Fyrirlestur Hannesar Hólmsteins í hátíðarsal HÍ sl. mánudag markar þáttaskil innan háskólasamfélagsins og getur þýtt stórtíðindi á vettvangi Sjálfstæðisflokksins

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins stendur yfir um þessa helgi. Ekki er ólíklegt að tekizt verði á um ýmis málefni, ESB, gjaldmiðilsmál o.fl. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið einsleitur hópur. Þar hafa alltaf verið viss átök á milli sjónarmiða atvinnuveganna og launþega. Atvinnulífið hefur heldur ekki komið fram í einni samstilltri fylkingu. Stundum hafa hagsmunir sjávarútvegs ráðið ferðinni, á öðrum tímum hagsmunir viðskiptalífsins. Kannski komu þau átök skýrast fram undir lok fjórða áratugar síðustu aldar, þegar sjávarútvegurinn vildi gengislækkun, sem leiddi til þess að nokkur myndarleg verzlunarfyrirtæki römbuðu á barmi gjaldþrots.

Innan flokksins hafa líka verið skiptar skoðanir um, hvort hann ætti að halla sér fyrst og fremst á hægri væng stjórnmálanna eða leita líka inn á miðjuna. Ungir menn á öllum tímum hafa verið í forystu þeirra fyrrnefndu – en þeir sem komnir voru með meiri lífsreynslu og þroska talsmenn þess að leita ekki síður fylgis inni á miðjunni. Stundum hafa þessi sjónarmið komið saman í einum og sama forystumanni. Geir Hallgrímsson hreifst á yngri árum og raunar alla tíð af sjónarmiðum frjálshyggjunnar en hann varð jafnframt sá borgarstjóri í Reykjavík, sem umbylti félagslegri þjónustu í höfuðborginni, sem hún býr enn að.

Við sem ólumst upp í Sjálfstæðisflokki Viðreisnaráranna mótuðumst til lífstíðar af sjónarmiðum og viðhorfum þeirra tíma innan flokksins, sem m.a. og ekki sízt einkenndust af viðleitni til að skapa traust á milli flokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Það traust var lykillinn að því að Bjarna heitnum Benediktssyni tókst að leiða þjóðina með farsælum hætti út úr einni alvarlegust efnahagskreppu 20. aldarinnar, sem stóð á árunum 1967-1969.

Einn af forystumönnum flokksins í upphafi Viðreisnaráranna, Birgir Kjaran, lýsti Sjálfstæðisflokknum með þessum hætti árið 1959:

„Sjálfstæðisflokkurinn er hreinræktað íslenzkt fyrirbæri, sprottinn úr íslenzkum jarðvegi, skapaður af íslenzkri hugsun, til orðinn vegna íslenzkrar nauðsynjar og mótaður af íslenzkum staðháttum. Hugmyndaheimur sjálfstæðisstefnunnar verður því ekki rakinn til annarra landa og þjóða...“

Í bók sem ég skrifaði um átakatíma í sögu Sjálfstæðisflokksins og út kom fyrir síðustu jól (Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör. Veröld 2012) segir:

„Það er of mikið sagt að innan Sjálfstæðisflokksins hafi staðið hugmyndafræðilegar deilur á undanförnum áratugum. Þótt kynslóð þeirra Þorsteins Pálssonar, Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde hafi haldið fram frjálshyggju, með Hannes Hólmstein Gissurarson fremstan í flokki sem eins konar talsmann og Kjartan Gunnarsson að tjaldabaki sem virkan áhrifamann, er erfitt að sjá að orðið „frjálshyggja“ nái betur að lýsa þeirri grundvallarhugsun, sem Birgir Kjaran fjallaði um með framangreindum ummælum.“

Engu að síður er það veruleiki að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið því fram, að tímabil „nýfrjálshyggju“, sem hafi fylgt ofangreindum einstaklingum, hafi verið grundvallarástæðan fyrir hruninu 2008.

Sl. mánudag tókst einn þeirra, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, á við þetta sjónarmið í merkilegum fyrirlestri fyrir troðfullu húsi í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Að mínum dómi markar þessi fyrirlestur ákveðin þáttaskil. Frá haustinu 2008 má segja, að háskólasamfélagið íslenzka hafi þagað þunnu hljóði um hrunið og ástæður þess. Ástæðan er áreiðanlega sú, að of margir sérfræðingar innan þess tóku þátt í að halda því fram síðustu árin fyrir hrun að engin hætta væri á ferðum. Þeim til afsökunar má hins vegar segja, að það sama á við um háskólamenn í öðrum löndum. Þannig sagði prófessor við háskólann í Pennsylvaníu, Devesh Kapur að nafni, í grein í Financial Times hinn 24. júní 2009:

„Það er almennt viðurkennt að háskólamenn (með örfáum undantekningum) hafi verið jafnóviðbúnir og allir aðrir...“

Nú hefur Hannes Hólmsteinn rofið þögnina með eftirtektarverðum hætti og vonandi leiðir það til líflegra umræðna og skoðanaskipta í háskólum á Íslandi um ástæður og afleiðingar hrunsins.

En jafnframt setti prófessorinn fram skoðanir, sem eiga erindi í umræður á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu og þróun atvinnulífsins.

Hann gerði greinarmun á „markaðskapítalisma“ og „klíkukapítalisma“. Hann lýsti þeirri skoðun að á árunum 1991-2004 hefði fyrrnefnd tegund kapítalisma ráðið hér ríkjum en 2004-2008 „klíkukapítalismi: einokun eða fákeppni, fjölmiðlar í eigu auðklíku, dómstólar meðvirkir, stjórnmálamenn háðir auðklíku. Fyrirtæki keyptu ekki upp samkeppnisaðila vegna yfirburða í rekstri, heldur vegna aðgangs að lánsfé“. (Tilvitnun í glærur HHG.)

Í kjölfarið vitnaði hann í Margréti Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem sagði:

„Stjórnmálamennirnir á meginlandinu hafa aldrei skilið það sem við í Bretlandi og í engilsaxnesku löndunum höfum verið að þróa öldum saman og það er frelsi innan marka laganna.“

Fyrir þá, sem hafa fylgzt með og tekið þátt í umræðum innan og utan Sjálfstæðisflokksins síðasta aldarfjórðung um þróun atvinnu- og viðskiptalífs, eru þessi sjónarmið úr þessari átt stórtíðindi.

Þetta er vísbending um að nú sé að skapast jarðvegur innan þessa öfluga stjórnmálaflokks fyrir traustri löggjöf, sem útiloki fákeppni og einokun á markaði - „frelsi innan marka laganna“ eins og Thatcher komst réttilega að orði.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is