[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Lýðræðið er aldrei greypt í stein, ekki einu sinni á Íslandi,“ segir dr.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Lýðræðið er aldrei greypt í stein, ekki einu sinni á Íslandi,“ segir dr. Andreja Valic Zver, sagnfræðingur frá Slóveníu, en hún flutti í gær fyrirlestur á Þjóðarbókhlöðunni um mikilvægi þess að minnast fórnarlamba alræðisstefna 20. aldar í Evrópu. Valic Zver segir að umræða um minningu fórnarlambanna eigi sér nú stað um alla Evrópu. „Sú umræða er mikilvæg fyrir framtíð lýðræðisins. Þeir friðartímar sem við höfum lifað að undanförnu eru því miður ekki sjálfsagðir. Við þurfum því að ígrunda þessa sögu á hverjum degi,“ segir Andreja. Lýðræðið krefjist þess að þegnar þess séu vel upplýstir og geti beitt gagnrýnni hugsun.

„Þetta er einnig mikilvægt því að þögnin leysir aldrei neinn vanda heldur ýtir hún erfiðum minningum frá sér og þær minningar brjótast þá aftur fram sem neikvæðar tilfinningar haturs og reiði,“ segir Andreja og bætir við að þess sjái vel stað í heimalandi sínu, þar sem umræða um þessa hluti hafi verið bæld niður frá 1945 til 1990. „Fortíðin er alltaf að verki í samtímanum, hún hverfur aldrei heldur hefur hún mikil áhrif á ákvarðanir okkar og þar með framtíðina,“ segir Valic Zver.

Minningarferlið er erfitt

Andreja segir að margar rannsóknir hafi farið fram um fórnarlömb nasismans og fasismans og minningu þeirra hafi verið gerð mikil skil. Annað sé hins vegar upp á teningnum þegar kemur að fórnarlömbum kommúnismans. Þar sé mikill óplægður akur, en þó horfi til betri vegar. „Umræðan um þau fórnarlömb hefur orðið dýpri á síðustu árum, sérstaklega eftir árið 2004 þegar Evrópusambandið stækkaði til austurs. Þetta er hins vegar langt og erfitt ferli.“ Andreja segir að Evrópuráðið og aðrar pólitískar stofnanir Evrópu hafi lagt góðan grundvöll að því að heiðra minningu fórnarlambanna. Nú þurfi hins vegar að byggja ofan á þann grundvöll, en Valic Zver nefnir þar sem dæmi Evrópsku samtökin um minningu og samvisku þar sem hún situr í framkvæmdaráði, en þau samtök voru sett á fót árið 2011.

Valic Zver starfaði lengi sem sögukennari. Hún segir að aukin og bætt menntun sé lykilatriði þegar kemur að því að fást við erfiðar minningar í þjóðarsögu. Á vettvangi Euroclio, samtaka evrópskra sögukennara, hafi verið rætt hvernig best væri að kenna ungmennum um jafnhræðilega hluti og þjóðarmorð og útrýmingarbúðir. Þar gildi hið sama að ekki sé hægt að þegja um slíka hluti. Umræður af þessu tagi séu hins vegar erfiðar hafi kennarinn ekki nein gögn eða undirbúning til þess að takast á við þær. „Þegar ég kenndi notaði ég oft fjölskyldusögu. Ég bað nemendur mína að kynna sér sögu fjölskyldu sinnar á tímum heimsstyrjaldarinnar.“ Andreja segir að þessi aðferð hafi hjálpað nemendum að sjá það að sagan væri ekki fastmótuð.

Góði Stalín í minningunni

Talið berst að þeim skaða sem kommúnisminn hafi valdið í Evrópu, en Andreja áætlar að langur tími muni líða þar til hann verði bættur að fullu. „Rússneski rithöfundurinn Viktor Erefeyev ræddi þetta í bók sinni, „Góði Stalín“, um þá staðreynd að margir Rússar sjá Stalín fyrir sér sem bjargvætt og góðan mann.“ Sama hafi gilt í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu um Tító. „En þetta voru ekki góðir menn, þeir voru morðingjar, einræðisherrar og þjófar,“ segir Andreja og spyr hvað leiði fólk til þess að dýrka slíka menn. „Það mun taka tímann sinn að breyta slíku hugarfari, en það er nauðsynlegt.“