Hasar Denzel Washington og Mark Wahlberg í kröppum dansi í kvikmynd Baltasars, 2 Guns.
Hasar Denzel Washington og Mark Wahlberg í kröppum dansi í kvikmynd Baltasars, 2 Guns.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Almennar sýningar á 2 Guns , nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, hófust í gær í Bandaríkjunum en myndin var frumsýnd formlega í New York mánudaginn sl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Almennar sýningar á 2 Guns , nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, hófust í gær í Bandaríkjunum en myndin var frumsýnd formlega í New York mánudaginn sl. Kynning á myndinni hefur verið fyrirferðarmikil í bandarískum fjölmiðlum undanfarnar tvær vikur eða svo og fjöldi viðtala við leikstjórann og stjörnur myndarinnar, Denzel Washington og Mark Wahlberg, hefur verið birtur á hinum ýmsu vefmiðlum. Óttaðist blaðamaður því að Baltasar væri búinn að fá nóg af því tala um myndina þegar hann sló á þráðinn til hans í fyrradag.

Mikil samkeppni

-Þú ert væntanlega þurrausinn hvað viðtöl snertir?

„Það má segja það,“ segir Baltasar og hlær þreytulega.

-Það er býsna mögnuð kynningarmaskína á bak við þessa mynd?

„Já, þetta er mikið húllumhæ í kringum þetta, mikil pressa. Þeir hafa mikla trú á henni og setja mikið í kynninguna.“

-Hvernig er kynningin á þessari mynd samanborið við kynninguna á Contraband á sínum tíma?

„Þetta er ívið meira, myndi ég halda. Á sumrin er svo rosaleg samkeppni og það má segja að menn þurfi að leggja meira í þetta ef þeir ætla út í þann slag. Annars geturðu bara drukknað,“ svarar Baltasar.

-Og það er væntanlega meira undir með þessa mynd?

„Það er reyndar ekki eins mikið undir og lítur út fyrir,“ segir Baltasar. Myndin hafi verið seld til dreifingar á alþjóðamarkað á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín og því sé þegar búið að afla mikils fjár upp í framleiðslukostnaðinn. Myndin hafi kostað 50-60 milljónir dollara í framleiðslu, þegar skattaafsláttur hafi verið dreginn frá og það sé í raun ekki svo há upphæð þegar um sumarmynd er að ræða. Til samanburðar hafi The Lone Ranger kostað um 140 milljónir dollara.

-Nú hefjast almennar sýningar á myndinni á morgun [í gær] þannig að þetta er væntanlega mikil stresshelgi hjá þér, frumsýningarhelgin?

„Jú, þetta er eins slæmt og það gerist, það verður ekki mikið verra,“ segir Baltasar, léttur í bragði.

-Frumsýningarhelgin gefur vísbendingu um það hvernig kvikmyndin mun ganga í miðasölu yfirleitt, ekki satt?

„Jú, það er byrjunarreiturinn. Svo er spurning hvað hún getur gengið en það liggur meira í því hvernig hún spyrst út,“ segir Baltasar. Það sé nauðsynlegt að ná góðu starti.

Öllu vanur þegar kemur að dómum

-Nú eru dómar um myndina farnir að tínast inn og þeir eru upp og ofan, sumir hrifnir og aðrir ekki...

„Það er eins og það er og svona myndir reiða sig ekki mjög mikið á það, þessi mynd er fyrst og fremst „entertainment“. Það var því við ýmsu að búast en það er líka mikið af mjög jákvæðri gagnrýni. Það er áhugavert hvað menn sjá hana með ólíkum hætti,“ segir Baltasar og nefnir að sjónvarpsmaðurinn heimskunni Larry King hafi ausið myndina lofi, sagt hana þá bestu sem hann hefði séð í mörg ár. Af jákvæðum dómum má svo nefna dóma Variety og Hollywood Reporter, kvikmyndarita sem hafa allnokkra vigt í geiranum. „Maður er svo sem öllu vanur í þessu, auðvitað er alltaf skemmtilegra að allt sé jákvætt en það er sjaldan þannig. Það var þannig með Djúpið , allt jákvætt eiginlega,“ segir Baltasar.

-Heldurðu að dómarnir skipti miklu upp á aðsókn?

„Nei, ég held nú ekki, ég held að svona myndir byggi ekki mikið á því. Sjálfsagt eitthvað, jákvæðir dómar hjálpa frekar en hitt. Maður sér oft myndir sem fá fína dóma en gera ekki neitt og öfugt,“ segir Baltasar. Þegar myndin hafi verið prófuð á áhorfendum hafi hún fengið háa einkunn, hærri en Contraband og því séu menn nokkuð bjartsýnir hvað aðsókn varðar.

Frábær leikari

-Nú hlýtur þú að læra eitthvað nýtt með hverri mynd sem þú leikstýrir. Hvað heldurðu að þú hafir lært af þessari?

„Maður vex við hverja raun og það er kannski erfitt að fara að greina það á þessum tímapunkti. Maður þarf að sjá hvað þetta gerir og hvar þetta lendir, hvernig hún gengur um helgina. Ef hún gengur illa þarf að skoða þetta í öðru samhengi. Það er svolítið snemmt að fara að greina það núna.“

-Þú verður alla vega sífellt sjóaðri í því að stýra kvikmyndastjörnum.

„Já, já, það er engin spurning. Eftir að hafa átt við Denzel er ekkert sem kemur manni út af laginu,“ segir Baltasar kíminn en hann hefur sagt frá því í viðtölum að Denzel Washington hafi ekki verið neitt lamb að leika sér við. „Hann er frábær leikari, einn albesti leikari í heimi en það er ekkert auðvelt að eiga við hann. Hann gerir miklar kröfur enda er hann búinn að vinna sér inn fyrir því.“

-Var þetta ekki gott frumsýningarpartí í New York?

„Þetta var æðislegt. Rosalega flott partí á Standard-hótelinu, ofboðslega fallegt útsýni yfir alla borgina og mikið húllumhæ. Það var frábært, mjög skemmtilegt,“ segir Baltasar að lokum.

Dómar flestir jákvæðir

2 Guns segir af tveimur mönnum, fíkniefnalögreglumanni og starfsmanni leyniþjónustu bandaríska sjóhersins, sem ganga til liðs við glæpasamtök í þeim tilgangi að standa hvor annan að glæp og handtaka. Þeir ræna mexíkóskan eiturlyfjabarón og komast í kjölfarið að því að þeir hafa verið leiddir í gildru og að hvorugur er sá sem hann þykist vera.

Á vefnum Metacritic má finna samantekt dóma hinna ýmsu fjölmiðla um myndina og í gær höfðu 33 dómar bandarískra fjölmiðla verið teknir saman. Meðaltalseinkunn myndarinnar var þá 55 af 100 mögulegum,16 dómar taldir jákvæðir, 14 hvorki jákvæðir né neikvæðir og þrír neikvæðir. Meðal hinna jákvæðu eru Entertainment Weekly (88/100), New York Magazine (80/100), The New York Times (70/100), Hollywood Reporter (70/100) og Variety (70/100).