Jákvæðni Hrefna Guðmundsdóttir er sálfræðingur hjá Vinnumálastofnun og formaður Félags um jákvæða sálfræði.
Jákvæðni Hrefna Guðmundsdóttir er sálfræðingur hjá Vinnumálastofnun og formaður Félags um jákvæða sálfræði. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Einfaldasta æfingin til að verða hamingjusamari er að hugsa daglega um það sem við erum þakklát fyrir,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, MA í félagsfræði og formaður Félags um jákvæða sálfræði.

„Einfaldasta æfingin til að verða hamingjusamari er að hugsa daglega um það sem við erum þakklát fyrir,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, MA í félagsfræði og formaður Félags um jákvæða sálfræði. Tilgangur félagsins er að kynna jákvæða sálfræði, fræðilegan grunn, hagnýtingu og breiða út gildi hennar.

María Skúladóttir

mas74@hi.is

Félag um jákvæða sálfræði var stofnað árið 2011. Á bak við félagið stendur fólk með áhuga á að rannsaka og miðla fræðum um hvað einkennir farsæld og hvernig fólk getur nýtt sér jákvætt hugarfar til að stuðla að heilbrigðara og hamingjuríkara lífi. Markmiðið er að hafa áhrif á hugarfar þjóðarinnar og stuðla að heilbrigði og hamingju. Félagið vill hafa áhrif á umræðuna með því að fara út í samfélagið og kynna þá möguleika sem felast í jákvæðri sálfræði. Hrefna Guðmundsdóttir, formaður félagsins, hefur ávallt verið áhugasöm um hvað ákvarðar hamingjuna og skrifaði hún BA-ritgerð sína í sálfræði um Íslendinga og hamingjuna. Komst hún að því að nærtækasta skýringin á því að Íslendingar mælast hamingjusamir í hverri könnuninni á fætur annarri, er að hér hefur atvinnuleysi ekki verið ríkjandi vandamál fyrr en nýlega og hér á landi ríkja sterk félagsleg tengsl. „Hann orðaði þetta skemmtilega, blaðamaðurinn frá New York Times, Eric Weiner, sem skrifaði bókina Hamingjulöndin. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hamingjan væri val, ef við gleymum öllu blaðri um erfðafræði, samfélagsmótun og tekjur, eftir að hafa ferðast um sérvalin lönd til að skoða ólíka hamingju þjóða. Það er ekki alltaf auðvelt val og stundum getur það verið óspennandi, en er val engu að síður. Þegar búið er í landi einangrunar og óblíðrar náttúru er bara um tvennt að velja – gera gott úr því eða deyja drottni sínum,“ segir Hrefna.

Viðhorf hefur áhrif

„Þegar við erum í jákvæðu hugarástandi, hugsum við öðruvísi. Þá sjáum við frekar heildarmyndina. Þá hugsum við í lausnum frekar en vandamálum, erum leiknari í samskiptum og meira skapandi.“

Hrefna kláraði meistaranám í félagssálfræði og í grunninn snýst félagssálfræði um áhrif umhverfis á fólk og hvernig fólk mótar sér viðhorf. Viðhorf okkar til eigin getu og farsældar hefur gríðarleg áhrif á hamingju okkar. Hrefna segir að það sé búið að sýna fram á að það sé farsælla að hugsa á þá leið að maður geti ávallt bætt sig frekar en að halda því fram að maður geti ekki breyst. Minnið virki einnig þannig að þegar okkur líður illa hrannast upp minningar af erfiðum aðstæðum og samskiptum, en þegar við erum í góðu skapi sé stutt í jákvæðar og skemmtilegar minningar. „Vissulega skiptir miklu máli að við höfum peninga til að hafa í okkur og á, en umframtekjur virðast ekki auka hamingjuna nema að litlu leyti.“

Farsæl samskipti mikilvæg

Hrefna segir að það sem skiptir mestu máli sé að fólk eigi farsæl samskipti hvað við annað. Einnig skapi mikla hamingju að fást við það sem við höfum áhuga á og að hafa tilfinningu fyrir að við ráðum við verkefnin sem tökumst á við. Hugmyndin að Félagi um jákvæða sálfræði er til komin frá leshópi sem Ásdís Olsen, sérfræðingur í lífsleikni, myndaði og Hrefna var meðlimur í. Leshópurinn sat áfanga um jákvæða sálfræði hjá Tal Ben Shahar, sem slegið hafði í gegn í Oxford þar sem Hrefna lagði stund á meistaranám sitt. Hópurinn hittist reglulega árin 2009-2010 og ræddi fræðin hjá Tal og gerði vikuleg verkefni. Í framhaldi hóaði Hrefna saman hópi áhugasamra um viðfangsefnið í byrjun árs 2011. Þar kom saman fagfólk úr ýmsum stéttum með sameiginlegan áhuga á efninu. Á þessum fundi var stofnaður undirbúningshópur sem vann í því að setja formlega á laggirnar félag um jákvæða sálfræði. Síðar um árið gekk það eftir og Félag um jákvæða sálfræði varð til. „Þetta var einstakur hópur og hefur komið að félaginu frá upphafi.“

Fyrsti heiðursfélagi félagsins var valinn á síðasta fundi og var það Edda Björgvinsdóttir, leikkona og verðandi menningarfræðingur, sem varð þess heiðurs aðnjótandi. Edda hefur verið ötul í umræðunni um mikilvægi húmors og gleði í lífi fólks, auk þess að hafa glatt þjóðina í áratugi. Hrefna hefur einnig lagt mikið upp úr áhrifamætti hlátursins en hún er hlátursjógaleiðbeinandi og nam þá list hjá Ástu Valdimarsdóttur.

Leita að öflugu fólki í stjórn

„Það er einvalalið með mér í stjórn félagsins og við viljum fá fleiri með okkur. Við erum að leita að kröftugu fólki, með áhuga á jákvæðri sálfræði. Fólki, sem getur lagt okkur lið við að byggja upp alvöru fræðasamfélag,“ segir Hrefna.

Félagið er opið öllum og vill það koma fræðsluefni og upplýsingum um málefnið inn í samfélagsumræðuna og vekja athygli á mikilvægi þess að takast á við verkefni með jákvæðu hugarfari. Aðalfundur félagsins verður haldinn 5. apríl næstkomandi. Þá mun dr. María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur segja frá áhrifum á líkamann. Hrefna hvetur alla fagaðila sem og annað áhugafólk um jákvæða sálfræði til að kynna sér starfsemi félagsins og koma á fundinn.

ÆFINGAR FYRIR ÞÁ SEM VILJA AUKA EIGIN HAMINGJU

Auktu hamingjuna

Það getur verið íhugandi að spyrja sig hvað maður er hamingjusamur á bilinu 1-10. Gefðu þér einhverja tölu á þessu rófi, t.d. 6,2 eða 7,8 eða 2,7. Því hærri einkunn, því meiri hamingja. Að svo búnu máttu íhuga hvað það er sem er á þínu valdi sem gæti hækkað þessa tölu um 0,5. Fræðin reyndar deila um hvort best sé að vera 8 eða 10. Einnig er góð æfing að kryfja dag sem er liðinn, t.d. gærdaginn. Fara tiltölulega nákvæmlega yfir klukkutíma fyrir klukkutíma. Gefa síðan hverjum klukkutíma einkunn á bilinu 1-10 fyrir hamingju og vellíðan. Niðurstaðan gæti komið á óvart. Það eru oft þessir smáu hlutir sem gleðja okkur meira en við áttum okkur á. Að hugsa um það reglulega hvað maður er þakklátur fyrir er nærtækasta æfingin sem eykur hamingjutilfinningu með skjótum hætti. Markviss æfing er að skrifa niður þrennt nýtt á hverjum degi yfir ákveðið tímabil sem maður er þakklátur fyrir eða gekk vel á síðastliðnum sólarhring. Það þjálfar okkur í að beina sjónum meira að því sem gengur vel, sem getur verið mjög hvetjandi.
Nánari upplýsingar má finna á jakvaedsalfraedi.is og hægt er að finna síðu félagsins á Facebook.