[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Penrod hóf feril sinn í kántrítónlistinni og fékk síðar mikinn frama innan Suðurríkjagospelsins. Tónlist hans í dag ber sterkan keim af þessum bakgrunni.

Af tónlist

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Bandaríski kántrí- og gospelsöngvarinn Guy Penrod heldur tónleika á Kotmóti í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð á sunnudagskvöld. Hann er unnendum svonefndrar Suðurríkjagospeltónlistar vel kunnur. Penrod er nú á tónleikaferðalagi um Evrópu og mun hann halda 14 tónleika á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi og Hollandi.

Penrod varð þekktur sem forsöngvari Gaither Vocal Band-sönghópsins á árunum 1994-2008. Bill Gaither, sem sönghópurinn er kenndur við, er einn helsti núlifandi höfundur trúarsöngva í Suðurríkjagospelstíl í Bandaríkjunum. Hann samdi m.a. lagið „He Touched Me“ (Hann snart mig) sem Elvis Presley söng af innlifun.

Guy Penrod fæddist árið 1963 og hóf hann söngferilinn ungur að árum. Hann gerðist bakraddasöngvari í hljóðverum í Nashville og víðar árið 1980 og söng m.a. með Amy Grant, Shania Twain, Kenny Chesney, Garth Brooks og James Ingram svo nokkur séu nefnd. Hann ferðaðist með Gaither Vocal Band víða um heim og kom fram á fjölda tónleika á sviði og í sjónvarpi auk þess að syngja inn á 13 hljómplötur með sönghópnum.

Guy Penrod hætti í Gaither Vocal Band í ársbyrjun 2009 og hóf sólóferil. Fyrsta einsöngsplata hans, Breathe Deep , kom út í ágúst 2009. Hún inniheldur kántrítónlist með kristilegu ívafi. Í fyrra gaf hann út plötuna Hymns sem geymir þekkta sálma í sveitasöngstíl. Einnig kom út safnplata með bestu lögum hans frá árunum í Gaither Vocal Band.

Í æviágripi sem er birt á heimasíðu Penrod (www.guypenrod.com) segir m.a. að hann sé fæddur í Abilene í Texas þar sem faðir hans var baptistaprestur. Penrod ólst upp í kirkjunni og þráði að hafa áhrif á heiminn með einhverjum hætti.

„Ég komst að því nokkuð snemma á ævinni að tónlistin var góður farvegur fyrir mig,“ sagði hann. Hann fór að syngja sem barn og söng einnig í kirkjunni og skólanum. Hann nam við Liberty University í Virginíu og hlaut námsstyrk vegna sönghæfileika sinna. Hann gerðist söngkennari að loknu námi áður en hann varð atvinnutónlistarmaður. Penrod hóf feril sinn í kántrítónlistinni og fékk síðar mikinn frama innan Suðurríkjagospelsins. Tónlist hans í dag ber sterkan keim af þessum bakgrunni.

Guy Penrod var nýlega tilnefndur af National Quartet Convention Music Awards sem einsöngvari ársins 2013. Penrod og eiginkona hans, Angie, eiga átta börn, sjö stráka og eina stelpu. Þau búa á búgarði fjölskyldunnar í Tennessee þar sem Penrod sinnir bústörfum og ekur um á dráttarvél og pallbíl á milli tónleikaferða.

Tónleikarnir hefjast klukkan 22.00 á sunnudagskvöld í Örkinni í Kirkjulækjarkoti. Tveir bandarískir gítarleikarar koma með honum til landsins en auk þeirra eru í hljómsveitinni Óskar Einarsson hljómborðsleikari, Páll E. Pálsson bassaleikari og Brynjólfur Snorrason trommuleikari. Nánari upplýsingar um tónleikana eru á www.kotmot.is.