30. apríl 2013 | Daglegt líf | 731 orð | 5 myndir

Gestrisnir ísfirskir skíðagöngugarpar

Íþróttamaður Kristbjörn R. Sigurjónsson kynntist skíðaíþróttinni seint en tekur hana nú fram yfir hlaup og þríþraut sem hann stundar einnig.
Íþróttamaður Kristbjörn R. Sigurjónsson kynntist skíðaíþróttinni seint en tekur hana nú fram yfir hlaup og þríþraut sem hann stundar einnig.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fossavatnsgangan er elsta íslenska skíðamótið, fyrst haldið árið 1935. Nú 78 árum seinna virðist stefna í metþátttöku en Kristbjörn R.
Fossavatnsgangan er elsta íslenska skíðamótið, fyrst haldið árið 1935. Nú 78 árum seinna virðist stefna í metþátttöku en Kristbjörn R. Sigurjónsson, einn af forsvarsmönnum göngunnar, segir áhuga fyrir göngunni hafa aukist eftir að bætt var við þeim möguleika að ganga 50 kílómetra leið. Heimsþekkt skíðafólk tekur reglulega þátt í Fossavatnsgöngunni og lofar útsýnið og vestfirska gestrisni.

Signý Gunnarsdóttir

signy@mbl.is

Það er stöðug aukning hjá okkur og búin að vera undanfarin ár. Þessi ganga okkar var fyrst haldin 1935 og hefur verið haldin meira og minna síðan þá. Það eru margir af eldri köllunum hjá okkur sem ganga alltaf. Einn þeirra lést í fyrra, Sigurður Jónsson, hann gekk fyrstu gönguna og það hefði verið gaman ef hann hefði getað verið með okkur áfram í þessu. Hann var mikill skíðamaður og unnandi þessa sports okkar,“ segir Kristbjörn R. Sigurjónsson, einn af forsvarsmönnum Fossavatnsgöngunnar sem verður haldin næstkomandi laugardag á Ísafirði.

Keppt er í 7, 10, 20 og 50 kílómetra vegalengdum en 50 kílómetra leiðinni var bætt við árið 2004 til þess að geta sótt á erlendan markað.

Ísfirðingar bjóða í kaffihlaðborð

„Áður en við bættum þessari leið við voru þetta 100-110 manns sem tóku þátt í göngunni en þegar við lengdum jókst þátttakan hratt og árið 2005 voru hátt í 200 manns og 303 árið 2009. Það stefnir síðan í metskráningu hjá okkur núna í ár.“ Kristbjörn segir að aðstandendur göngunnar njóti góðs af því hversu rík skíðagönguhefð er á Ísafirði og það leggist allir á eitt um að búa til hátíð í kringum gönguna.

„Á fimmtudaginn erum við með svokallað masterklassnámskeið þar sem þessir frægu skíðamenn koma og kenna fyrst krökkunum og síðan þeim fullorðnu sem vilja. Á föstudaginn bjóðum við upp á brautarskoðun undir leiðsögn staðkunnra manna og síðan er pastaveisla fyrir keppendur. Svo er það að sjálfsögðu gangan á laugardeginum og að henni lokinni kaffihlaðborð.“

Foreldrar skíðagöngubarnanna og velunnarar íþróttarinnar á Ísafirði sameinast í að koma með veitingar á kaffihlaðborð að göngunni lokinni. „Þetta er ekta fermingarveisla og þetta þekkir enginn að utan og gestum okkar finnst þessi hefð mögnuð. Ég hef farið í margar göngur erlendis og aldrei séð svona móttökur.“

Erlendir gestir koma ár eftir ár

Erlendir gestir virðast falla fyrir landinu og vestfirsku landslagi og gestrisni en þeir sem hingað koma sækja gjarnan hingað aftur. „Ein kona hefur komið frá Bandaríkjunum sjö ár í röð og einn frá Svíþjóð hefur komið hingað fjórum sinnum.“ Í ár taka heimsmeistarinn í lengri vegalengd, Seraiana Boner, og sambýlismaður hennar þátt í göngunni og einnig sænski skíðagöngugarpurinn Markus Jönsson. „Það er svo mikið útsýni á þessum gönguleiðum okkar og er gaman að geta þess að það tala allir erlendu gestirnir okkar um hversu fallegt þetta sé. Einn frægasti Svíi sem hefur komið til okkar, Oskar Svärd, sem hefur unnið Vasagönguna fjórum sinnum, tók sér tíma á miðri leið og stoppaði og dáðist að útsýninu. Hann var nú samt sem áður langt á undan öllum öðrum og vann gönguna það árið.“

Gott til að auka þolið

Kristbjörn er sjálfur mikill íþróttamaður og stundar bæði hlaup og þríþraut reglulega með skíðaíþróttinni. „Ég byrjaði ekki að æfa gönguskíði fyrr en 1996 þannig að ég byrjaði tiltölulega seint. Tengdapabbi minn var og er mikill skíðamaður og var alltaf að hvetja mig til að taka þátt í þessu. Mér þótti það furðulegt til að byrja með en í dag held ég að ef fólk hefur áhuga á einhverri íþrótt sem tengist þoli fái maður ekki betra sport en skíðin. Þetta fer vel með þríþrautinni og hlaupunum. Skíðin eru sport númer eitt hjá mér en konan er mest fyrir hlaupin. Við ætlum nú samt bæði að taka þátt í 50 kílómetra göngunni í ár.“

Íslendingar gerast Landvættir

Það nýjasta sem nú er boðið upp á í þessum afreksúthaldsgreinum er að ná því takmarki að gerast Landvættur. „Það byggist upp á fjórum viðburðum og að ná að klára þá. Einn í hverjum landsfjórðungi. Sá fyrsti er hjá okkur hér fyrir vestan; Fossavatnsgangan, 50 km, svo er það Bláalónsþrautin, 60 km hjólreiðar fyrir sunnan, þá Urriðavatnssundið, 2,5 km fyrir austan, og svo er endað á Jökulsárhlaupinu, 32,7 km, fyrir norðan. Ég var með það á dagskrá hjá mér að reyna að taka þátt í þessu öllu en næ ekki að mæta í einn viðburðinn þannig að ég tek þetta bara á næsta ári.“ Kristbjörn segir spána góða fyrir helgina og hvetur alla áhugasama til að skrá sig á fossavatn.com.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.