Eftir nokkra daga, þriðjudaginn 19. febrúar klukkan fimm, mun ég halda fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands og svara nokkrum bókum, sem miklir spekingar hafa skrifað gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu árin.

Eftir nokkra daga, þriðjudaginn 19. febrúar klukkan fimm, mun ég halda fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands og svara nokkrum bókum, sem miklir spekingar hafa skrifað gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu árin. En oft hafa raddir úr þjóðardjúpinu orðað frelsishugmyndirnar betur en fræðimennirnir. Til dæmis sagði Júlíus skóari, reykvískur smákapítalisti, í samtali við Matthías Johannessen: „Sjálfstæði er það að sækja það eitt til annarra, sem maður getur borgað fullu verði.“ Minnir þetta á söguna í Landnámu af Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar. Ingólfur bauð að gefa henni Rosmhvalanes, „en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Enn leiðir þetta hugann að Hávamálum: Viðurgefendur og endurgefendur erust lengst vinir.

Frjálshyggjumenn samgleðjast þeim, sem vegnar vel, og tortryggja ríkisvaldið. Loftur Bjarnason útgerðarmaður sagði: „Ég hef getað sofið, þó að öðrum hafi gengið vel.“ Og hið aldna, argentínska skáld Jorge Luis Borges gekk eitt sinn yfir Austurvöll í fylgd Matthíasar Johannessens. Þegar hann sá Alþingishúsið, spurði hann, hvaða hús þetta væri. Matthías sagði honum það. Þá gall í Borges: „Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt! Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum!“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is