Ólafur Arnarson
Ólafur Arnarson
Eftir Ólaf Arnarson: "Framganga Dróma gegn viðskiptavinum ber þess engin merki að yfirgripsmikil þekking á lögfræði ráði för og víst er kristilegt siðgæði víðs fjarri."

Hlynur Jónsson, stjórnarformaður Dróma, sendir mér tóninn í aðsendri grein í Morgunblaðinu, laugardaginn 27. júlí. Tilefni skrifa hans er grein eftir mig, sem birtist í sama blaði 18. júlí síðastliðinn. Í þeirri grein bendi ég á að túlkun Hlyns á dómafordæmi tveggja hæstaréttardóma er viðlíka og Faðirvorinu sé snúið upp á andskotann. Að mati Hlyns verðskulda ég falleinkunn í bæði lögfræði og kristinfræði fyrir vikið. Læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Framganga Dróma gegn viðskiptavinum ber þess engin merki að yfirgripsmikil þekking á lögfræði ráði för og víst er að kristilegt siðgæði er víðs fjarri.

Merkilegt er að Hlynur skuli kjósa að titla sig hæstaréttarlögmann en ekki stjórnarformann Dróma. Af tvennu illu er víst skárra að kenna sig við lögmannastéttina en hinn illræmda Dróma. Vestanhafs er gjarnan grínast með það að 80 prósent lögmannastéttarinnar komi óorði á hana. Ég get alls ekki fallist á slíkan aulahúmor og tek fram að ég þekki fjölda lögmanna, sem eru hið ágætasta fólk. Hlynur Jónsson er raunar ekki í þeim hópi.

Það er dapurlegt þegar löglærður maður, sem þar að auki kennir sig sérstaklega við lögmannastéttina til auðkenningar við greinaskrif, klikkar á grundvallaratriðum. Engu skiptir hversu mikið Hlynur Jónsson rembist við að halda öðru fram. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 snúast um það hvort réttmætt hafi verið að reikna afturvirka vexti vegna gjalddaga, sem þegar höfðu verið greiddir. Um þetta snerust þau mál og allir, sem einhverja yfirborðsþekkingu hafa á lögfræði og dómstólum, vita að dómstólar taka einungis afstöðu til þeirra ágreiningsefna sem undir þá eru borin.

Það er raunar með ólíkindum hve ónákvæmlega hæstaréttarlögmaðurinn fer með staðreyndir í grein sinni. Á einum stað vísar hann í hæstaréttardóm, sem fjallar um nágrannaágreining um staðsetningu trjáa en ekki gengistryggð lán og afturvirkan vaxtaútreikning. Úrskurður úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 198/2013 virðist ekki vera til þó að lögmaðurinn vísi í hann. Það skiptir kannski litlu máli þar sem úrskurðarnefndin er ekki dómstóll og úrskurðir hennar hafa takmarkað fordæmisgildi og raunar ekkert frammi fyrir dómstólum.

Lögmaðurinn fullyrðir að það eigi við um bæði dóma Hæstaréttar Íslands og Faðirvorið að þau taki jafnt til allra. Faðirvorið er kristin bæn og tekur því væntanlega eitthvað minna til þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð. Og, eins og vikið er að hér að ofan, þá er ekki hægt að útvíkka fordæmisgildi hæstaréttardóma út fyrir þau ágreiningsefni sem lögð eru fyrir Hæstarétt hverju sinni. Þess vegna eru dómar Hæstaréttar, sem vísað er til, ekki eitt allsherjarfordæmi í öllum eignarréttarlegum ágreiningsmálum.

Megininntak greinar minnar virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá hæstaréttarlögmanninum og hlýt ég að biðjast velvirðingar á því að hafa ekki hagað orðum mínum svo að þau séu meðfærileg jafnt leikum sem lærðum. Meginatriðið varðandi lög nr. 151/2010, hin svonefndu Árna Páls-lög er að með setningu þeirra var lántakendum tryggður ákveðinn réttur.

Síðar kom í ljós tvennt. Annars vegar að afturvirkni vaxtaútreikninga, sem fólst í Árna Páls-lögunum braut í bága við stjórnarskrá – hún braut gegn eignarrétti lántakenda en ekki fjármálafyrirtækja. Hins vegar, að sum þeirra lána sem Árna Páls-lögin náðu yfir hafa verið dæmd lögleg en ekki ólögleg. Drómi hefur túlkað það svo að hann eigi endurkröfu á þá lántakendur, sem reyndust vera með „lögleg“ gengislán þar sem lög nr. 151/2010 hafi brotið gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Enginn dómur hefur fallið í þessa veru. Með setningu laga nr. 151/2010 varð hins vegar grundavallarbreyting á kröfusambandi Dróma og annarra fjármálafyrirtækja við viðskiptavini sína. Drómi á ekki lengur kröfu á lántakendur hvað varðar leiðréttingu á höfuðstól. Ef Drómi á einhverja kröfu á einhvern þá er sú krafa á íslenska ríkið. Lög nr. 151/2010 færðu kröfusambandið frá viðskiptavinum Dróma til ríkisins. Drómi getur látið reyna á rétt sinn fyrir dómi en aðeins gagnvart ríkinu en ekki einstökum lántakendum.

Það lýsir átakanlegum skorti á kristilegu siðgæði að ráðast á einstaklinga, sem eiga erfitt með að verja hendur sínar, en láta ekki reyna á grundvallaratriði gagnvart þeim aðila, sem er réttur gagnaðili í málinu – ef eitthvert mál er þá til staðar.

Ekki ætla ég að reyna að kveða upp úrskurð um það hvort Hlynur Jónsson tilheyrir þessum 80 prósentum lögmanna, sem sumir segja að komi óorði á stéttina. Það er hins vegar nokkurt afrek hjá slitastjórn Dróma að hafa náð að koma óorði á skilastjórnir. Er þá langt til jafnað.

Höfundur er ritstjóri vefmiðilsins Tímarím.