Ríkisstjórn Írlands tilkynnti uppgjöf sína 21. nóvember 2010

Snemma að morgni 18. nóvember 2010 tilkynnti Patrick Honohan, aðalbankastjóri Seðlabanka Írlands, sem þá var staddur í Frankfurt í Þýzkalandi í höfuðstöðvum Seðlabanka Evrópu, að vinnuhópur frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mundi koma til Írlands og vinna að samkomulagi um stórt lán til Írlands. Svo virðist, sem hvorki Brian Cowen, forsætisráðherra landsins, né Brian Lenihan fjármálaráðherra hafi verið kunnugt um að seðlabankastjórinn mundi skýra frá þessari heimsókn. Og svo virðist sem hvorugur þessara ráðherra hafi verið þeirrar skoðunar að Írland þyrfti á slíku stóru láni að halda.

Þetta er meðal þess, sem frá er sagt í nýrri bók, sem út kom í sumar og nefnist: The Fall of the Celtic Tiger-Ireland and the Euro debt crises. Höfundar bókarinnar eru tveir sérfróðir menn, Donal Donovan og Antoin E. Murphy. Hvers vegna lét seðlabankastjórinn ráðherrana tvo ekki vita fyrirfram? Vegna þess að þá var líklegt að þeir mundu reyna að tala hann ofan af því að gefa þessa yfirlýsingu, sem sett hefði seðlabankastjórann í erfiða aðstöðu.

Þann 4. október 2010 hafði Lenihan fjármálaráðherra fengið trúnaðarbréf frá Jean-Claude Trichet, þáverandi aðalbankastjóra Seðlabanka Evrópu, þar sem hann lýsti áhyggjum yfir stöðu írsku bankanna. Mánuði síðar, 4. nóvember 2010, fékk Lenihan annað bréf frá Trichet þar sem ábending hans var ítrekuð. Hinn 9. nóvember hafnaði Lenihan því algjörlega að Írland þyrfti á neyðarláni að halda. Tveimur dögum seinna var írska krísan á dagskrá fundar fjármálaráðherra G-7 ríkjanna í Seúl í Suður-Kóreu. Á fundinum var það sameiginleg skoðun, að Írar þyrftu að sækja um neyðarlán, og Timothy Geithner, þá fjármálaráðherra Bandaríkjanna, (sá sem lýsti tilboði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð við Ísland sem „kossi dauðans“ í samtali við Davíð Oddsson, þá formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands) setti fram þá skoðun að hugsanlegt fall írsku bankanna gæti haft meiri háttar áhrif á stöðu banka um allan heim.

Hinn 12. nóvember komst eins konar „æðsta ráð“ Seðlabanka Evrópu að þeirri niðurstöðu að bankinn gæti ekki haldið áfram lánveitingum til írsku bankanna og krafðist þess að skuldir þeirra yrðu lækkaðar (sem minnir á sambærilega kröfu gagnvart íslenzku bönkunum snemma sumars 2008).

Í framhaldi af þessu gripu ráðamenn Seðlabanka Evrópu til óvenjulegra ráða. Þeir kölluðu blaðamenn á nokkrum lykilmiðlum í Evrópu á sinn fund og láku fréttum, sem miðlarnir birtu samkvæmt „heimildum“ innan ESB þess efnis að Írland þyrfti á neyðarláni að halda og að viðræður væru í undirbúningi. Sama dag fór fram samtal í síma á milli Trichets og Lenihans. Efni þess er ókunnugt. Honohan sagði síðar að hann hefði ákveðið að fara í viðtalið við írska útvarpsstöð um morguninn 18. nóvember vegna þess að honum hefði borizt til eyrna að von væri á leiðara í Financial Times um málið þann dag.

Daginn eftir, 13. nóvember, báru helztu ráðamenn í Dublin saman bækur sínar og tveimur dögum síðar, 15. nóvember, aftók forsætisráðherrann með öllu að Írar mundu sækja um neyðarlán. Á bak við tjöldin reyndu Írar að semja um að lánið væri eingöngu vegna írsku bankanna (eins og síðar var gert á Spáni) en ekki vegna efnahagsstöðu Írlands almennt. Þann 16. nóvember skýrði forsætisráðherrann trúnaðarmönnum flokks síns frá þessari atburðarás og sagði að neyðarlán kæmi ekki til greina. Sama dag var lagt hart að Brian Lenihan í Brussel, sérstaklega af hálfu Þjóðverja, að tilkynna að Írland mundi sækja um neyðarlán. Daginn eftir, 17. nóvember, sagði forsætisráðherrann í þinginu að engar viðræður stæðu yfir um neyðarlán og gagnrýndi rangan fréttaflutning um málið. Lenihan talaði hins vegar undir rós um að hann væri að vinna með hóp frá ESB/AGS að málefnum írsku bankanna.

Hinn 19. nóvember, daginn eftir útvarpsviðtalið við Honohan frá Frankfurt sendi Trichet bréf til Lenihans þar sem hann hótaði því að Seðlabanki Evrópu lokaði á Írland ef ekki yrði lögð fram umsókn um neyðarlán.

Hinn 21. nóvember 2010 gafst ríkisstjórn Írlands upp og sendi formlega beiðni um neyðarlán og viku síðar hinn 28. nóvember 2010 var tilkynnt um samkomulag þessa efnis.

Um hvað snýst þessi saga? Hún snýst um það að tæpum tveimur árum eftir að írska ríkisstjórnin lýsti yfir ábyrgð írskra skattgreiðenda á öllum skuldbindingum írskra einkabanka voru þessir bankar komnir að fótum fram. Ríkisstjórnir beggja vegna Atlantshafs höfðu þungar áhyggjur af áhrifum þess á sínum heimaslóðum. Þeim var að sjálfsögðu sama um Íra en þeir gerðu sér grein fyrir að fall írsku bankanna gæti þýtt fall banka í öðrum löndum. Þess vegna tóku ráðamenn í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu höndum saman um að pína Íra til þess að sækja um neyðarlán og afsala sér með því að mati höfunda þeirrar bókar, sem hér er vitnað til, fjárhagslegu sjálfstæði Írlands um skeið.

Út af fyrir sig kemur boðskapur Geithners ekki á óvart og heldur ekki bréfasendingar Trichets (hann sendi líka bréf til Íslands og hringdi til Íslands). En óneitanlega kemur á óvart að svo virðuleg stofnun sem Seðlabanki Evrópu er skuli grípa til vinnubragða af því tagi að leka fréttum í fjölmiðla og segja að þeir megi nota „frasann“ um heimildarmenn innan ESB!

Engum þarf hins vegar að koma á óvart að ráðamenn á Írlandi hafi upplifað eins konar umsátursástand í Dublin í nóvembermánuði 2010.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is