12. júlí 1994 | Forsíða | 329 orð

Kim Jong-il talinn verða næsti leiðtogi N-Kóreu Viðræðum um kjarnavopnaáætlun

Kim Jong-il talinn verða næsti leiðtogi N-Kóreu Viðræðum um kjarnavopnaáætlun frestað Seoul, Bonn, Washington. Reuter, The Daily Telegraph.

Kim Jong-il talinn verða næsti leiðtogi N-Kóreu Viðræðum um kjarnavopnaáætlun frestað Seoul, Bonn, Washington. Reuter, The Daily Telegraph.

KIM Jong-il, sonur fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu, tók á móti erlendum sendimönnum í gær er þeir komu til að votta samúð vegna fráfalls föðurins, Kims Il-sungs, er lést á fimmtudag. Kim yngri mælti ekki orð af vörum þar sem hann stóð við krystalkistu föður síns en sendimenn máttu segja fáein hluttekningarorð við hann. Sjónvarp landsins sýndi grátandi hershöfðingja reyta hár sitt í örvæntingu og nokkrir börðu enninu í stéttina við líkneski leiðtogans.

Fulltrúar N-Kóreu hafa frestað um óákveðinn tíma öllum frekari viðræðum við Suður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn um deilurnar vegna kjarnavopnaáætlunar N-Kóreu. Aðalsamningamaður Bandaríkjamanna í viðræðunum í Genf, Robert Gallucci aðstoðarutanríkisráðherra, taldi þó að fundir myndu hefjast á ný í lok mánaðarins en engu væri hægt að slá föstu um það.

Robert Gates, fyrrverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, segir að ekki sé útilokað að Kim Il-sung hafi verið myrtur vegna skyndilegrar samningaviðleitni leiðtogans; n-kóreskir hershöfðingjar óttist allar tilslakanir. Í Suður-Kóreu eru menn bjartsýnni, benda á að N-Kórea hafi aðeins frestað fyrirhuguðum leiðtogafundi ríkjanna en ekki aflýst honum.

Talið er fullvíst að Kim Jong-il taki við af föður sínum eins og gert hafði verið ráð fyrir. Heimildarmenn segja að ráðamenn og þá ekki síst yfirmenn hersins virðist staðráðnir í að sem minnst truflun verði af völdum andláts Kims Il-sungs sem var einvaldur í landinu frá stofnun þess 1948 til dauðadags. Miðstjórnarmenn í kommúnistaflokknum voru sagðir vera á leið til Pyongyang til að kjósa nýjan aðalritara og þingið, sem er að sönnu valdalaust í reynd, mun kjósa nýjan þjóðhöfðingja.

Bill Clinton Bandaríkjaforseti varði í gær þá ákvörðun sína að senda stjórn N-Kóreu "einlægar samúðaróskir". Forsetinn sagði að þetta hefði hann gert til tryggja hagsmuni Bandaríkjanna.

Forystugrein/22

Hundakjöt á borðum/16-17

Reuter

UM 150.000 manns héldu sorgarfund við líkneski n-kóreska stalínistaleiðtogans Kims Il-sungs í höfuðborginni Pyongyang í gær. Að sögn sjónarvotta var fólk mun rólegra en fyrstu dagana eftir fráfallið.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.