[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is „Það skapast um 150 störf við framkvæmdina að minnsta kosti og svo með opnun hótelsins sjálfs skapast 70 ný störf,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels.

Sviðsljós

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

„Það skapast um 150 störf við framkvæmdina að minnsta kosti og svo með opnun hótelsins sjálfs skapast 70 ný störf,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels.

Morgunblaðið greindi frá í gær að Icelandair Hotels mun opna nýtt hótel í miðbæ Reykjavíkur sumarið 2015. Hótelið mun bera nafnið Cultura, sem er vísun í menningarlíf Reykjavíkurborgar með sama hætti og nafnið Marina, sem er annað hótel keðjunnar, vísar til sjávarlífsins við gömlu höfnina.

Magnea segir að stór hluti starfa sem skapast við framkvæmdina séu unnin af hönnuðum og verkfræðingum.

„Gömlu gengin“ vilja snúa heim

„Ánægjulegast er að iðnaðarmenn sem eru búsettir í Noregi hafa sett sig í samband við Þingvang og hafa lýst því yfir að þeir vilji koma heim til þess að vinna við framkvæmdirnar,“ segir Magnea, en félagið Þingvangur er eigandi lóðarinnar og hefur yfirumsjón með framkvæmdunum.

Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs, tekur undir þetta. „Ég hef fengið símtöl frá hópum sem störfuðu áður á Íslandi en splundruðust þegar komið var til Noregs. Nú vilja þeir koma aftur saman „gömlu gengin“ og vinna að þessu verkefni,“ segir Pálmar. Hann segir að lengd verkefnisins laði að íslenska iðnaðarmenn frá útlöndum, og telur að með þessu sé vinnuaflið að koma heim til Íslands fyrir fullt og allt.

Á hótelinu verður matsölustaður og bar og býst Magnea við því að stærsti kúnnahópurinn verði Íslendingar líkt og þekkist á VOX og Marina, öðrum hótelum keðjunnar í Reykjavík.

Íslendingar skapa aðdráttarafl

Hún segir að erlendir ferðamenn sæki í íslenskt mannlíf og þess vegna skapa Íslendingar aðdráttarafl með því einu að vera Íslendingar. Þess vegna vill hún að hótelin aðlagist borginni en ekki að borgin þurfi að aðlagast hótelunum.

„Þegar við unnum að Marina hótelinu við gömlu höfnina sögðum við ávallt við borgina og hafnaryfirvöld að slippurinn þyrfti ekki að fara. Einhverjir aðilar héldu að við myndum kvarta vegna málningarinnar eða óþrifnaðar sem verður af skipunum. Okkur finnst þetta ekkert vera til þess að kvarta yfir vegna þess að þetta umhverfi skapar aðdráttarafl. Það eru ekki margar borgir með upprunalegt hafnarsvæði og við viljum nýta okkur það.“

Magnea segir jafnframt að af sömu ástæðu sé unnið með menningu og sögu Íslendinga við byggingu nýja hótelsins.

Hringiða menningarinnar

„Þetta er í hringiðu menningarinnar í Reykjavík, umvafið tónlist, leikhúsum, listagalleríum og hönnunarhúsum. Þannig viljum við hafa það og þess vegna völdum við nafnið Cultura.“

Lífga upp á Laugaveginn

„Við höfum algjörlega hugsað út í þau mál. Við verðum með útleigurými með möguleika á þjónustu eða verslunum eða hverju sem fólk hefur áhuga á að leigja þar rými fyrir,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, spurð hvort möguleikar séu til tónleikaaðstöðu á hótelinu. „Við erum með þennan inngarð sem er þarna og þar geta verið uppákomur í tengslum við tónlist, tækni, matarmenningu, eða hvað sem er. Okkar ætlun er að reyna að lífga við þennan hluta Laugavegarins með áhugaverðum hlutum. Það vilja Íslendingar og það merkilega er að ferðamenn sækja í það sem Íslendingar vilja,“ segir Magnea.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um vöntun á tónleikastað í borginni, en borgaryfirvöld hafa m.a. ákveðið að reisa hótel þar sem Nasa stendur nú.