Sveit Hljómsveitin Hjárómar kemur frá Eiðum eins og svo margar aðrar.
Sveit Hljómsveitin Hjárómar kemur frá Eiðum eins og svo margar aðrar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtökin Eiðavinir, sem skipuð eru gömlum nemendum Eiðaskóla og fólki úr sveitinni í kring, munu efna til hátíðar nú í haust. Tilefnið er 130 ára afmæli skólans en hann hefur nú staðið auður í tvö ár.

Samtökin Eiðavinir, sem skipuð eru gömlum nemendum Eiðaskóla og fólki úr sveitinni í kring, munu efna til hátíðar nú í haust. Tilefnið er 130 ára afmæli skólans en hann hefur nú staðið auður í tvö ár. Bryndís Skúladóttir, formaður félagsins, á von á mikilli gleði en gert er ráð fyrir að um þrjú hundruð manns mæti.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Tilefnið er í rauninni það að það eru hundrað og þrjátíu ár frá því Eiðaskóli var stofnaður. Hann byrjaði sem búnaðarskóli og var það til 1917 en þá breyttist hann í alþýðuskóla sem starfaði til 1995. Þá tók Menntaskólinn á Egilsstöðum hann yfir. Starfsemin í skólanum lagðist síðan alveg af þremur árum síðar. Þá voru stofnuð samtök gamalla Eiðanema og fólks sem bjó þarna í sveitinni og þótti vænt um staðinn. Markmið þeirra er að standa vörð um staðinn. Þetta félag stendur fyrir þessu afmæli og þessari tónleikahátíð sem verður núna 20. til 22. september,“ segir Bryndís Skúladóttir, formaður Eiðavina sem vinna nú hörðum höndum að hátíðinni.

Mikið tónlistarlíf á Eiðum

„Við ákváðum að nota þetta tækifæri og blása til veislu svo að Eiðamenn gætu hist og glaðst saman. Við erum búin að fá fullt af gömlum hljómsveitum til að koma saman og spila þessa helgi, það var nefnilega svo mikið tónlistarlíf á Eiðum. Það er mikil stemning í loftinu, gömlu mennirnir og konurnar eru mjög spennt að mæta. Það eru margar þekktar hljómsveitir, allavega hjá Eiðamönnum, sem munu koma þarna saman. Þar má til að mynda nefna sveitirnar Trassarnir, Norðurljósin og Barkakýli gíraffans. Sú hljómsveit varð reyndar til fyrir mína tíð á Eiðum en það er alveg dásamlegt nafn,“ segir Bryndís. Hún kveðst ekki vera með töluna á Eiðavinum á hreinu.

„Það eru í rauninni allir Eiðanemar og íbúar svæðisins sjálfkrafa félagar í Eiðavinum. Ætli meðlimir séu ekki einhvers staðar á bilinu fimmtán hundruð til tvö þúsund manns. Þetta er fjölmenni. Við erum að vinna í því núna að ná til sem flestra, það er markmið okkar á næstunni. Við reynum að nýta okkur tæknina eins og hægt er í þeim efnum, við munum til að mynda opna heimasíðu við hátíðlega athöfn á afmælinu. Svo erum við með um sex hundruð og fimmtíu manns í fésbókarhópnum okkar. Svo ætlum við að safna eins miklu af netföngum og hægt er og að lokum munum við senda þeim sem ekki notfæra sér tæknina bréf í pósti,“ segir hún.

Unga fólkið snýr heim

Bryndís segir marga af fyrrverandi nemendum skólans vera flutta á höfðuborgarsvæðið eða hafi dreift sér um heiminn.

„Mér finnst samt vera einhver umskipti í þessu núna. Fólk er farið að koma aftur út á land, og jafnvel í litlu byggðirnar. Á Borgarfirði eystra eru skemmtilegir hlutir að gerast, unga fólkið er að flytja heim aftur. Það er búið að halda þar tvo fundi og vinna vel að þessu. Það var gerð könnun á því hvað vanti svo að fólk geti sest þar að. Það verður því gaman að fylgjast með þessu, það er rosalegur hugur í unga fólkinu,“ segir hún.

„Ég held að það standi bara í stað á Egilsstöðum. Ég er búin að búa þar í þrjátíu ár og þar er alltaf sama gegnumstreymið af fólki,“ segir hún um heimabæ sinn.

„Annars er mikill vilji hjá fólki að mæta á þessa samkomu, hvar sem það býr. Bæði hjá þeim sem eru að fara að spila og eins hjá þeim sem ætla bara að mæta. Þetta er heil tónleikahelgi og það liggur við að þetta sé eins og útihátíð. Það verður dagskrá og fjör alla helgina. Á sunnudaginn verður síðan poppmessa sem Jónas Sig., Magni og gospelsöngkonan Esther Jökuls sjá um. Þetta eru allt gamlir Eiðanemar,“ segir Bryndís.

Heimavistarskólinn bætir

„Þetta var heimavistarskóli. Andinn þar var magnaður, það var allt fullt af lífi, fjöri, hrekkjum og hlátri. Svo eru Eiðar alveg þekktar fyrir draugagang. Draugarnir hljóta að mæta á samkomuna í haust,“ segir Bryndís sposk.

„Ég var sjálf tvo vetur þarna og þett gat orðið svolítið einangrað á veturna. Við fórum heim einu sinni á haustönn og tvisvar sinnum á vorönn. Svo fórum við heim til okkar í jólafríum. Þetta var alveg magnað. Það var rosalega mikið félagslíf í skólanum þannig að manni leiddist aldrei. Mér finnst að það eigi að bjóða upp á svona heimavistarskóla í dag. Fólk sem var á heimavist á svo margar minningar þaðan, þetta var bara eins og ein stór fjölskylda,“ segir Bryndís og bætir því við að þrátt fyrir að skólinn hafi verið hugsaður fyrir nemendur frá Austfjörðum hafi einnig komið þangað krakkar af Norður- og Suðurlandi. Hún segir krakka nú til dags jafnframt geta lært sitt hvað á því að eyða tíma í slíkum skólum.

„Það er í raun þetta félagslega samneyti við krakka á svipuðum aldri. Svo er það að fara að heiman, spjara sig og standa á eigin fótum. Krakkarnir þurfa líka að skipuleggja námið sitt án þess að hafa foreldra sína alltaf yfir sér,“ segir hún.

Húsin standa auð

„Árgangarnir hafa aðeins verið að hittast á Eiðum, það voru tveir árgangar sem hittust þar til að mynda síðastliðið haust. Það segja það allir sem hafa mætt á samkomu á Eiðum að þarna sé yndislegur andi í loftinu,“ segir Bryndís. Hún segir þó enga starfsemi í húsunum í dag.

„Hótel Edda leigði þarna af Sigurjóni Sighvatssyni landeiganda þangað til fyrir tveimur árum. Sigurjón á öll þessi hús, skóginn og vatnið og hann hefur verið okkur mjög vinsamlegur. Við höfum komið þarna upp sögustofu í húsnæði innan skólans. Hann leyfir okkur að vera þar endurgjaldslaust. Þar má finna sögu staðarins í máli og myndum. Hann leyfir okkur líka að halda þessi nemendamót þarna og hvetur okkur til þess. Það er þó engin starfsemi þarna sem er. Við verðum bara að vera bjartsýn og vona að það gerist eitthvað þarna í framtíðinni. Það er okkar einlæga von að það komi þarna einhver góð starfsemi,“ segir Bryndís.

Gistipláss í boði

„Kannski verður þetta bara upphafið að einhverju öðru stórkostlegu. Við eigum von á um þrjú hundruð manns þessa helgi og seljum gistingu í skólahúsnæðinu. Við erum líka búin að taka á leigu barnaskólann á Eiðum sem er þarna í kílómetra fjarlægð. Við erum því með svona hundrað og fimmtíu gistirými sem við getum selt og svo verður fólk eiginlega bara að bjarga sér. Fólk á ættingja þarna í nágenninu og svo eru bústaðir þarna í kring. Svo er bændagisting alltaf möguleiki. Það verður kannski orðið svolítð seint að tjalda þarna í september, en það er aldrei að vita,“ segir Bryndís. Hún bætir því við að lokum að það sé ekki von á neinu öðru en lífi og fjöri á Eiðum um umrædda helgi. Hún segir staðinn koma til með að iða af lífi að nýju.