Ragnheiður Indriðadóttir fæddist í Reykjavík 30. janúar 1930. Hún lést á heimili sínu 16. júlí 2013.

Útför Ragnheiðar fór fram í kyrrþey 25. júlí 2013.

Nú kveð ég ömmu mína, Ragnheiði Indriðadóttur, sem var alltaf kölluð amma Lilla. Ég mun sakna þess að koma ekki oftar í heimsókn til hennar á Skúlagötuna því þar áttum við margar góðar stundir. Nú síðustu ár kom öll fjölskyldan þar saman á hverjum miðvikudegi og þar var gleðin ætíð við völd. Miðvikudagarnir voru mikið tilhlökkunarefni í viku hverri og það var samveran sjálf sem skipti mestu. Alltaf var ömmu jafn illa við það þegar við stálumst í sjónvarpsfjarstýringarnar. Sjónvarpið var heilagur hlutur á heimilinu og það mátti alls ekki rugla stöðvunum. Það dugði vitanlega lítið til þó hún reyndi að fela fjarstýringarnar, við fundum þær alltaf aftur og héldum uppteknum hætti, henni til mikils ama.

Ég minnist einnig reglulegra leikhúsferða með ömmu og vinkonum hennar, Áslaugu og Þuríði. Á hverju ári fórum við á sýningar á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ég var nú ekki beinlínis aldursforsetinn í hópnum því hálf öld skildi okkur að í árum en alltaf voru þær jafn hressar og þvílík unglömb hef ég ekki fyrirhitt. Við áttum bestu sætin í húsinu og skemmtum okkur konunglega yfir hverri sýningu. Mér er það einna minnisstæðast nú í vetur þegar við hlógum svo mikið að við gátum varla staðið upp í hléinu, slík var gleðin. Hléið var einmitt ómissandi hluti af hverri sýningu því ekki mátti halda sýningunni áfram án þess að fá eitt púrtvínsglas í drottningarsvítunni.

Við áttum svo margar dýrmætar samverustundir saman. Amma passaði mig alltaf þegar ég var lítil og ég man hve oft við keyptum bland í poka og fórum að gefa öndunum brauð – þó ég hafi nú borðað mest af brauðinu sjálf. Við spiluðum líka mikið á spil. Hún kenndi mér að það væri stranglega bannað að svindla og að ekki mætti vera tapsár en ég átti það til að fara í fýlu ef ekki gekk vel í spilinu.

Hún varst stórkostleg kona og yndisleg amma. Saman eigum við hafsjó af minningum sem ég hugsa til með gleði í hjarta.

Sólveig.