskeiðina þegar byrjað var að láta smíða jólaskeiðar erlendis hefði kunnáttan horfið úr landinu og fyrirtækið lognast út af,“ segir Ásgeir Reynisson, gullsmiður í Gull- og silfursmiðjunni Ernu í Reykjavík. Hann áréttar að smiðjan sé eina fyrirtæki landsins sem smíði silfurborðbúnað og jólaskeiðin, sem afi hans hafi byrjað að framleiða 1946, sé hluti af þessari mikilvægu iðngrein.
Fjórir starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu og þrír bætast við á álagstímum. Sóley Þórisdóttir hannaði jólaskeiðina í ár en skeiðin er misjöfn milli ára. Bergsveinn Elíasson hefur smíðað hana í 21 ár. „Eftir því sem mynstrið er meira er slípivinnan minni,“ segir hann og bætir við að hann geti gert um 10 skeiðar á dag.
Þríkrossinn seldur í Þýskalandi
Ekki fer mikið fyrir smiðjunni í Skipholti 3 en í rýminu eru öflug tól og tæki, sem notuð eru við smíðina á borðbúnaðinum. Meðal annars höggpressa sem var smíðuð í Belgíu 1949. „Það þarf ákveðna þekkingu til þess að smíða borðbúnað og með þessum tækjum getum við gert það á mjög hagkvæman hátt, erum vel samkeppnisfær við erlenda framleiðendur,“ segir Ásgeir. „Þessi tæki og þær aðferðir sem við notum við borðbúnaðarsmíðina nýtast okkur mjög vel í fjöldaframleiðslu á skartgripum,“ heldur hann áfram og vísar meðal annars í framleiðslu á þríkrossinum, sem þau hafa framleitt í um tvo áratugi eftir að hafa átt hagstæðasta tilboðið í útboði Blindravinafélagsins. Í fyrra hafi útflutningur á þríkrossinum síðan hafist til Þýskalands og á dögunum hafi fulltrúar þýska dreifingarfyrirtækisins komið í heimsókn og gert myndband um framleiðsluna. „Þetta er mjög spennandi og mjög ánægjulegt að eina heilbrigða hagkerfið sýni þessari framleiðslu áhuga.“Framleiðslan er fjórskipt. Borðbúnaður, ferðamannavörur, skartgripir og þríkrossinn auk þess sem þau byrjuðu nýlega að framleiða úr undir nafninu Yrsa. „Það hefur gengið ótrúlega vel, en aðalatriðið er að halda þekkingunni í landinu. Það er mikil áskorun en mér finnst ánægjulegt að takast á við nýja tíma,“ segir Ásgeir. Hann bætir við að fyrirtækið standi ekki frammi fyrir neinum innlendum hindrunum heldur sé alþjóðlegt verð á gulli og silfri helsta vandamálið. „Þessi óvissa í heiminum er verst, en við erum vel samkeppnisfær og með lægra verð en nágrannaþjóðirnar.“
GULL- OG SILFURSMIÐJAN ERNA Í FJÖLSKYLDUNNI FRÁ 1924
Kynslóð eftir kynslóð
Guðlaugur A. Magnússon gullsmiður byrjaði með gull- og silfursmíðaverkstæði á Ísafirði 1924 og flutti starfsemina til Reykjavíkur 1927. Árið 1936 hóf hann framleiðslu á borðbúnaði úr silfri. 1947 var fyrirtækið gert að hlutafélagi undir nafninu Gull- og silfursmiðjan Erna hf. Verkstæðið var fyrst við Laugaveg í tengslum við verslun Guðlaugs A. Magnússonar, en engin tengsl eru nú á milli þeirrar verslunar og verkstæðisins.Reynir Guðlaugsson tók við verkstæðinu af föður sínum og börn hans, Sara Steina, Ragnhildur Sif og Ásgeir, hafa séð um reksturinn síðan hann féll frá fyrir rúmum áratug. Reynir, sonur Ásgeirs, vinnur líka í fyrirtækinu og þar með hafa fjórar kynslóðir komið að því á 88 árum.
Árétting 22. desember - Verslun Guðlaugs A. Magnússonar með jólaskeiðina
Vegna viðtals við talsmann Gull- og silfursmiðjunnar Ernu í Morgunblaðinu í gær vilja eigendur verslunar Guðlaugs A. Magnússonar við Skólavörðustíg taka eftirfarandi fram:„Verslun Guðlaugs A. Magnússonar hefur framleitt íslensku jólaskeiðina óslitið frá 1946 og er hún eingöngu seld í versluninni við Skólavörðustíg. Það skal áréttað að skeiðin er hönnuð af barnabarni Guðlaugs, Hönnu Sigríði Magnúsdóttur, sem hefur jafnframt persónulega umsjón með framleiðslu skeiðarinnar. Jólaskeið Guðlaugs er smíðuð úr 925 sterling silfri og á ekkert skylt við jólaskeið Ernu.“