Sigfús Jóhann Johnsen fæddist í Ögri í Ögurhreppi í N-Ísafjarðarsýslu 27. apríl 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Slottet í Kaupmannahöfn 5. júní 2013.

Foreldrar Sigfúsar voru Baldur Johnsen, læknir við Ísafjarðardjúp, í Vestmannaeyjum og Reykjavík, síðar forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Jóhanna Jóhannsdóttir Johnsen, söngkennari og konsertsöngkona í Reykjavík. Foreldrar Baldurs voru Sigfús M. Johnsen, lögfræðingur og bæjarfógeti í Vestmannaeyjum og Sigurveig Guðrún Sveinsdóttir, matreiðslukennari og húsfreyja í Reykjavík. Foreldrar Jóhönnu voru Jóhann Jóhannesson, bóndi á Möðruvöllum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði og Guðrún Skúladóttir húsfreyja.

Sigfús kvæntist Pálínu Matthildi Kristinsdóttur, f. 14. janúar 1943, þann 27. desember 1964. Börn þeirra eru: 1) Kristinn, phd í eðlisfræði, f. 20. janúar 1966, maki hans er Herdís Dögg Sigurðardóttir. Börn Kristins frá fyrra hjónabandi eru Katrín, f. 1997 og Freyja, f. 1999. Börn Herdísar og stjúpbörn Kristins eru Jón Sigurður, f. 1988 og Zoe, f. 1996. 2) Jóhann Johnsen læknir, f. 7. maí 1969, maki hans er Inga Maren Johnsen. Börn þeirra eru Ebba, f. 2006 og Björn, f. 2008. Börn Jóhanns frá fyrra hjónabandi eru Viktoría Helga, f. 1993 og Benjamín Jóhann, f. 1996. 3) Valgerður Guðrún Johnsen, sagnfræðingur og kennari, f. 19. apríl 1972, maki hennar er Kristján Þór Árnason. Börn þeirra eru Sólveig Matthildur, f. 1994, Tómas Helgi, f. 1998 og Jóhann Gunnar, f. 2008.

Að loknu stúdentsprófi frá MA 1959 lauk Sigfús meistaraprófi í tilraunaeðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann starfaði við háskólann þar til hann flutti til Íslands 1980 og var ráðinn dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hlaut framgang í starf prófessors 1987. Árið 1989 hóf hann aftur störf við Háskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði við Niels Bohr-stofnunina til starfsloka. Sigfús varði mestöllum sínum starfsaldri við rannsóknir á djúpkjörnum úr Grænlandsjökli. Hann tók þátt í 36 borleiðöngrum á Grænlandsjökli og stjórnaði mörgum þeirra. Hann hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga sem brautryðjandi við hönnun og smíði ísbora sem og við öflun og túlkun margvíslegra vísindagagna á sviði eðlisfræði jökla og þróunar loftslagsbreytinga síðustu 150 þúsund árin. Sigfús hlaut m.a. Seligman-kristalinn, æðstu viðurkenningu Alþjóðasambands jöklafræðinga árið 1997. Danadrottning veitti Sigfúsi Dannebrogs-riddaraorðu árið 2000 og Sigfús var handhafi Hans Oeschger-orðu Evrópusambands jarðeðlisfræðinga fyrir framúrskarandi störf á sviði jöklarannsókna. Árið 2010 var Sigfús gerður að heiðursdoktor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og heiðursfélaga í Jöklarannsóknarfélagi Íslands. Sigfús er höfundur yfir 200 vísindagreina, þar af 35 greina í Nature og Science. Hann er í úrvalsflokki vísindamanna og samkvæmt ISI-gögnum Thomson Scientific Inc var oftar vitnað til verka hans, á árunum 1990-2004, en nokkurs annars jarðvísindamanns starfandi í Danmörku.

Minningarathöfn um Sigfús Jóhann Johnsen fer fram í Fossvogskirkju í dag, 20. júní 2013, kl. 13.

Pabbi fékk nýja skó þegar hann var barn á Ísafirði. Þetta voru fallegustu skór sem hann hafði nokkurn tímann séð, samt voru þetta bara ósköp venjulegar gúmmítúttur úr hrágúmmíi, líklega endurunnir hjólbarðar. En sem polli á vappi í kringum Silfurgötuna á Ísafirði og í nærsveitinni, þar sem hann lenti í ýmsum ævintýrum, voru þetta nánast yfirnáttúrulegir skór. Pabbi gat hlaupið hraðar en áður og hann gat líka stokkið talsvert hærra, ekki nóg með það, steinarnir sem skutust undan nýju skónum fóru hraðar og talsvert lengra en áður. Pabbi varð þó fyrir því á þessum fyrsta degi sínum í samvistum við fínu gúmmítútturnar að sparka annarri túttunni lengst út í á og þrátt fyrir misheppnaðar tilraunir til þess að ná aftur í skóinn á leið sinni út í sjó sá hann skóinn aldrei aftur, en hann gleymdi þeim aldrei.

Ég bað pabba ítrekað um að segja mér þessa sögu þegar ég var lítil; „pabbi, segðu mér sögu frá því að þú varst lítill,“ bað ég og þessi saga var yfirleitt svar pabba við suðið í mér.

Ég hef mikið hugsað um þetta minningarbrot pabba á undanförnum dögum enda sé ég að í dag á ég ýmislegt sameiginlegt með litla glókollinum á Ísafirði sem missti skóinn út í sjó. Ég er búin að missa pabba minn, einstakan mann og einn mikilvægasta einstakling í lífi mínu, en ég veit að minningin um hann mun lifa með mér það sem eftir lifir.

Ég er ekki að reyna að líkja pabba við skó, hvað þá gúmmítúttu, pabbi var engin gúmmítútta á meðal manna. En líkt og skórinn, sem gaf pabba yfirskilvitlega hæfileika, hafði pabbi einstök og eftirminnileg áhirf á alla sem umgengust hann. Við gátum ekki stokkið hærra eða lengra, en við fengum betri innsýn í það hvað það þýðir að vera góð manneskja og okkur leið einfaldlega betur þegar pabbi var nálægt. Pabbi hefur verið fyrirmynd mín í lífi mínu fram til þessa og verður enn. Hann var einstakur pabbi, eiginmaður og vinur og það skyldi ekki koma neinum á óvart vegna þess að hann hafði einstaka nærveru og var vinur allra sem hann komst í kynni við. Hann var algjörlega fordómalaus, hlýr og góður og það var alltaf stutt í brosið. Í stuttu máli þá var pabbi öðlingur.

Skórinn hans pabba, sem sigldi út í sjó, hefur lifað í minningu okkar pabba í fjölmörg ár og ég veit að ég mun alla tíð lifa með minningar um pabba í hjartanu, hann verður alltaf nálægur jafnvel þó hann sé einnig upptekinn við önnur verkefni þessa stundina.

Valgerður Guðrún Johnsen.

Pabbi er dáinn. Hann lést í Kaupmannahöfn eftir langvarandi veikindi sem að lokum drógu hann yfir móðuna miklu. Hann var vinmargur og átti samstarfsfélaga út um allan heim. Útförin fór fram frá bæ hinna öldruðu í Kaupmannahöfn í fallegri kirkju. Fjölmargir höfðu látið senda blómvendi og kransa. Svo mikið var af blómum að þeim hafði verið raðað allt í kringum kistuna og eftir miðjum endilöngum ganginum, þannig að þegar við bárum kistuna út eftir athöfnina bárum við hana yfir blómaslóð sem vísaði okkur veginn út að líkbílnum. Kirkjan stendur við endann á langri götu umlukinni trjágöngum sem enda við stórt port. Það átti að brenna pabba og engin líkfylgd átti sér stað. Þegar við vorum búin að koma kistunni fyrir í bílnum ók hann löturhægt af stað út götuna. Við stóðum öll í þögn og biðum þess að bíllin æki út um hliðið. Þegar að hliðinu kom ók hann til vinstri. Himnaríki er sem sagt að finna til vinstri.

Það er með miklum söknuði að ég hugsa til baka um líf pabba, og ég vildi óska þess að við hefðum átt fleiri stundir saman. Þó get ég ekki annað en fagnað því lífi sem hann átti. Hann snerti fjölmargt fólk í gegnum sína ævi og mínir vinir voru vinir hans og vinir hans eru vinir mínir. Hann hikaði ekki við að bjóða kollegum sínum í mat til okkar Herdísar og vinir mínir nutu ósjaldan veislu hjá mömmu og pabba. Pabbi lifði ekki margföldu lífi. Líf hans snerist um vísindi, fjölskyldu, vini og ýmis áhugamál. Hann aðgreindi engan þessara þátta. Hann var alltaf í vinnunni, var ávallt að sinna vinum sínum, fjölskyldu og áhugamálum, allt í senn. Hann lifði fullu heildstæðu lífi. Pabbi bar virðingu fyrir öllu fólki, óháð því hvaðan það kom, aldri og fyrri störfum. Þegar hann talaði við börn talaði hann við þau, ekki til þeirra. Hann átti aldrei í deilum, heldur vildi hann ræða málin með þeim hætti að að lokum var líklegra en ekki að viðmælandi sæi sjálfur hvar hnífurinn stóð í kúnni. Hann sagði ekki fólki hvað það ætti að gera, hugsa, eða trúa, en hjálpaði því sjálfu að finna sína leið. Uppáhaldsmáltæki pabba var að „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Hann lifði samkvæmt því. Pabbi var um margt trúarlega þenkjandi, og hafði óbifandi trú á að vera okkar á jörðinni væri einungis stutt viðvera á löngu ferðalagi. Ennfremur var hann sannfærður um að eftir veru hans hér væri hann kominn með ný verkefni til þess að takast á við.

Pabbi er dáinn og ég minnist hans með söknuði í hjarta, ég get þó ekki annað en glaðst yfir lífi hans og vona að trú hans standi.

Kristinn Johnsen.

Yndislegi Sigfús tengdafaðir minn er fallinn frá. Hljóður, góður og afar bljúgur maður. Síðasta heimsóknin hans til Íslands var óvænt er hann bankaði á dyrnar á febrúarmorgni 2012, með fangið fullt af gjöfum eins og hans var venja.

Einn morgun knýr það dyra

og þegar við opnum

starir það á okkur bláum augum

og spyr hikandi:

Kem ég of snemma

ég hlakkaði svo til

Og enginn úthýsir vori

með himinblá augu í febrúar.

(Þórður Helgason)

Það er ekki hægt að lýsa hreinu hjartalagi í orðum svo vel fari, og því kveð ég nú.

Herdís Sigurðardóttir.

Þegar ég hóf nám í eðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla haustið 1973 að lokinni vinnu við uppgræðslu gosöskunnar á Heimaey, var ljóst að ég var að fara í fótspor frænda míns ágæts, Sigfúsar Jóhanns, sem þá þegar hafði gert garðinn frægan; var kennari við skólann og mikilvirkur vísindamaður á sviði jarðeðlisfræði. Hann vann að rannsóknum á samsætum í ískjörnum Grænlandsjökuls ásamt Willy Dansgaard og teymi hans. Sigfús var lykilmaður í þeim hópi; maðurinn sem hannaði og smíðaði borinn sem veitti innsýn í veðurfar fortíðar. Það var fyrir daga almennrar umræðu um hnattræna hlýnun.

Við Bergþóra komum oft á Ibsensveginn þar sem þau Pálina og börnin höfðu aðsetur á einstaklega ljúfu og hlýlegu heimili. Eiginlega var það lítil náttúrufræðimiðstöð; krakkarnir söfnuðu dýrum, jurtum og steinum – heimilið var fullt af sýnum og dýrgripum náttúrunnar.

Ég átti margar stundir með frænda þar sem við ræddum fræðin. Hann hafði mikinn áhuga á sögu rannsókna á Grænlandi og sögu landsins almennt, hafði komið tugum sinnum til Grænlands, sem var honum annað heimili. Góð vinátta tókst með okkur.

Þegar ég kom heim til Íslands að loknu námi var Sigfús að setja upp massagreininn sem Alþjóða kjarnorkustofnunin hafði gefið Háskóla Íslands og þar naut hann síðar samvinnu við Árnýju Sveinbjörnsdóttur og fleiri sem héldu áfram samstarfi við Sigfús og héldu merki hans og fræðanna á lofti.

Dag einn fyrir nokkrum árum hitti ég Sigfús sem sagði mér að Margrét Þórhildur Danadrotting hefði veitt sér riddarakross Dannebrog fyrir rannsóknir sínar. Sigfús sagði mér að hann hefði verið nýkominn úr Grænlandsleiðangri og svo dasaður að hann myndi varla eftir atburðinum! Þarna var Sigfúsi vel lýst; hann var ekki upptekinn af eigin ágætum. Þá var ég líka um það bil að átta mig á að þessi kæri frændi minn var í vísindaheiminum einn þeirra íslensku vísindamanna sem mest var vitnað í samkvæmt alþjóðlegum vísitölum.

Ég lít til baka um liðinn veg. Eðlisfræðin á vel við okkur. Sigfús faðir minn hafði eitthvað komið að eðlisfræðikennslu nafna síns forðum daga sem kennari í Gagnfræðaskóla – ég valdi sjálfur þessa fræðigrein, fegursta allra! Sigfús Jóhann verður okkur vinum hans og ættingjum ávallt minnisstæður fyrir ljúfmennsku samhliða einstökum brilljans.

Það var gleðilegt að geta fagnað sjötugsafmæli Sigfúsar fyrir nokkrum árum með fjölskyldunni. Nú er ljóst að öðlingurinn er allur.

Við Bergþóra sendum Pöllu, Kristni, Jóhanni, Valgerði og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall Sigfúsar frænda.

Blessuð sé minning hans.

Þorsteinn Ingi Sigfússon.

Mér fannst hann skrýtinn. Í fyrsta skipti sem ég var boðin til þeirra hjóna Sigfúsar og Pöllu var ég látin horfa á skyggnusýningu (heila eilífð að því er mér fannst) af borun í klaka á Grænlandsjökli! Annað sem kom mér kúnstugt fyrir sjónir var að hann hafði alltaf rúðustrikaða stílabók við höndina og gat tekið upp á því grípa til hennar og fara að reikna í miðju samkvæmi og gleyma algerlega stund og stað. En hann gat líka verið manna hressastur og dansað fram undir morgun þegar tækifæri gafst.

En svona var Sigfús, fullur af þverstæðum: Sjálfhverfur, viss um að allir deildu ástríðu hans fyrir loftslagsrannsóknum en um leið sá umhyggjusamasti og hjálpsamasti sem til var. Hann var mikill Íslendingur og stoltur af þjóðerni sínu og öllu því sem íslenskt var en kaus að dvelja meiri hluta ævi sinnar erlendis. Þegar Sigfús var staddur á Íslandi hringdi hann oftar en ekki og sagði: „Ég kem á eftir og við fáum okkur fisk. Áttu nokkuð seytt rúgbrauð?“ Svo mætti hann, hafði komið við í fiskbúðinni, og oftar en ekki með danska félaga sína eða doktorsnema. Þeir urðu að bragða íslenskan fisk „besta fisk í heimi“ (ég er ekki grunlaus um að það hafi verið liður í doktorsnáminu).

Hann var örlátur á öllum sviðum, ekki síst var hann ósínkur á vísindaþekkingu sína. Gott dæmi er að eitt aðfangadagskvöld var hann svo önnum kafinn við að bjarga borunarvandræðum á Suðurskautinu (sem voru nota bene ekkert á hans vegum) að hann ætlaði aldrei að nást frá tölvunni þótt löngu væri orðið heilagt. Mér var fyrir margt löngu hætt að finnast hann skrýtinn og allt önnur orð lýsa Sigfúsi betur, svo sem hjartahlýja, greiðasemi, örlæti og fordómaleysi. Fyrir honum voru allir jafnir. Hann kom fram af sömu virðingu við alla, barnabörnin, nemendur og virtustu vísindamenn. Enda sóttust allir eftir návist hans.

Sagt hefur verið að að baki hvers afreksmanns standi góður maki. Sigfús stóð sannarlega ekki einn. Samband og samlyndi þeirra Pöllu var fallegt og um margt einstakt. Palla skapaði honum rými og tíma sem hann þurfti til að ná svo langt í lífsstarfi sínu. Hún fylgdi honum meira að segja sumar eftir sumar upp á Grænlandsjökul þar sem þau sváfu oft í tjaldi vikur og mánuði í margra tuga frosti. Sigfús sagði líka oft að hans mesta gæfa hefði veri ð að finna hana Pöllu sína bak við massagreininn á Raunvísindastofnun.

Sigfús vissi manna best að við munum seint skilja tilveruna til hlítar, kannski af því að hann varði ævi sinni í að reyna að skilja, skilja náttúruöflin, skilja verðurfar, skilja það sem okkur er hulið. Hann var sannfærður um að til væru víddir sem við hvorki þekktum né skildum. Hann trúði líka því að eitthvað gott tæki við að þessari jarðvist lokinni. Mig langar að trúa því að nú sé hann búin að koma sér fyrir mjúkum sófa með glas af eðalrauðvíni, gorgonzolasneið og Dr. Hook á hæsta. Ég vil að lokum þakka fyrir hartnær fimmtíu ára vináttu sem aldrei bar skugga á. Minningin um þennan einstaka öðling mun lifa.

Hafdís Ingvarsdóttir.

Í dag kveð ég með söknuði vin minn og nánasta samstarfsmann til margra ára, Sigfús J. Johnsen. Ég var svo lánsöm að kynnast honum fljótlega eftir að ég kom heim frá námi, og naut þeirra forréttinda að vinna með honum áratugum saman. Hann var ótvírætt minn mentor – sá sem hafði mest áhrif á mig faglega, mótaði mig sem vísindamann og ekki síður sem manneskju.

Sigfús var einn mesti vísindamaður sem Ísland hefur alið enda hlotnuðust honum meiri alþjóðlegar viðurkenningar en öðrum íslenskum vísindamönnum. Hann var brautryðjandi við hönnun og smíði ísbora og heimsþekktur fyrir vísindastörf á sviði eðlisfræði jökla og þróunar loftslagsbreytinga. Í allri sinni snilld var Sigfús samt sem áður einstaklega lítillátur. Öllum leið vel í návist hans og ekkert var of lítilsvert til að gefa því gaum.

Sigfús var mjög fjölhæfur vísindamaður og jafnliðtækur við fræðin og gerð nýrra rannsóknartækja. Hann hafði sérstakt lag á flóknum mælitækjum. Þegar tæki bilaði og ég hafði gefist upp við að finna hvað olli kom Sigfús með sína hugarró, tók í nefið og eftir smástund var tækið komið í lag. „Það þurfti bara smá barbabrellu,“ sagði hann og tók aftur í nefið.

Menn höfðu oft á orði hversu óeigingjarn Sigfús var á tíma sinn og tæki. Jafnan var hann tilbúinn að hjálpa öðrum, vísindamönnum og stúdentum, hvort sem var við útfærslur á verkefnum eða útreikninga, eða lána tæki – og ætlaðist aldrei til umbunar. Viðhorf hans til vísindanna var samofið viðhorfi hans til lífsins. Í upphafi okkar samstarfs var ég vön að hafa reglu á þeim verkefnum sem áttu að vinnast yfir daginn. Sjaldnast náði ég að fylgja dagsplaninu. Sigfús hafði annan hátt á, sem ég lærði smám saman að tileinka mér. Mér er alltaf minnisstæður morguninn þegar ég áttaði mig á ólíkri nálgun okkar. Við sátum yfir morgunteinu þegar Sigfús sagði: „Jæja, hvað skyldi þessi dagur bera í skauti sér – hvað skyldum við læra nýtt í dag?“ Þá áttaði ég mig á frelsinu sem fylgir því að taka fagnandi öllum verkefnum og ekki líta á þau sem vandamál, og verða ekki uppnæm – jafnvel þó mælingar dagsins færu á hvolf yfir biluðum tækjum.

Ef ætti að lýsa Sigfúsi í einu orði mundi ég velja örlæti – hann var örlátur í víðasta skilningi þess orðs; á tíma sinn, þekkingu og hugmyndir, vísindalegar niðurstöður og ekki síst var hann örlátur sem vinur. „Maður er manns gaman“ var eftirlætis orðtak Sigfúsar og hann kunni að grípa tækifærið þegar það gafst og var reyndar einkar glöggur að koma auga á tækifæri til að gleðjast í góðra vina hópi, setjast niður með rauðvínsglas og góða osta – helst franska geitaosta – og spjalla um allt og ekkert. Það þurfti nefnilega ekki alltaf að segja mikið, nærvera og félagsskapurinn var fyrir öllu.

Ég er forsjóninni ævarandi þakklát fyrir að hafa átt Sigfús að vini. Við Össur biðjum Guð að blessa minningu hans og veita Pöllu og börnunum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum styrk í þeirra miklu sorg.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir.

Elskulegur vinur minn, Sigfús Johnsen, er sofnaður svefninum langa.

Við Sigfús kynntumst fyrir 33 árum, þegar ég var að reyna að læra eðlisfræði. Kærastinn minn sagðist þekkja prófessor sem kynni þetta allt saman. Og Sigfús var prófessor, sannur prófessor. Það var auðsótt mál að kenna mér eðlisfræði. Ég mætti á heimili þeirra Pöllu við Bollagarða. Þar var líf og fjör. Við Sigfús sátum í stofunni þar sem hann kenndi mér eðlisfræði. Þar voru líka strákarnir þeirra Sigfúsar og Pöllu og kærastinn minn, að spila borðtennis. Palla var í eldhúsinu með vinkonum sínum að búa til vorrúllur. Ég náði prófinu.

Síðan leið og beið og ég giftist kærastanum. Við Sigfús vorum komin í sömu fjölskyldu. Margar mjög skemmtilegar fjölskylduferðir hafa verið farnar til Danmerkur, á Júlla Blomm og á Stillinge Strand. Árin 2002 og 2011 áttum við yndisleg sumur í sumarhúsi þeirra að Stillinge Strand. Oft vorum við mörg, en það var alltaf pláss fyrir alla.

Elsti drengurinn okkar, Kristófer, var í konditornámi í Danaveldi í tvö ár. Þá var nú, sem fyrr, gott að eiga Sigfús og Pöllu að. Kristófer var með lykil að heimili þeirra og fékk að vera hjá þeim eins og einn af krökkunum þeirra. Kristófer og við Svanur verðum alltaf þakklát fyrir það.

Ég byrjaði í kennaraháskóla í Noregi 2008. Haustið 2009 var komið að stærðfræðinni og þá bauðst Sigfús til að hjálpa mér á Skype. Eftir mikla hjálp yfir veturinn hringdi Sigfús og þau heiðurshjón komu til Balestrand og Sigfús hjálpaði mér. Ég náði stærðfræðinni með glæsibrag, enda góður kennari hann Sigfús. Síðasta sumar sagði ég honum að ég ætlaði að læra meiri stærðfræði. Sigfús sagði ekki mikið, en hristi höfuðið, og þá vissi ég að þetta var sennilega ekki auðveldasta valið.

Þetta var að sjálfsögðu rétt. Sama dag sem Sigfús minn kvaddi þennan heim fór ég í stærðfræðipróf. Ég keyrði að heiman óvitandi um örlög þessa góða „kærasta“ míns. Allt í einu sá ég þennan fallega haförn, sem flaug rétt fyrir framan bílinn minn. Ég horfði í augu hans og mér fannst þetta vera lukkutákn. Þegar ég frétti seinna þennan sama dag að Sigfús væri sofnaður svefninum langa vissi ég að þetta var hans lokakveðja til mín. Mér gekk vel í prófinu. Ég veit í hjarta mínu að hann verður einnig með mér í næsta stærðfræðiprófi.

Ég gæti talið upp mörg hundruð minningar en þær eigum við, ég og fjölskylda mín, í hjarta okkar. Ég mun sennilega aldrei eignast svona vin, eins og Sigfús var, enda var ég uppáhalds-„kærastan“ hans, eins og Sigfús var vanur að kalla mig. Ég er þakklát fyrir vináttu Sigfúsar og fjölskyldu hans. Og þakklát fyrir að hafa getað fylgt honum síðustu sporin í Kaupmannahöfn þann 11. júní síðastliðinn

Ég kveð þennan góða vin og þakka fyrir alla kennslu og visku.

Við Svanur þökkum fyrir elsku Sigfúsar, umhyggju og kærleika. Við þökkum skemmtilegu samverustundirnar og yndislegheitin. Börnin okkar þakka líka samfylgdina af heilum hug og kveðja með söknuði.

Guð blessi minningu góðs vinar.

Guðrún Kjartansdóttir.

Hálf öld er nú liðin frá því menn tóku að rekja með borunum hina löngu sögu, sem skráð er í freðin íslög hins mikla Grænlandsjökuls. Í því starfi öllu ber hátt nafn merkilegs Íslendings, Sigfúsar Johnsens, sem nú hefur lotið í lægra haldi fyrir erfiðum sjúkleika. Sigfús nam eðlisfræði við Hafnarháskóla og hóf síðan störf á rannsóknastofu próf. Willi Dansgaards, sem þá var tekinn að rekja sögu loftslags með mælingum á samsætum vetnis og súrefnis í fornum jökulís. Einn fyrsti afrakstur samstarfs þeirra var merk grein í tímaritinu Science um loftslagssögu sl. 100.000 ára, sem enn er vitnað til. Var ævibraut Sigfúsar þá mörkuð og við tók þróun sífellt fjölbreyttari rannsóknaraðferða auk þess sem stöðugt var skyggnst lengra aftur í tímann. Reyndist Sigfús mjög hugkvæmur og skapandi við þróun fræðilegra líkana, sem lýsa eðli og hegðun jökulíssins, auk þess sem hann gerðist fljótt forystumaður við hönnun og smíði ískjarnabora. Þóttu tæknilausnir hans jafnan með afbrigðum snjallar.

Á árunum 1980-2010 vannst svo hver sigurinn á fætur öðrum á hinum mikla jökli. Borunin við Dye 3 stöðina á sunnanverðum jöklinum náði botni 1981 og naut Sigfús þá meðal annars frábærrar aðstoðar Pálínu konu sinnar, sem tók virkan þátt í verkefnum á jöklinum um tveggja áratuga skeið. Var ávallt kært með þeim hjónum, enda voru þau jafningjar að greind auk þess sem lífsskoðanir þeirra fóru mjög saman.

GRIP-borunin á hákolli Grænlandsjökuls 1989-1992 og rannsóknastarfið í kjölfar hennar var hápunkturinn á ferli Sigfúsar og fór orðstír hans þá stöðugt vaxandi. Vísinda- og tæknimenn frá Frakklandi, Þýskalandi, Englandi, Rússlandi, Japan og fleiri löndum sóttust eftir þátttöku í boruninni og þessir lærisveinar Sigfúsar urðu síðar stjórnendur viðamikilla djúpborana á Suðurskautslandinu og víðar. Úr hinum 3.000 m langa GRIP-ískjarna fengust stórmerkar upplýsingar um miklar og snöggar veðurfarssveiflur á síðasta jökulskeiði og er oft talað um að tímamót hafi orðið í loftslagsfræðunum er þessi niðurstaða var endanlega staðfest.

NGRIP-djúpborunin fór fram 1996-2004 og veitti ískjarninn traustar upplýsingar um lok síðasta hlýskeiðs ísaldar á norðurhveli, auk þess sem enn var við niðurstöðurnar bætt með NEEM-boruninni, sem lauk 2010. Var Sigfús þá farinn að heilsu, enda hafði hann ávallt lagt sig allan fram við vinnuna í borgryfjunum, auk þess sem hann nýtti hverja stund á milli borvakta til að rýna í gögn sín og fræði. Mikið var jafnan til hans leitað um ráðgjöf og samstarf hvers konar og ávallt var hann boðinn og búinn að deila gögnum sínum með öðrum vísindamönnum. „Við alla vildi ég gott eiga,“ mælti Gunnar á Hlíðarenda eitt sinn við Njál vin sinn og fannst mér oft að Sigfús hefði þá setningu að einkunnarorðum.

Fjölskylda Sigfúsar hefur nú misst kæran eiginmann, föður og afa og fjölmargt vísinda- og fræðafólk saknar þessa merkismanns, sem dáður var og virtur um alla jörð. Með verkum sínum hefur Sigfús Johnsen reist sér veglegan bautastein og mun nafn hans verða á lofti um langan aldur.

Þorsteinn Þorsteinsson.

mbl.is/minningar