— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Háskólamenntuðu fólki gengur misvel að finna vinnu við hæfi og er samkeppnin um laus störf meiri í sumum greinum en öðrum.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Háskólamenntuðu fólki gengur misvel að finna vinnu við hæfi og er samkeppnin um laus störf meiri í sumum greinum en öðrum.

Þetta segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, en tilefnið er viðtal við félagsfræðing í Morgunblaðinu í gær sem hefur sótt tvö þúsund sinnum um vinnu frá hruni án árangurs. „Fólk með ákveðna menntun virðist eiga erfiðara með að finna vinnu en aðrir, til dæmis lögfræðingar. Allir háskólarnir eru meira og minna að útskrifa lögfræðinga. Það hefur orðið svolítil stökkbreyting á þessu á síðustu árum. Það sama á við um margar aðrar greinar og það getur verið erfitt fyrir fólk sem er nýútskrifað úr t.d. viðskiptafræði, félagsvísindum og tungumálanámi að finna starf við hæfi núna,“ segir Karl sem hefur ekki nákvæmar tölur yfir atvinnuleysi í umræddum stéttum.

Bakslag hjá sumum stéttum

Þó sé almennt minna atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra en hjá fólki með minni formlega menntun.

„Atvinnuleysi hefur þróast á ólíkan hátt hjá háskólamenntuðum. Fyrir hrun var mikil eftirspurn eftir lögfræðingum og viðskiptafræðingum. Síðan má segja að það hafi orðið bakslag hjá þessum stéttum við hrun. Svo eru fjölmargir sem útskrifast úr ýmsum greinum, t.d. félagsvísinda, sem ekki eru beinn undirbúningur fyrir ákveðin störf á vinnumarkaði. Tækifærin hjá þessu fólki eru óljósari en hjá mörgum öðrum og ráðast meira af því hvernig árar,“ segir Karl sem merkir vísbendingar um að fólk sem útskrifaðist úr raun- eða tæknigreinum hafi staðið betur að vígi eftir efnahagshrunið 2008 en félagsvísindafólk.

„Það var að vísu erfitt hjá tæknifræðingum og verkfræðingum eftir hrun og atvinnuleysi meðal þeirra rauk upp en datt nokkuð hratt niður aftur, enda kannski auðveldara fyrir þá að finna vinnu erlendis en marga aðra hópa háskólamenntaðra.“

Fram kom í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands að atvinnuleysi var meira í júní síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Var atvinnuleysið 6,4% í júní sl. en 5,3% í júní 2012.

Hagstofa Íslands tekur saman tölur yfir veltu fyrirtækja samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum. Sýnir grafið hér hvernig veltan hefur aukist hjá fyrirtækjum í atvinnumiðlun. Tölur frá fyrri árum eru ekki núvirtar.

Átaksverkefnin hafi gefist vel

Spurður hvort skýringin kunni að liggja í því að atvinnulaust fólk sem fór í tímabundin átaksverkefni sé að koma aftur út á vinnumarkaðinn segir Karl fáar vísbendingar um það.

Óformleg könnun bendi til þess að vinnuveitendur sem réðu fólk í gegnum átaksverkefnið Vinnandi veg hafi verið mjög ánægðir með starfskraftinn. Það heyri til undantekninga að segja hafi þurft fólkinu upp en það hafði í flestum tilvikum verið án vinnu í 24 mánuði eða lengur.

„Þeir sem hafa verið lengi á skrá hjá okkur virðast almennt vera góður starfskraftur, en hafa einfaldlega verið óheppnir með stöðu mála í atvinnulífinu. Það sama á við um fólk í verkefninu Liðsstyrk en þar hefur fólk klárað bótarétt sinn,“ segir Karl en rétturinn er nú að hámarki til 36 mánaða.

Hann tekur að lokum fram að taka beri breytingum í atvinnuleysi milli mánaða með fyrirvara, það geti komið fram tilviljanakenndar sveiflur í einstökum mánuðum sem jafnist út yfir lengra tímabil. Þá sé erfitt að spá fyrir um þróun á vinnumarkaði og skiptar skoðanir um hvort skilyrði fyrir sköpun fjölda nýrra starfa séu að skapast.