Hæli Lögmaður Snowdens sýndi fjölmiðlum hælisleyfið í fyrradag.
Hæli Lögmaður Snowdens sýndi fjölmiðlum hælisleyfið í fyrradag. — AFP
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lýst mikilli óánægju með ákvörðun Rússa um að veita uppljóstraranum Edward Snowden tímabundið hæli í Rússlandi.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lýst mikilli óánægju með ákvörðun Rússa um að veita uppljóstraranum Edward Snowden tímabundið hæli í Rússlandi. Yfirvöldum vestanhafs var ekki gert viðvart áður en tilkynnt var um ákvörðunina, sem Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði hafa valdið stjórnvöldum miklum vonbrigðum.

Carney tilkynnti jafnframt að í kjölfarið yrðu fyrirætlanir um fund Baracks Obama Bandaríkjaforseta og Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta í Moskvu í næsta mánuði teknar til endurskoðunar.

Ónefndur bandarískur embættismaður sagði í samtali við CNN að hælisveitingin hefði legið í loftinu í nokkurn tíma og kæmi því varla á óvart. Þá sagði George Little, talsmaður Pentagon, að bandarísk hermálayfirvöld vildu að sjálfsögðu viðhalda samskiptum sínum við rússneska herinn.

Það kvað þó ekki við sáttatón hjá fjölda þingmanna sem tjáðu sig um málið í gær. Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain kallaði ákvörðun Rússa löðrung í andlit allra Bandaríkjamanna og hvatti til þess að samskipti stjórnvalda við Vladimir Pútín yrðu tekin til gagngerrar endurskoðunar.

„Rússar hafa stungið okkur í bakið og fyrir hvern dag sem herra Snowden er frjáls ferða sinna er hnífnum snúið,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Charles E. Schumer.

Faðir Edwards, Jon Snowden, sagði í samtali við rússneska fjölmiðla á fimmtudag að hann væri þakklátur Rússum og hlakkaði til að heimsækja son sinn í Rússlandi.

Þá virðist Snowden ekki dæmdur til að sitja auðum höndum þar sem Pavel Durov, stofnandi samskiptasíðurnnar V Kontakte, hefur boðið honum starf í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Sankti Pétursborg.