Fyrir skömmu átti ég erindi til Galapagos-eyja, og þá komst ég að því, að íslenskur einsetumaður bjó þar um 1930 til 1945. Hann kallaði sig oftast Walter Finsen, en enginn maður með slíku nafni er finnanlegur í íslenskum skjölum.

Fyrir skömmu átti ég erindi til Galapagos-eyja, og þá komst ég að því, að íslenskur einsetumaður bjó þar um 1930 til 1945. Hann kallaði sig oftast Walter Finsen, en enginn maður með slíku nafni er finnanlegur í íslenskum skjölum. Íslendingsins er getið í nokkrum bókum erlendra ferðalanga á eyjunum, en einnig í íslenskum heimildum. Ein slík er viðtal í Vísi 1951 við íslenskan skipstjóra, sem hafði hitt hann á stríðsárunum, þegar bandaríski herinn hafði bækistöð á eyjunum. Kvaðst hann þá vera af Thorarensen-ætt. Önnur heimild er viðtal í Morgunblaðinu 1967 við þýska konu, búsetta á Íslandi, sem hafði farið til eyjanna þá um sumarið og hitt gamla nágranna Íslendingsins.

Þessi Íslendingur var sagður um sjötugt, þegar hann lést á Galapagos-eyjum 1945. Hann hafði haldið ungur til sjós, væntanlega á síðasta áratug 19. aldar. Hann var staddur í San Francisco, þegar jarðskjálftinn mikli 1906 lagði borgina í rúst, en lengst var hann í Rómönsku Ameríku, meðal annars við olíuleit í Maricaibo í Venesúela, en hafði einnig eitthvað að segja af mexíkósku byltingunni 1910-1920. Þegar hann var á sextugsaldri bjó hann í Síle, en þá veiktist hann og læknar sögðu honum, að hann ætti ekki langt eftir. Þá ákvað hann að flytjast til Galapagos-eyja, þar sem hann átti dönsk kunningjahjón. Settist hann fyrst að hjá þeim á eynni Santa Cruz, en reisti sér síðan lítið hús þar úr svörtum hraunhellum. Vegna málakunnáttu sinnar var hann oft leiðsögumaður erlendra ferðamanna og kenndi einnig börnum eyjarskeggja. Sagði hann sögur af Íslandi, og íslenski sjómaðurinn, sem hitti hann á stríðsárunum, hafði orð á því, að heimili hans hefði verið með íslensku sniði.

Í íslensku heimildunum er ekki nefnt, að Íslendingurinn varð vitni að undarlegu morðmáli á eyjunum. Kona birtist þar með tveimur ástmönnum sínum og kallaði sig barónessu de Wagner-Bousquet. Settist hún að á Floreana-ey. En einn góðan veðurdag árið 1934 hvarf hún ásamt öðrum ástmanninum, og hefur ekki spurst til þeirra síðan. Hinn ástmaðurinn flýtti sér að reyna að komast til meginlandsins, en fannst nokkrum mánuðum síðar látinn á eyðiey þar skammt frá. En hver var Íslendingurinn, sem kallaði sig oftast Walter Finsen? Hugsanlega var hann Ágúst Bjarnason Thorarensen, sem fæddist 1880, missti föður sinn 1885 og fór í siglingar, og er ekkert meira vitað um h ann.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is