— Morgunblaðið/Ómar
Alþjóða hamingjudagurinn var haldinn í fyrsta sinn þann 20. mars. Íslendingar eru meðal hamingjusömustu þjóða en hamingjumælingar eru oftast gerðar með því að biðja fólk að meta eigin hamingju á kvarðanum 1-10. Borghildur Sverrisdóttir borghildur74@gmail.com

S ameinuðu þjóðirnar viðurkenna hamingju og vellíðan sem sammannlegt grundvallarmarkmið og hvetja aðildarríki til að leggja áherslu á mikilvægi þess að leita hamingjunnar og að þau séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanir stjórnvalda. Að mæla hamingju er vandmeðfarið og ekki víst að allir geti orðið á eitt sáttir um hvers konar mælitæki skuli nota.

Að sögn Hrefnu Guðmundsdóttur, formanns Félags um jákvæða sálfræði, er fólk almennt spurt hversu hamingjusamt það telji sig vera á bilinu 1-10 og svörin notuð sem mælikvarði á hamingju. Þá segir hún ýmiss konar hamingjupróf vera til.

„Ísland hefur alla tíð mælst með hamingjusamari þjóðum og gerir það enn,“ segir Hrefna og heldur áfram. „Rannsóknir hafa þó sýnt að hamingja íslendinga hefur minnkað eftir hrun en gleymum því ekki að börn eru hamingjusamari í dag en þau voru 2007.“

Samkvæmt nýjustu hamingjurannsóknum mælast Íslendingar með rúma 8, en mældust hæst árið 2003 eða með 8,3. Eftir hrun árið 2009 mældust Íslendingar hins vegar með 7,8.

Hrefna telur að stjórnvöld geti nýtt sér hamingjufræðin á ýmsa vegu til að auka hamingju fólks og þar með skapað betra samfélag. „Það er gott fyrir yfirvöld að vita að hamingjusamt fólk hefur tilhneigingu til að hugsa betur um sig, temja sér hollari lífshætti og taka betri ákvarðanir. Ef starfsfólk er hamingjusamt á það færri veikindadaga og sýnir meiri hollustu við vinnustað sinn ef það upplifir að starf sitt skipti máli,“ segir Hrefna og bendir á fleiri leiðir til að auka hamingju þjóðarinnar sem heildar. Til dæmis hafi það sýnt sig að það að skapa aðstöðu fyrir samskipti auki hamingju. Þannig skipti aðgengi að grænum svæðum til náttúruupplifunar og útivistar máli sem og almennt gott aðgengi að góðri menntun og heilsugæslu og öðru sem stuðlar að réttlátu samfélagi og styður við almenn mannréttindi.

„Á páskum er líka gaman að segja frá því að það er eitthvað í „ritual“ trúarbragða sem eykur hamingju,“ segir Hrefna og bætir því við að íhugun og bænir, það að tilheyra samfélagi og upplifa sig ekki einan eykur líkur á hamingju.

Taktu hamingjuprófið

Hér fyrir neðan eru fimm staðhæfingar sem þú getur verið annaðhvort sammála eða ósammála. Notaðu skalann frá 1-7 hér fyrir neðan til að gefa til kynna hversu sammála þú ert hverju atriði með því að setja viðeigandi númer fyrir framan hverja staðhæfingu. Vinsamlega vertu heiðarleg/ur í þinni svörun.

7 - Algerlega sammála

6 - Mjög sammála

5 - Frekar sammála

4 - Hvorki sammála né ósammála

3 - Frekar ósammála

2 - Mjög ósammála

1 - Algerlega ósammála

____ Á flestum sviðum er líf mitt eins og best verður á kosið.

____ Almennt séð eru lífsaðstæður mínar mjög góðar.

____ Ég er ánægð/ur með líf mitt.

____ Fram til þessa hef ég náð fram flestum þeim markmiðum sem eru mér mikilvæg.

____ Ef ég gæti lifað lífi mínu aftur myndi ég nánast engu breyta.

31 - 35 Mjög sátt/ur

26 - 30 Sátt/ur

21 - 25 Örlítið sátt/ur

20 Hlutlaus

15 - 19 Örlítið ósátt/ur

10 - 14 Ósátt/ur

5 - 9 Mjög ósátt/ur

Heimild: Diener, E., Emmons, R. A., Larsen, R. J., & Griffin, S. (1985). The Satisfaction with Life Scale. Journal of Personality Assessment, 49, 71-75.