Draumur Ísland reynir við EM.
Draumur Ísland reynir við EM. — Morgunblaðið/Ómar
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er mætt til Búlgaríu þar sem það leikur við heimamenn á morgun í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2015. Eftir leikinn í Búlgaríu heldur liðið til Rúmeníu og leikur þar gegn heimamönnum á miðvikudaginn.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er mætt til Búlgaríu þar sem það leikur við heimamenn á morgun í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2015. Eftir leikinn í Búlgaríu heldur liðið til Rúmeníu og leikur þar gegn heimamönnum á miðvikudaginn. Ísland mætir svo bæði Búlgaríu og Rúmeníu í Laugardalshöll síðar í mánuðinum, eða 13. og 16. ágúst, og er miðasala hafin á midi.is .

Um sérstaka undankeppni fyrir EM 2015 er að ræða þar sem lakari þjóðirnar keppa um eitt laust sæti. Leikið er í fjórum riðlum og komast efstu lið hvers riðils í undanúrslit. Kæmist Ísland þangað myndi liðið mæta Danmörku, Austurríki, Sviss eða Lúxemborg.

Íslensku leikmennirnir ættu að vera með gott sjálfstraust eftir fjóra sigra í röð í æfingaleikjunum fyrir undankeppnina. Liðið vann Danmörku tvívegis hér heima og hafði áður unnið Svartfjallaland og Makedóníu á æfingamóti í Kína.

Mikið munar einnig um að Jón Arnór Stefánsson, besti körfuboltamaður þjóðarinnar er kominn aftur inn í hópinn eftir meiðsli en það ætti að hjálpa liðinu umtalsvert. sport@mbl.is