Guðrún Hólmfríður Gísladóttir fæddist á Eyrarbakka 5. september 1920. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. júlí 2013.
Foreldrar hennar voru hjónin Gísli Ólafur Pétursson, f. 1.5. 1867, d. 19.6. 1939, héraðslæknir á Eyrarbakka, og Aðalbjörg Jakobsdóttir, f. 30.10. 1879, d. 19.11. 1962. Af börnum þeirra komust átta upp, Guðrún, sex bræður og ein fósturdóttir og nú eru þau öll fallin frá. Hin voru Pétur Ólafur, garðyrkjubóndi og bókavörður á Eyrarbakka, f. 1900, Jakob rafmagnsverkfræðingur, f. 1902, Guðmundur, læknir, f. 1907, Ketill, lögfræðingur, f. 1911, Ólafur, rafmagnstæknifræðingur, f. 1913, Sigurður, f. 1916 og Ingibjörg Sigvaldadóttir, f. 1929. Þótt aðeins fimm þeirra ættu afkomendur er fjöldi niðja þeirra Gísla og Aðalbjargar kominn yfir stórt hundrað.
Árið 1939 giftist Guðrún Pétri Sumarliðasyni, f. 1916, d. 1981, kennara. Börn þeirra eru Gísli Ólafur, f. 1940, kvæntur Rögnu Freyju Karlsdóttur, Bjarni Birgir, f. 1942, kvæntur Helgu Maríu Hermansen, Vikar Pétursson, f. 1944, kvæntur Vilborgu Sigurðardóttur, Pétur Örn, f. 1949, kvæntur Hólmfríði Þórisdóttur, og Björg, f. 1961, gift Friðgeiri Magna Baldurssyni. Niðjar þeirra eru nú á fjórða tuginn.
Guðrún lauk stúdentsprófi úr stærðfræðideild MR árið 1941, BA-prófi í bókasafnsfræði frá HÍ 1972 og varð löggiltur bókasafnsfræðingur 18. september 1986. Guðrún var forstöðumaður bókasafns Orkustofnunar. Hún beitti sér fyrir samstarfi bókasafna og í félagsmálum bókavarða. Var í stjórn Bókavarðafélags Íslands, stofnfélagi og í stjórn Félags bókasafnsfræðinga, í stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum og í Félagi um skjalastjórn. Guðrún hafði áhuga fyrir þjóðfélagsmálum og lagði sitt lið til að bæta réttarstöðu kvenna og efla þátttöku þeirra í mótun og stjórnun samfélagsins. Hún var í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og í stjórn Kvenréttindafélags Íslands. Hún var í nefndinni sem undirbjó Kvennafrídaginn 24. október 1975, og starfaði um árabil í hópi um varðveislu og framgang Kvennasögusafns Íslands. Guðrún var kjörin heiðursfélagi Kvenréttindafélags Íslands, heiðursfélagi Félags um skjalastjórn og heiðursfélagi Bókavarðafélags Íslands. Nánar á gopfrettir.net/Gudrun
Útför Guðrúnar Gísladóttur fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.
Lokið er langri ævi ötullar liðskonu leitarinnar að jafnrétti og bættum kjörum fólks. Hún lagði til hugmyndir og eftirfylgni og til hennar var þeim, sem í einhverri eldlínu lífsins stóðu, gott að sækja samræðu og ráð. Tveimur mánuðum eftir stofnun lýðveldisins fluttu systurnar Aðalbjörg amma og Herdís frá Eyrarbakka til Reykjavíkur til heimilis með Pétri og Guðrúnu og okkur, sonum þeirra, sem urðum þrír um haustið. Þetta var gagnkvæmt nytsöm ráðstöfun. Aðalbjörg gat sinnt um okkur þegar þurfti og í móti kom liðsinni við þær systur í reykvíska þéttbýlinu.
Mörg skyldmenni bjuggu þá í göngufæri. Flest börn Aðalbjargar og systkini hennar auk fjarskyldara ættfólks en í allra hugum var Aðalbjörg lykilmanneskja. Á heimilinu var því mikill gestagangur sem varð til þess að náin tenging varð milli allra barnabarna þessara eldri systkina sem hefur haldið vel í sjötíu ár. Þetta var líka mikið umræðu- og bókmenntaheimili þar sem ný og gömul skáld voru í hávegum höfð. Og þótt ekki kysu allir sama stjórnmálaflokkinn voru viðhorfin steypt í sama afli. Jafnrétti kynjanna var umræðulaust sjálfsagt og draumur um bætt lífskjör almennings var sameiginlegur. Allir höfðu hug á að bæta heiminn. Þetta var ungt og öflugt baráttufólk sem aldrei taldi eftir sér að leggja góðum málum lið.
Þrátt fyrir nokkra þröng og takmörkuð efni fagnaði heimilið gestum og gistivinum rétt eins og verið hafði í Gamla læknishúsinu á Eyrarbakka. Það var í þessu nærhverfi sem eldri bræðurnir uxu úr grasi. Tenging frændfólksins var svo sjálfsögð að við gerðum okkur ekki grein fyrir því hve sérstök hún var og hve hún var í sjálfu sér mikil félagsleg auðlegð sem við höfum búið að æ síðan.
Það var líka eitt af því sjálfsagða að móðir okkar var alltaf með mörg járn í eldinum. Stundum gátum við verið til hjálpar eða bara til friðs – og mitt í erlinum var hún að morgni búin að sauma, breyta og bæta fötin og allt komið í besta lag.
Hugurinn dvelur við líf þessarar baráttukonu. Hún lagði öllum gott orð, leitaði umræddu fólki málsbóta og skaut sér ekki undan ábyrgð. Hún var ákveðin og um leið hlýleg og tók virkan þátt í því að leiða menn saman og stofna til samstarfs.
Það lék ekki allt við hana en lífssýn hennar kvartaði ekki undan því sem hafði gerst og ekki varð undan vikist. Strax leitaði hún að bestu leið í uppkomnum vanda en velti sér aldrei upp úr efum og hefðum. Það er dýrmætt að eiga aðgang að persónu eins og henni og ómetanlegt að hafa átt hana sem móður og ömmu.
Þegar hún leit til baka minntist hún skemmtilegra viðburða og góðs fólks sem hún hafði verið samtíða og starfað með, góðra vina í baráttunni og á gleðistundum – og indælla niðja sinna. Þegar við lítum til baka er efst í huga þakklæti til hennar fyrir frábæra leiðsögn og samferð í ævintýri lífsins.
Pétur Sumarliðason, faðir okkar, orti:
Svo ljúft er innan þinna hljóðu veggja
sem lófi mjúkur ljúki um augu mín –
þú vefur hug minn hljóðum, mjúkum möskvum
af mildi, ástúð, angurværri þögn –
Hér stendur stundin kyrr.
Gísli Ólafur Pétursson.
Guðrún Hólmfríður Gísladóttir var engin venjuleg kona, prýdd kostum sem margur vildi bera. Sjálfstæð, með einarðan skýran vilja og skoðun. Baráttukona, trú málstaðnum. Hún var alla tíð mikil félagsvera og lagðist gjarnan á áranar þar sem helst þurfti aðstoðar með. Þegar litið er um öxl og lífhlaup hennar skoðað þá kemur berlega í ljós persónan Guðrún Gísladóttir. Hugur hennar beindist strax inn á frekar óhefðbundnar slóðir. Læknisdóttirin austan frá Eyrarbakka valdi sér menntabrautina og lauk stúdentsprófi af stærðfræðibraut MR árið 1941, þrátt fyrir að hafa eignast sitt fyrsta barn meðan á námi stóð. Hún var útivinnandi í fullu starfi þegar yngsta barnið fæddist, þá orðin 41 árs. Ekki hélt það aftur af henni. Hún hélt áfram starfi og hóf stuttu síðar það sem nú væri kallað nám með vinnu og lauk BA-gráðu í bókasafnsfræði 1972. Eflaust muna flestir eftir Guðrúnu á vettvangi félagsmála. Réttindamál kvenna stóðu henni alla tíð mjög ofarlega. Hún var einn stofnanda Félags bókasafnsfræðinga og Félags um skjalastjórn. Þó ekki verði gerð tæmandi skil á upptalningu verka Guðrúnar Gísladóttur hér, það gera aðrir, þá er óhjákvæmilegt að geta mannkosta hennar sem persónu og leiðbeinanda. Vissulega var hún baráttukona og föst á skoðun sinni. Það var gaman að rökræða við hana um ýmis mál og það gerðum við alloft. Þrátt fyrir þá natni og orku sem félagsmálin tóku þá var hún líka móðir og amma. Hún skilur eftir sig stóran hóp niðja og aldrei man ég eftir öðru en að hún gæfi öllum pláss og athygli til að deila með sögum, spilum eða hverju öðru sem á kallaði. Guðrún reyndi alltaf að draga fram það jákvæða í fari þeirra einstaklinga sem voru til umræðu. Margir hafa nefnt hvernig hún á mjög hvetjandi hátt hafi velt upp nýjum hugmyndum um framtíðarplön þeirra sem leituðu ráða hjá henni eða báru undir hana hugmyndir sínar eða væntingar. Allir fengu athygli hennar og uppörvun.
Ég átti því láni að fagna að vera samferða Guðrúnu í nær 30 ár. Ekki aðeins sem tengdasonur heldur naut ég einnig leiðbeininga hennar og stuðnings. Á námsárum mínu erlendis sinnti hún þessu óhjákvæmilega amstri sem fylgir námsmönnum. Ekki aðeins sinnti hún þessu af sóma og dugnaði heldur einnig sýndi hún áhuga á námi mínu með símtölum eftir próf til að ræða málin. Þá var ekki til Facebook eða skype. Hún viðhélt þessum tengslum í gegnum lífið með því að vera vel inni í þeim viðfangsefnum sem ég hef sinnt og gaf sér tíma til að ræða þau mál við mig. Þessi samtöl glæddu viðfangsefnin auknu lífi og glöddu mig. Hennar verður sárt saknað.
Það er hverju orði sannara sem sagt hefur verið. Hún var góð fyrirmynd annarra og fjölmargir sóttu í þá fyrirmynd. Ég þakka Guðrúnu tengdamóður minni samfylgdina og bið Guð að blessa minningu hennar um leið og ég votta þeim mörgu sem eiga um sárt að binda við fráfall hennar mína dýpstu samúð.
Friðgeir Magni Baldursson.
Við kynntumst þegar við vorum báðar í rammavefnaði hjá Guðrúnu Vigfúsdóttur í félagsstarfi aldraðra í Gjábakka í Kópavogi. Okkur kom strax vel saman og bárum saman bækur okkar í mynda- og litavali, og sóttum ráð hvor til annarrar. Henni lá aldrei á og hún var svo vandvirk, að hún rakti upp aftur og aftur þar til hún var ánægð með verkið. Síðasta myndin, sem hún lauk við í vor, var af húsinu hennar á Eyrarbakka, og þar var sannarlega ekki kastað til höndunum svo allt mætti vera sem líkast því sem hafði verið.
Guðrún var vel á sig komin þrátt fyrir aldurinn. Hún hafði stundað sund hvern morgun í mörg ár, en svo ákvað hún að koma einu sinni í viku til okkar í handavinnuna. Hún sagði að sér þætti svo gaman að koma og fá sér kaffi með okkur, og spjalla í þessum félagsskap. Hún var vel gefin kona, og hafði margt til málanna að leggja, og sagði okkur ýmsar sögur frá fyrri tímum.
Heyrnardeyfð háði henni nokkuð, en þá var yfirleitt einhver, sem sagði henni frá umræðunni.
Ég vona að hún hafi notið þess að vera með okkur, eins og við nutum þess að hafa hana í hópnum.
Eins og segir í ljóðinu um Gjábakka:
„Félagsskap og vináttu vart er unnt að meta,
og vinnufúsar hendur á mörgu kunna skil.“
(SÓG)
Ég þakka af alhug þær góðu stundir og þá vináttu sem við Guðrún áttum saman og bið henni Guðs blessunar. Ég vil að endingu senda fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur, fyrir hönd okkar allra í handavinnuhóp Gjábakka.
Sigurlaug Ólöf
Guðmundsdóttir.
Við höfum einnig farið í dagsreisur um landið. Í einni ferð um Suðurland komum við að Eyrarbakka, og þarna þótti Guðrúnu tilvalið að segja okkur frá sínum gömlu heimaslóðum. Bauð hún okkur inn í gamla læknishúsið og fengum við þar góðar veitingar hjá henni.
Nú þykir okkur hoggið skarð í þennan gamla vinahóp, sem tekinn er að þynnast. Við sendum börnum Guðrúnar og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur okkar.
Sturla Friðriksson
náttúrufræðingur.
Kveðja frá Kvenréttindafélagi Íslands
Látin er í Reykjavík Guðrún Gísladóttir, bókasafnsfræðingur og heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Guðrún gekk í Kvenréttindafélagið árið 1944 og var meðal máttarstólpa félagsins um áratuga skeið. Hún gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd félagsins og sat í stjórn þess um árabil, þar af sem varaformaður 1982 til 1984. Árið 1987 var Guðrún kjörin heiðursfélagi í Kvenréttindafélaginu.Guðrún starfaði alla tíð af einurð og réttsýni. Meðal þeirra málefna sem Guðrún bar sérstaklega fyrir brjósti í jafnréttisbaráttunni má nefna kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu og baráttuna fyrir því að hjón teldu fram til skatts hvort í sínu lagi.
Árið 1975 sat Guðrún í nefnd til að undirbúa Kvennafrídaginn, en 24. október það ár lögðu íslenskar konur niður vinnu og söfnuðust saman á útifundum um land allt til að krefjast jafnréttis. Undirbúningsnefndin vann störf sín hratt og örugglega, meirihluti kvenna lagði niður störf og tókst með aðgerð sinni að lama íslenskt atvinnulíf. Um 25.000 konur söfnuðust saman á Lækjartorgi og var það þá með stærstu útifundum sem haldnir höfðu verið hér á landi. Framtakið vakti ekki bara mikla athygli hér heima heldur vakti það einnig sérstaka athygli erlendis.
Guðrún var meðal þeirra kvenna sem stofnuðu Friðarhreyfingu íslenskra kvenna árið 1983. Friðarhreyfingin stóð fyrir undirskriftasöfnun árið 1985 undir kjörorðinu „Friðarávarp íslenskra kvenna“ og sat Guðrún í undirbúningsnefnd söfnunarinnar. 37 þúsund íslenskar konur skrifuðu undir ávarpið sem afhent var á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairóbí í Kenía í júlí sama ár. Í Friðarávarpinu fluttu íslenskar konur kveðjur til umheimsins og lauk ávarpinu svo: „Við viljum frið sem grundvallast á réttlæti, frelsi og umhyggju í mannlegum samskiptum.“
Guðrún hlúði að menningu og sögu íslenskra kvenna. Hún var meðal þeirra sem beittu sér fyrir stofnun Kvennasögusafns Íslands og sat hún í áhugahópi um varðveislu og framgang Kvennasögusafns Íslands fyrir hönd Kvenréttindafélagsins, frá stofnun hópsins árið 1987 þar til safnið varð að einingu innan Þjóðarbókhlöðunnar árið 1996, en hafði sú sameining verið markmið hópsins frá upphafi. Þá sat Guðrún í ritnefnd bókarinnar Veröld sem ég vil, sögu Kvenréttindafélagsins sem skráð var af Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi og kom út árið 1993. Guðrún tengdi eldri og yngri tíma í Kvenréttindafélaginu, en sjálf var hún virkur þátttakandi í sögu félagsins allt frá lýðveldisstofnun.
Kvenréttindafélag Íslands þakkar Guðrúnu framlag sitt til félagsins og jafnréttisbaráttu kynjanna og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Steinunn Stefánsdóttir,
formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Hún hafði mikla ánægju og lífsfyllingu af því starfi og lét ekki sitt eftir liggja. Hún ein átti minningarnar og þar við bættist mikið safn bréfa sem höfðu verið á háaloftinu í Læknishúsinu alla þessa áratugi. Hún flokkaði þessi bréf og skráði. Það var hennar fag sem hún var afar fær í, hafði áratuga reynslu sem bóka- og skjalavörður á Orkustofnun í áratugi og menntun í greininni frá Háskóla Íslands – auk brennandi áhuga. Í bréfasöfnunum birtist mikil menningarsaga. Hef ég orðið margs vísari við lestur margra þeirra en þau eru frá því fyrir aldamótin 1900 fram yfir 1960.
Mæðgurnar Guðrún og Aðalbjörg fluttust til Reykjavíkur 1944. Þær héldu saman lengst af meðan báðar lifðu og Guðrún talaði um móður sína af mikilli ást og virðingu. Hún hafði sagt henni mjög margt um liðna tíð, bæði af lífinu á Eyrarbakka og eins frá Húsavík þar sem Aðalbjörg ólst upp að mestu. Þar kynntist hún Gísla sem þangað kom sem héraðslæknir. Þau giftust 1899 og bjuggu á Húsavík til 1914. Þá fór Gísli suður á land en hann hafði verið skipaður héraðslæknir á Eyrarbakka. Aðalbjörg fylgdi honum svo um vorið með börnin. Hún átti tvær systur, Herdísi og Jakobínu, sem báðar fluttust á eftir yngstu systur sinni til Eyrarbakka og bjuggu þær allar þar um árabil.
Guðrún talaði oft um móðursystur sínar og hafði á þeim miklar mætur – og raunar frændfólki sínu öllu. Bréfasöfnin sem áður eru nefnd hafa endurvakið og lífgað alla þessa merku sögu.
Eldri bræður hennar fóru til náms í Reykjavík og þrír þeirra tóku stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þangað fór Guðrún líka og útskrifaðist vorið 1941. Hún varð móðir ung að aldri og 24 ára átti hún þrjá drengi. Síðar eignaðist hún fjórða soninn og loks einkadótturina. Lengst af vann hún utan heimilis auk þess að annast börn sín og heimilishald.
Hún lauk ferli sínum í opinberu starfi sjötug að aldri. Því fór þó fjarri að hún legði hendur í skaut. Hún fór að sinna gömlu áhugamáli sínu, bókbandi og fór það listilega úr hendi. Einnig fékkst hún við vefnað og skapaði mörg listaverk í myndvefnaði.
Guðrún naut góðrar heilsu lengst af ævi sinnar. Hún hafði fengið í vöggugjöf einstaklega ljúfa og glaða lund. Aldrei hitti ég hana öðruvísi en í sólskinsskapi. Ellin var henni léttbær enda naut hún ríkrar umhyggju barna sinna og barnabarna. Hennar er sárt saknað.
Vilborg Sigurðardóttir.
Þegar ég hóf störf á Orkustofnun áratugum seinna kynntist ég Guðrúnu aftur, sömu fallegu, jákvæðu og greindu konunni, en þá hafði hún eignast fimm börn, lokið prófi í bókasafnsfræði með jarðfræði sem aukagrein og hafði sett á stofn rannsóknarbókasafnið á Orkustofnun. Á þeim tíma stjórnaði hún því bókasafni. Við samstarfskonurnar vorum alltaf velkomnar á bókasafnið að ræða við Guðrúnu um hin ýmsu mál, sem voru ofarlega á baugi þá stundina.
Eftir að við margar hættum að vinna sakir aldurs var hún mjög áhugasöm um að við héldum hópinn og höfum við komið saman á kaffihúsi mánaðarlega í mörg ár, síðast nú í maí. Guðrún lét sig aldrei vanta á þær samkomur. Hennar verður sárt saknað.
Við sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
F.h. fyrrverandi samstarfskvenna á Orkustofnun,
Ingibjörg Júnía Gísladóttir.
Lífsstarf hennar var að mestu leyti tengt Orkustofnun. Þar byrjaði hún að vinna 1956 við að teikna kort eftir mælingum sem verið var að vinna á hálendinu en 1959 var henni falið að sjá um bókasafnið. Það var fyrir nokkra tilviljun að hún fór í nám í bókasafnsfræði en aðalástæðan var sú að stofnanir borguðu fólki slælega sem ekki hafði próf í grein þeirri sem það vann við. Stofnunin óskaði eftir því að hún lærði til starfans og þar sem þetta nám var samkvæmt beiðni fékk hún að stunda námið í bókasafnsfræði í vinnutímanum.
Þegar Guðrún var búin að taka það sem hægt var í bókasafnsfræðinni var hún samt ekki með full réttindi því hún þurfti að ljúka BA-prófi. Um þetta leyti byrjaði kennsla í jarðfræði og þá lá beint við að hún færi þá leið þar eð kjarni safnsins var á þessu sviði. En samt vantaði upp á og skráði hún sig þá í bókmenntasögu. BA-prófinu lauk hún svo 1972 með þá sérkennilegu samsetningu að hafa bókasafnsfræðina sem aðalgrein og aukagreinar í jarðfræði og bókmenntasögu! Yfirmaður safnsins var hún allt til 1990 að hún fór á eftirlaun vegna aldurs.
Guðrún gekk í Bókavarðafélagið sem stofnað var 1960 var í stjórn 1964-1970. Hún var í stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum 1975-1977 og varð stofnfélagi í Félagi bókasafnsfræðinga árið 1973 og í fyrstu stjórn þess. Þetta var nokkuð umdeilt félag enda var á þessum tíma álitið að allir gætu séð um bókasöfn. Guðrún vann ötullega við að útskýra að þetta nýja félag væri stofnað til að styrkja réttindi þeirra sem höfðu lært til fagsins en ekki sett til höfuðs þeim sem í söfnunum unnu. Fáir efast um það lengur að það þurfi menntun í bókasafnsfræði til að sinna safnstörfum.
Sem frumkvöðull í stétt bókasafnsfræðinga hlaut hún margvíslegan heiður fyrir lífsstarf sitt. Hún varð heiðursfélagi í Bókavarðafélagi Íslands og Félagi um skjalastjórn og heiðursfélagi varð hún í Kvenréttindafélagi Íslands.
Það var gaman að sitja með Guðrúnu og heyra um öll flóknu verkefnin sem þurfti að leysa í rannsóknarbókasafni fyrir 50 árum enda öll þekking á því sviði hér á landi mjög á byrjunarstigi. Okkur finnst erfitt að skilja hvernig var hægt að leysa upplýsingamál fyrir tíma tölvuvæðingarinnar, án netsins og án allra þeirra þæginda sem okkur finnst sjálfsagt að séu við höndina núna til að létta störfin í bókasöfnum.
Að leiðarlokum við ég þakka Guðrúnu fyrir skemmtileg kynni og fyrir framlag hennar til bókasafna á Íslandi um leið og ég sendi afkomendum hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Sigrún Klara Hannesdóttir.
Stillt vakir ljósið
í stjakans hvítu hönd,
milt og rótt fer sól
yfir myrkvuð lönd.
Ei með orðaflaumi
mun eyðast heimsins nauð.
Kyrrt og rótt í jörðu
vex korn í brauð.
(Jón úr Vör.)
F.h. Upplýsingar,
Margrét Sigurgeirsdóttir
formaður.
Kveðja frá félögum í MFÍK.
Sofa blóm á engi
sofa blóm í túni
og útvið lækinn
lokar bláin auga.
Sefur lindadúnurt,
lækjasteinbrjótur
og bráföl draumasóley
drúpir þungu höfði.
Sefur ung bláklukka
og ilmrík brönugrös
blunda við atlot
blævar um óttu.
(Sigríður Einars frá Munaðarnesi)
Þakkir fyrir áralangt starf í þágu mannréttinda og friðar.
Guðrún Hannesdóttir.