Skúli Hansen skulih@mbl.is Rúmlega tuttugu geislafræðingar á Landspítalanum höfðu dregið uppsögn sína til baka í gær en samkomulag náðist á milli geislafræðinga og stjórnenda spítalans síðastliðinn fimmtudag.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Rúmlega tuttugu geislafræðingar á Landspítalanum höfðu dregið uppsögn sína til baka í gær en samkomulag náðist á milli geislafræðinga og stjórnenda spítalans síðastliðinn fimmtudag.

Að sögn Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, eru flestir þeirra sem dregið hafa uppsagnir sínar til baka mættir aftur til vinnu. Þá bendir hann á að þjónustan muni frekar breytast í dag þar sem spítalinn hafi hingað til unnið samkvæmt varaáætlun. Samkvæmt henni voru röntgenvaktirnar á Landspítalanum í Fossvogi og Hringbraut sameinaðar en frá og með deginum í dag verður full vakt í báðum byggingunum. Einnig verður hægt að fara í fleiri sérhæfðar rannsóknir á borð við segulómun eða æðarannsókn. Þá bendir Björn á að enginn hafi ennþá neitað að koma aftur til starfa.

Vilja hugsa sig um

Katrín Sigurðardóttur, formaður Félags geislafræðinga, segist ekkert hafa frétt af fólki sem dregið hefði uppsagnir sínar til baka. Þá sagði hún fólk vilja hugsa sig um og að það þyrfti að fá sitt svigrúm til þess. Spurð að því hvort hún hafi heyrt af einhverjum geislafræðingum sem ætli ekki að snúa aftur til vinnu á LSH segist Katrín vita um dæmi þess efnis. „Fólkið er þá búið að fá vinnu eða farið til útlanda,“ segir Katrín.