Hilmar Sigurður Jónsson fæddist í Arnardrangi í Landbroti 15. ágúst 1943. Hann lést í Þykkvabæ 24. júlí 2013.

Foreldrar hans voru Jón Skúlason, f. 16. ágúst 1904, d. 1985, og Helga Stefánsdóttir, f. 14. janúar 1915, d. 2004. Systkini Hilmars: Stefán, f. 1940, d. 1946, Skúli, f. 1945, Stefán, f. 1946, Ragnar, f. 1948, Elín Halla, f. 1950, og Ásta, f. 1955. Sambýliskona Hilmars var Soffía Guðrún Gunnarsdóttir, f. 5. ágúst 1954. Börn hennar eru Ásgerður Gróa, f. 1975, sambýlismaður hennar er Jóhannes Siggeirsson, þau búa á Snæbýli í Skaftártungu, og Gunnar Símon, f. 1985, starfsmaður Álversins í Straumsvík.

Hilmar flutti með foreldrum sínum árið 1944 að Þykkvabæ í Landbroti. Sem ungur maður lagði hann stund á sjómennsku og almenn sveitastörf og tók síðan við búi foreldra sinna sem hann rak til dauðadags ásamt bræðrum sínum, Skúla og Stefáni.

Útför Hilmars fer fram frá Prestbakkakirkju á Síðu í dag, 3. ágúst 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Með hlýju og þakklæti í huga minnumst við þín, kæri Hilmar.

Inn milli fjallanna hér á ég heima,

hér liggja smaladrengsins léttu spor.

Hraun þessi leikföng í hellinum geyma,

hríslan mín blaktir enn í klettaskor.

Við þýðan þrastaklið

og þungan vatnanið

æskan mín leið þar sem indælt vor.

(Guðm. Magnússon)

Við kveðjum þig með sorg í hjarta.

Elsku Soffía, Skúli, Stefán, Ragnar, Elín, Ásta og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Gunnar, Hildur, Óskar,

Erla og fjölskyldur.

Kvöldið er fagurt, sól er sest

og sefur fugl á grein.

Þessi setning úr söngtexta minnir mig, umfram annað, á kæran vin sem nú hefur kvatt langt fyrir aldur fram. Það var talsvert liðið á nótt í júníbyrjun 1984 sem ég kom fyrst í sveitina hans og þá mætti mér sjón sem er mér ógleymanleg. Þessi sjón var í senn dulúðug og falleg en Landbrotið var bókstaflega fullt af dalalæðu en hólarnir stóðu upp úr henni. Ég hugsaði með mér að svona falleg sveit hlyti að bjóða upp á mörg ævintýri og það gerði hún sannarlega. Hilmar var þáttakandi í mörgum þeirra ævintýra og oftsinnis var búið að leita til hans í annríki daganna. Sérstaklega minnist ég hans úr fjárragi í Holti, Heiðarseli og Skaftárrétt, einnig úr girðingar- og byggingarvinnu í Holti, einnig var hann ómissandi við fjárrúning á mörgum bæjum, þar á meðal í Holti. Hilmar var kappsamur og ósérhlífinn og gerði miklar kröfur til sjálfs sín og annarra í sambandi við vinnu. Hann var einkar fjárglöggur og minnugur á sitt fé (og stundum annarra). Öllu sínu fé gaf hann nöfn, eftir útliti, geðslagi, afdrifum, húsfreyjunum í sveitinni eða hverju öðru sem hann tók eftir í þeirra karakter og þótt féð væri margt mundi hann nöfnin vel. Einhverju sinni gaukaði ég að honum gömlum ærnafnavísum og veit að það þótti honum vænt um og talsverður fengur að. Hann var skemmtilegur, gamansamur og athugull á umhverfi sitt. Börn hændust að honum og ekki var hann fyrr sestur við eldhúsborðið í Holti en heimasætan litla var komin í fangið á honum. Honum þótti gott að dreypa á víni og var þá gjarnan setið á þúfu útí mildri sumarnótt eða á garðabandi í fjárhúsi. Horft yfir landið eða fjárhópinn, málin rædd og stundum raulaður lagstúfur.

Kæri vinur, ég vona að við eigum einhvern tímann eftir að sitja saman á garðabandi, dreypa á koníaki, horfa yfir fjárhóp og máski raula lítinn lagstúf en núna er sólin þín sest, fuglinn sefur en vissulega er kvöldið fagurt. Hvíldu í friði.

Helga Guðrún Sigurjónsdóttir.