Um verslunarmannahelgina fer vel á því að rifja upp gildi verslunar. Jón biskup Vídalín segir í prédikun tíunda sunnudag eftir Trinitatis: „Það er víst, að ekki getur veröld þessi staðist án kauphöndlunar.

Um verslunarmannahelgina fer vel á því að rifja upp gildi verslunar. Jón biskup Vídalín segir í prédikun tíunda sunnudag eftir Trinitatis: „Það er víst, að ekki getur veröld þessi staðist án kauphöndlunar. Mismun hefur hinn alvísi skapari gjört bæði landanna og mannanna, en engum hefur hann gefið allt.“

Um svipað leyti og Vídalín mælir þessi orð, skrifar enska skáldið Addison í tímaritið Spectator 1711: „Nytsamlegri menn eru ekki til en kaupmenn. Þeir binda mannkyn saman í gagnkvæmum samskiptum góðra verka, dreifa gjöfum náttúrunnar, veita fátæklingum atvinnu, bæta við auð hinna ríku og vegsemd hinna miklu. Hinn enski kaupmaður vor breytir tini í eigin landi í gull og skiptir ull fyrir rúbína. Fylgismenn Múhameðs spámanns klæðast breskum fatnaði, og íbúar hinna nístingsköldu Norðurslóða skýla sér í gærum af sauðum vorum.“ Addison bætir við: „Án þess að viðskiptin hafi bætt neinum löndum við ríki Bretakonungs, hafa þau fært oss eins konar viðbótarveldi. Þau hafa margfaldað tölu efnamanna, aukið stórkostlega verðmæti jarða vorra og bætt við aðgangi að öðrum jörðum jafnverðmætum.“

Þetta er í svipuðum anda og Jón Sigurðsson, sem var eindreginn frjálshyggjumaður, segir í Nýjum félagsritum 1843: „Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verslanin, þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.“

Einnig mætti minna á það, sem Halldór Kiljan Laxness leggur í munn söguhetju sinnar í Íslandsklukkunni , Arnæi: „En það voru ekki mjölbætur sem ég æskti þessu mínu fólki, og ekki hallæriskorn, heldur betri verslun.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is