Langt í burtu Sölvi Geir spilar í rússnesku úrvalsdeildinni með FC Ural næstu tvö árin en liðið er frá Ekatarínborg sem er 4.200 km frá Reykjavík.
Langt í burtu Sölvi Geir spilar í rússnesku úrvalsdeildinni með FC Ural næstu tvö árin en liðið er frá Ekatarínborg sem er 4.200 km frá Reykjavík. — Ljósmynd/FC Ural
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

Viðtal

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Þetta var alveg stór ákvörðun enda er þetta helvíti langt í burtu,“ segir Sölvi Geir Ottesen, landsliðsmaður í fótbolta, í viðtali við Morgunblaðið um þá ákvörðun sína að semja við rússneska félagið FC Ural til tveggja ára en gengið var frá málum í fyrradag og bíður Víkingurinn nú eftir því að fá keppnisleyfi.

FC Ural 83 ára gamalt félag frá Ekatarínborg (áður Sverdlovsk) sem vann sér inn sæti í rússnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og leikur nú á meðal þeirra bestu í fyrsta skipti síðan 1996.

Ekki fengið markmiðin túlkuð

„Aðdragandinn hefur verið langur þannig séð. Það er búið að ræða saman og verið að fá allt í gegn eins og vegabréfsáritun og svona. Þetta er búið að vera í gangi í smástund,“ segir Sölvi um leiðina til Ural.

Hann er spenntur fyrir því að leika í sterkri deild en rússneska úrvalsdeildin er sú áttunda sterkasta í Evrópu samkvæmt UEFA. „Þessi deild er mjög sterk. Sex til átta bestu liðin eru virkilega góð. Þetta er mjög spennandi upp á það að gera og svo er líka skemmtilegt að spila í sterkum deildum.“

Hver eru markmið liðsins á fyrsta ári í efstu deild eftir svona langa fjarveru? „Það tala voða fáir ensku hérna og túlkurinn minn er ekki búinn að segja mér hver markmiðin eru,“ segir Sölvi og hlær. „Það eru um 15 ár síðan liðið var síðast í efstu deild þannig að ætli markmiðið sé ekki að halda sér uppi og reyna byggja á því.“

Mjög sáttur við samninginn

Ural leikur á hinum glæsilega Central Stadium sem verður notaður í heimsmeistarakeppninni 2018. Sölvi hefur ekki enn séð völlinn en horft á tvo leiki með liðinu í sjónvarpinu og líkað vel. Sama gildir um umgjörð félagsins.

„Þetta er bara mjög fínt. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Það var grenjandi rigning í gær [fyrradag] og pollar á æfingasvæðinu en það var nú bara veðrið,“ segir Sölvi sem fær 85 milljónir króna í árslaun auk veglegra bónusa og einkabílstjóra á meðan hann leikur fyrir Ural samkvæmt danska blaðinu Ekstra Bladet . „Ég vil nú ekkert tjá mig um það en ég er mjög sáttur,“ segir hann.

Búinn eftir heræfingu

Rússneska úrvalsdeildin er farin af stað og eftir þrjár umferðir er Ural með eitt stig í næstneðsta sæti. Liðið leikur fjórða leikinn í dag en Sölvi er ekki kominn með keppnisleyfi og getur því ekki verið með strax.

„Ég er heldur ekkert í besta forminu núna,“ segir hann en Sölvi var í frystinum hjá FCK í Danmörku í marga mánuði og hefur því vart stigið fæti á knattspyrnuvöllinn á þessu ári. Honum finnst hann þó ekki eiga langt í land.

„Alls ekki. Mig vantar bara aðeins upp á þolið en yfirleitt er ég mjög fljótur að koma mér í form og að sama skapi er ég lengi að detta úr formi. Ég var líka að æfa með FCK þannig ég hef ekki bara setið kyrr. Svo fór ég á æfingu með þrekþjálfara liðsins í dag [gær] sem gerði alveg út af við mig. Ég hélt ég væri kominn í rússneska herinn á tímabili. Það er tekið vel á móti manni,“ segir Sölvi og hlær við.

Útskýringin aðhlátursefni

Eins og áður segir fékk Sölvi Geir lítið sem ekkert að spila með FCK á síðustu leiktíð. Hann var samt sem áður gríðarlega vinsæll hjá félaginu og var gert sérstakt myndband á vef félagsins þar sem hann var kvaddur.

„Ég hef ekki neitt upp á neinn að klaga í kringum félagið. Það kom bara nýr þjálfari inn sem vildi ekkert með mig hafa en það var ljóst alveg frá upphafi. Það skipti engu máli hvað ég gerði eða reyndi,“ segir Sölvi en umræddur þjálfari, Ariel Jacobs, lét meðal annars hafa eftir sér í dönskum miðlum að Sölvi hegðaði sér ófagmannlega og það væri ein ástæða þess að hann spilaði ekki.

„Þetta var úr lausu lofti gripið enda segir yfirmaður íþróttamála hjá félaginu í þessu kveðjumyndbandi að það sé leitun að leikmanni sem sé jafnfaglegur og Sölvi Geir. Útskýringin sem ég fékk frá þjálfaranum var svo bara grín – algjört aðhlátursefni,“ segir Sölvi Geir sem horfir nú fram á veginn og hlakkar til nýrra áskorana.

„Nú hlakka ég bara til að fara spila fótbolta – alvörukeppnisleiki,“ segir Sölvi Geir Ottesen.

FC Ural
» Stofnað 1930
» Frá Ekatarínborg sem stendur á miðjum landamærum Evrópu og Asíu, 4.200 kílómetra frá Reykjavík.
» Borgin er sú fjórða stærsta í Rússlandi með tæpar 1,5 milljónir íbúa.
» Liðið hefur aldrei unnið titil og leikur nú í efstu deild í fyrsta skipti síðan 1996.