Elísabet Jóna Benediktsdóttir fæddist í Stóra-Rimakoti, Ásahreppi (Þykkvabæ) 21. desember 1940. Hún andaðist á sjúkrahúsinu á Selfossi 19. júní 2013.
Foreldrar hennar voru Benedikt Jóhann Pétursson, f. 18.3. 1900, d. 10.9. 1971 og Jónína Þorgerður Jónsdóttir, f. 22.8. 1908, d. 24.7. 1971. Systkini hennar eru Pálína Magnúsdóttir, f. 27.5. 1929, d. 18.6. 1981. Petrína Hólm Benediktsdóttir, f. 20.7. 1932. Anna Jórunn Benediktsdóttir, f. 19.5. 1939.
Elísabet giftist Guðlaugi Konráð Jónssyni frá Reykjavík, f. 22.3. 1940. Elísabet og Guðlaugur eignuðust sex börn. Þau eru 1) Benedikt Jón, f. 1961, maki Agnes Karen Sig, f. 1964. Börn þeirra eru Atli Þór, f. 1983, Tinna Dögg, f. 1988 og Andrea Lind, f. 1996. 2) Eyþór, f. 1962, fyrrum sambýliskona Elísabet Sigurðardóttir, f. 1964. Börn Sigurður, f. 1984, Telma Guðbjörg, f. 1992, og Guðlaugur Andri, f. 1997. 3) Þórey, f. 1964, maki Friðrik Friðriksson, f. 1961. Börn Elísabet Jóna, f. 1986, Guðrún Ósk, f. 1994 og Rakel Rós, f. 1996. 4) Jón Einar, f. 1966. Dóttir Aníta Ylfa, f. 1996. 5) Arnar, f. 1968, maki Aþena Ómarsdóttir, f. 1973. Börn Róbert Daði, f. 1992, Ómar Guðlaugur, f. 1995, Fanný Elísabet, f. 1997 og Björgvin Bjarki, f. 1999. 6) Róbert, f. 1976, maki Jóhanna Vigfúsdóttir, f. 1980, áður giftur Sigrúnu Jónu Eydal, f. 1977. Börn Elfar Logi, f. 1998 og Arnór Páll, f. 2000. Börn Jóhönnu Vigfús Alexander, f. 2007 og Eyþór Rafn, f. 2008.
Elísabet ólst upp í Stóra Rimakoti í Þykkvabæ, fór til Reykjavíkur á unga aldri að vinna á Sólvangi og kynntist manni sínum Guðlaugi. Þau byrjuðu sinn búskap í Reykjavík. Giftu sig fljótlega og eignast fjögur elstu börnin þar. Flytja síðan í Þykkvabæ 1967 og taka við búi foreldra Elísabetar. Eignast þar næst yngsta barn sitt og flytja síðan til Reykjavíkur 1974. Þar fæðist yngsti sonur þeirra. Elísabet starfaði lengst af sem verslunarkona. Og síðustu ár hafa Elísabet og Guðlaugur búið á Hellu.
Útför Elísabetar fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 28. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 13.
Mig langar að minnast í nokkrum orðum hennar tengdamóður minnar, hennar Betu. Ég kynntist henni fyrir 29 árum þegar ég fór að vera með elsta syni hennar, honum Benna. Fljótlega eftir að við fórum að rugla saman reytum flutti ég inn til hennar og tengdapabba og tóku þau mér mjög vel. Ég var nýbúin að missa ömmu mína á þessum tíma og á vissan hátt kom hún og fyllti upp í það tómarúm sem þá hafði myndast. Ég kom ekki ein inn á heimili þeirra hjóna því með í för var 1 ½ árs sonur minn sem þau tóku eins og sínu barnabarni og buðu velkominn inn á heimilið.
Beta var alls staðar vel liðin hvar sem hún starfaði en hún vann mikið við verslunarstörf, bæði hér í Reykjavík og eins er þau hjónin bjuggu í Hveragerði. Eftir að þau fluttu austur í Hveragerði þá höfðum við þá reglu að fara alltaf aðra hvora helgi til að kíkja á ömmu og afa en þegar þau fluttu enn austar eða á Hellu þá fækkaði heimsóknunum því miður. Þegar þau keyptu sér hús á Hofsósi fyrir nokkrum árum þá skynjaði ég það að þarna leið henni vel, hún blómstraði í því sem hún var að gera og hendur hennar unnu mörg falleg handverk, mörg þeirra hafa börnin mín fengið að njóta í afmælis- og jólagjöfum.
Ég tel mig mjög heppna með að hafa fengið að kynnast henni Betu, hún var einstaklega ljúf í alla staði, hafði þægilega nærveru og vildi ekkert nema réttlæti fyrir alla.
Takk fyrir samfylgdina þessi 29 ár og ég veit að nú ertu á góðum stað.
Agnes Karen.
Snemma fór hún að taka til hendinni í sveitinni. Kom þá fljótt í ljós hvað hún var mikil handverkskona, allt lék í höndum hennar. Hún var nýtin og nægjusöm, vildi frekar gefa en þiggja, góð við alla, bæði menn og málleysingja.
Ung kynntist hún lífsförunaut sínum, Guðlaugi Jónssyni, Gulla. Barnalánið var mikið en börnin urðu alls sex talsins, fimm drengir og ein stúlka, sem öll eru mikið prýðisfólk. Fjölskyldan var henni allt og var hún afar stolt af myndarlegum hópi afkomenda sinna. Flest okkar ef ekki öll eigum við eitthvað fallegt sem hún Beta mín bjó til af sinni alkunnu smekkvísi og eru þeir munir gulls ígildi.
Kímnigáfu hafði hún góða, bæði fyrir sjálfri sér og öðrum, kallaði hún mig t.d. ávallt besta tengdasoninn þótt hún ætti bara einn slíkan.
Betu og Gulla kynntist ég fyrst 1984 þegar ég fór að vera með Þóreyju dóttur þeirra. Var mér strax vel tekið á heimili þeirra í Grafarvogi. Síðar áttum við því láni að fagna að Beta og Gulli ákváðu að setjast að hér í Hveragerði og varð það eðlilega til þess að samskipti okkar urðu meira en ella. Dætur okkar áttu ávallt vísar góðar móttökur hjá ömmu og fyrir það verður seint fullþakkað. Einnig vil ég þakka allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman á liðnum árum en með þeim Gulla höfum við fjölskyldan átt fjölmargar ógleymanlegar ánægjustundir. Sérstaklega vil ég minnast sumarsins á Hofsósi þegar við dvöldum þar þrjú, Beta málaði og föndraði og við Gulli rerum á strandveiðum, ríkulega útbúnir gómsætu nesti frá Betu. Það sumar er mér dýrmætt í minningunni og gleymist aldrei.
Að leiðarlokum vil ég þakka tengdamóður minni ástúð hennar og elsku í garð afkomenda sinna um leið og ég bið algóðan Guð að styrkja tengdaföður minn og fjölskylduna alla.
Minningin lifir um ástkæra eiginkonu, móður, ömmu og tengdamóður.
Friðrik Friðriksson.
Við kveðjum þig með ljóðinu hennar Andreu Lindar, Konan, sem hún samdi og ætlar að fara með í dag þegar við kveðjum þig.
Hún er konan hans.
Hún er móðir barnanna.
Hún er amma okkar.
Hún er systir þín.
Hún er dóttir þeirra.
Hún er frænka mín og þín.
Og hún er vinur okkar allra.
Hún verður okkur allt og verður það alltaf.
(Andrea Lind)
Kveðja
Tinna Dögg Kristberg og Andrea Lind Kristberg, Bennadætur.
Fyrir 19 árum síðan, þann 30. janúar, komst þú upp á sjúkrahús til mömmu og nánast tókst á móti mér nýfæddri, og núna 19 árum seinna var ég hjá þér uppi á sama sjúkrahúsi þegar þú kvaddir þennan heim. Ég vil meina að þetta hafi ekki verið tilviljun heldur hafir þú sleppt takinu hjá mér. Ég fékk mjög mikið út úr því að hafa verið þarna og náði því að kveðja þig seinustu mínúturnar. Með tár í augum og sorg í hjarta, kveð ég þig, elsku amma. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið og gert fyrir okkur. Þú settir alltaf alla í fyrsta sæti og áttir það til að gleyma sjálfri þér. Það færir mér gleði í hjarta að hugsa um þann góða tíma sem ég fékk að njóta með þér og þínum. Þú ert sterk og falleg kona, dugleg og hjartahlý. Ég hugga mig við tilhugsunina um alla ástvini þína og vini sem taka við þér með hlýjum örmum á þessum nýja stað, sem ég mun fylgja síðar. Auðvitað hefði ég viljað eyða meiri tíma með þér en „Eitt sinn verða allir menn að deyja‘{lsquo} eins og hann Vilhjálmur Vilhjálmsson vinur okkar segir í texta sínum og er ég þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér.
Þín ömmustelpa,
Guðrún Ósk.
Amma, mamma þín, var búin að ganga í gegnum erfið veikindi og var lömuð hægra megin en samt tókuð þið öll á móti okkur eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þegar árin liðu og þú giftir þig og þú áttir fyrsta barnið hann Benna, ég passaði hann stundum og svo kom Eyi og svo Þórey og alltaf fannst mér gaman að passa þau, orðin stálpaður krakki. Þú átt 6 yndisleg börn og ég þekki þau öll mjög vel nema yngsta soninn Róbert, en ég veit að þau eru öll yndisleg og öll vel gift og eiga yndisleg börn. Þegar ég segi þetta við þau svara þau mér öll strax: já, við eigum bestu mömmu í heimi og þess vegna erum við svona.
Elsku Beta, það var erfitt að horfa á þig berjast við veikindin síðustu vikurnar, þú barðist eins og hetja og varst ekki tilbúin að kveðja en svo kom að því að þú vildir fara, veikindin sigruðu. Ég veit að fjölskylda þín er í sorg og þau eiga um sárt að binda og Gulli maðurinn þinn hefur misst mikið og erfitt að hugga hann. Hann sagði við mig einn daginn þegar ég talaði við hann eftir að þú fórst á spítalann og ég var að hrósa honum fyrir hvað hann væri sterkur og hugsaði vel um þig í veikindunum: hún Beta er búin að dekra við mig alla ævi og nú er kominn tími til að ég dekri við hana. Elsku Gulli, Benni, Eyi, Þórey, Nonni, Arnar, Róbert og fjölskyldur, ég sendi ykkur samúðarkveðjur.
Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefur þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eygir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs,
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga)
Jónína frænka.
Þú varst líka svo flink að sauma og saumaðir stundum eitthvað fallegt á mig og Jónínu systur mína.
Svo kom að því að þú hittir hann Gulla þinn. Hann hélt í fyrstu að þú ættir mig og þyrðir bara ekki að segja honum frá því. Þið Gulli genguð í hjónaband og eignuðust sex börn og hafa þau öll verið heppin að fá að vera börnin þín.
Ég fékk fréttir af veikindum þínum en alltaf vonaði maður það besta. Þessar síðustu vikur sem ég heimsótti þig veika á spítala hugsaði ég hversu ósanngjarnt það væri að leggja þessi veikindi á þig en maður gat ekkert gert.
Elsku Elsabet, þakka þér fyrir allt.
Guð verði með ykkur elsku Gulli, Benni, Eyi, Þórey, Nonni, Arnar og Róbert og tengdabörnunum og barnabörnum.
Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson)
Ingveldur.
Elísabet Jóna fæddist 2. desember 1940 og ólst upp í Þykkvabænum, dóttir hjónanna Benedikts Jóhanns Péturssonar, bónda og kúsks að Stóra-Rimakoti í Djúpárhreppi, og Jónínu Þorgerðar Jónsdóttur húsfreyju. Þykkvibær er elsta sveitaþorp á Íslandi, þúsund ára gamalt. Nafnið vísar sennilega til þess, að byggðin hafi verið þétt eða þykk. Land er flatt og sendið, enda gamall sjávarbotn. Þótt landslag sé fábreytt, er fjallasýn fögur um allt Suðurland, ekki síst til Heklu og Eyjafjallajökuls. Ég var einmitt á leið í fermingu fósturdóttur minnar og sonardóttur Elísabetar Jónu, Anítu Ylfu Jónsdóttur, þegar Eyjafjallajökull gaus í apríl 2010, svo að ég tepptist erlendis. Í Þykkvabænum hentar jarðvegur betur til kartöfluræktar en grasnytja, jafnframt því sem hann er 1,6 kílómetra frá sænum, eins og segir í frægum söngtexta.
Elísabet Jóna kynntist ung að árum Guðlaugi Konráð Jónssyni úr Reykjavík. Hann var jafngamall henni, sonur Jóns Einars Konráðssonar sjómanns og konu hans Þóreyjar Guðlaugsdóttur. Þau Elísabet og Guðlaugur tóku saman og fluttust til Reykjavíkur, þar sem fyrstu börn þeirra fæddust, Benedikt Jón 1961, Eyþór 1962, Þórey 1964 og Jón Einar 1966. Þau fluttust síðan um skeið í Þykkvabæinn og tóku við kartöflubúi foreldra Elísabetar Jónu, jafnframt því sem Guðlaugur stundaði sjó til að drýgja tekjurnar. Hann er forkur til vinnu og öðlingur undir hrjúfu yfirborði. Arnar bættist í barnahópinn 1968 og Róbert 1976. Fjölskyldan fluttist aftur til Reykjavíkur, og Guðlaugur vann ýmis störf, meðal annars í álverinu í Straumsvík, en nýtti sér einnig, að hann er hagur bátasmiður. Elísabet Jóna vann líka úti, þegar hún kom því við, og stundaði aðallega afgreiðslustörf.
Eftir að börnin uxu úr grasi, fluttust þau Elísabet Jóna og Guðlaugur til Hveragerðis og þaðan á Hellu. Börn þeirra eru annálað dugnaðarfólk, flestir synirnir vélskólagengnir og hafa allir lagt fyrir sig störf úti í atvinnulífinu, ýmist á sjó eða landi. Á Elísabet Jóna margt barnabarna, sem öll sakna hennar sárt. Hún var alþýðukona í bestu merkingu orðsins, hógvær, vinnusöm og ósérhlífin. Það er fólk eins og hún og fjölskylda hennar, sem skapar verðmætin.
Hannes Hólmsteinn
Gissurarson.