Örn Ólafsson
Örn Ólafsson
Eftir Örn Ólafsson: "Fráleitt er að gera alla múslima ábyrga fyrir ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum, íslamistum."

Valdimar Jóhannesson skrifaði gegn íslam hér í Mogganum um daginn. Ekki skal ég mótmæla því sem hann – og margir fleiri – segja um pólitískt íslam, íslamisma. Það er stjórnmálahreyfing til hægri við Adolf Hitler, hún berst fyrir einræði í guðs nafni, undirokun kvenna, dauðarefsingu homma og hvers sem yfirgefur íslam. Og sjálfsagt er að berjast gegn þessari hreyfingu, með vopnum, t.d. í Afganistan, því auðvitað taka þessir menn ekki þátt í rökræðum um trúarbrögð. Það væri guðlast að mati þeirra.

En það er rangt hjá Valdimari að leggja alla múslima að jöfnu, og gera þá ábyrga fyrir þessum ofstækismönnum, sem eru lítill minnihluti múslima. Fyrir því eru a.m.k. þessi rök:

Fólk alið upp í löndum þar sem íslam er ríkjandi trúarbrögð er meira en milljarður manns að tölu. Enginn getur þekkt allt þetta fólk, sem er af mismundandi menntastigi, mismunandi stéttum og þjóðerni. Það er hreinn barnaskapur að alhæfa um það. Enda er augljóst að margt af þessu fólki er umburðarlynt, og margt áhugalaust um trúarbrögð. Og margir múslimar eru andstæðingar íslamista. Það sýnir sig best í Egyptalandi nú, þegar herinn setti íslamista frá völdum, fékk hann mikinn stuðning meðal almennings í þessu múslímska landi, þar er sannkölluð fjöldahreyfing gegn íslamistum.

Á þeim tíma sem grimmilegar ofsóknir gegn „trúvillingum“ og gyðingum fóru fram í Evrópu, ríkti trúfrelsi í íslömskum löndum – og ríkir enn. Þar búa bæði kristnir og gyðingar, þeir iðka trú sína í kirkjum og sýnagógum. Þeir þurftu bara að borga smáskatt sem múslimar voru undanþegnir, og það var nóg til að fjöldi manns gekk af trúnni og aðhylltist íslam. Ekki var nú trúarsannfæringin sterkari en svo! Til trúskipta þurfti engar ofsóknir, líkt og ætla mætti af grein Valdimars. En lesendur minnist trúvillingabrennanna í Frakklandi og á Spáni, m.a., og gyðingaofsókna á fyrri hluta síðustu aldar. Er það eðli kristindómsins, eða getur kristið fólk verið öðruvísi? Hafa Valdimar og aðrir andstæðingar moskna alls ekki tekið eftir ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum meðal kristinna og gyðinga?

Á miðöldum voru forfeður okkar Valdimars það sem við nú myndum kalla villimenn, en í íslömskum löndum voru þá háskólar og bókasöfn, og þar voru íslamskir lærdómsmenn sem skiluðu forngrískum menningararfi til Vesturlanda. Þetta eru svo alkunnar staðreyndir, að ekki verður hjá þeim litið. Ég hefi einhvers staðar lesið þá skýringu, að viðhorfsbreyting hafi sigrað í íslömskum löndum á hámiðöldum, bókstafstrú hafi náð yfirhöndinni gegn frálslyndi og lærdómsdýrkun. En frálslyndi og lærdómsdýrkun ríkti í margar aldir í íslömskum löndum, svo bókstafstrúarofstæki er alls ekki eðlislægt í íslam.

Að banna múslimum að byggja mosku, það er öruggasta leiðin til að afla þeirri byggingu fylgis. „Nú, svo þeir vilja ekki leyfa okkur það?! Þá skulum við gera það! Sýnum þessum vitleysingjum að þeir geti ekki ráðskast með okkur!“

Sjálfur er ég trúlaus, en mér finnst sjálfsagt að virða tilfinningar fólks, og þá einnig trú þeirra, sem hana hafa. Einkum og sér í lagi þegar þeir segja að trú sé kærleikur. Og það trúaða fólk sem ég hefi kynnst er í stórum dráttum þannig, hvort sem um er að ræða gyðinga, múslima, kristna eða annað. Þau eiga miklu meira sameiginlegt en sundrar þeim. Kreddur einstakra trúarbragða skipta þetta fólk litlu máli, miðað við kærleiksríka trú þess. En auðvitað réttlætir yfirlýst trú ekki þá sem reyna að gera guð ábyrgan fyrir sinni eigin þröngsýni og heimsku. Það virðist sameiginlegt öllum trúarbrögðum að segja: „Náð guðs er alls staðar. Fólk þarf bara að opna sig fyrir henni, taka henni.“ Er þetta ekki hið sama og við guðleysingjar segjum: Við getum sagt að allt sé að fara fjandans til, eða hinvegar að bæta megi ástandið. Veljum við fyrri kostinn, verðum við aðgerðalaus, og allt fer fjandans til. En veljum við bjartsýni, þá getum við gert okkar besta. Andstæðingar beggja eru bókstafstrúarmenn, þeir trúa á bók, og þar af leiðandi á mann sem túlkar bókina. Þeir eru ósjálfstæðir, attaníossar, þ.e. konformistar.

Höfundur er bókmenntafræðingur í Kaupmannahöfn.