Fjársjóður Íslands Jónas Kristjánsson er að láta af störfum forstöðumanns Handritastofnunar Íslands eftir samfylgd með handritunum og handritamálinu í 3 áratugi.

Fjársjóður Íslands Jónas Kristjánsson er að láta af störfum forstöðumanns Handritastofnunar Íslands eftir samfylgd með handritunum og handritamálinu í 3 áratugi. Í samtali á þessum tímamótum segir hann handritin það dýrmætasta sem við Íslendingar eigum og hann hafi alltaf jafn mikla ánægju af að sýna þennan fjársjóð og kynna hann úti í heimi

eftir Elínu Pálmadóttur.

JÓNAS Kristjánsson hefur á tilskildum aldursmörkum látið af störfum forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar. Hann kom þar til starfa í upphafi handritastofnunar fyrir 31 ári og tók fyrir rúmum 23 árum við sem forstöðumaður. Í hugum margra eru Handritastofnun Íslands og Jónas Kristjánsson eitt, svo vanur er maður að sjá hann á fréttamyndum að sýna af alúð opinberum gestum landsins handritin, fjársjóð Íslands, og frétta af honum við að auka orðstír hans með fyrirlestrum um þennan þjóðararf og skyld efni við erlenda háskóla eða þekktar fræðistofnanir. Jónas var að rýma skrifstofu sína og tína ógn af pappírum niður í kassa, þegar okkur bar að garði til að ræða við hann um þennan drjúga starfsferil þar. Í hans hlut hefur komið að fylgja afhendingu íslensku handritanna frá Danmörku frá því þau fyrstu komu og þar til nú að dregur að lokum. Undirbúin er koma þeirra síðustu 1996. Kvaðst Jónas vona að þá verði hátíð góð.

SJÁ NÆSTU SÍÐU

ónas kom að þessari nýju íslensku handritastofnun strax eftir að hún tók til starfa 1963. Einar Ólafur Sveinsson prófessor hafði verið skipaður forstöðumaður. Auglýstar voru tvær stöður og í þær ráðnir Ólafur Halldórsson og Jónas Kristjánsson. Málið var honum ekki framandi. Hann kvaðst hafa fylgst með handritamálinu af ákafa. Fljótlega eftir að Gylfi Þ. Gíslason varð menntamálaráðherra 1956 fór hann að hreyfa því aftur og 1961 voru dönsku lögin um afhendingu handritanna samþykkt. "Ég hafði unnið sem aðstoðarmaður Gylfa og Einars Ólafs. Var undir þeirra handleiðslu að gera óskalista um handritin sem við vildum fá," segir Jónas. "Jú, óskalistinn var stærri í upphafi en í lokin, enda var gerð málamiðlun. Þorrinn af handritunum kom þó heim." Og Jónas útskýrir þetta enn frekar.

"Danskir lögfræðingar og stjórnmálamenn útbjuggu sjálfir lögin. Bjuggu til greinimark um það hvaða handritum skyldi skilað heim til Íslands. Skilyrðin sem handritin þurftu að uppfylla voru að þau væru íslensk menningareign og það skilgreint frekar. Einar Ólafur hafði hugsað sér að handritið teldist íslenskt ef skrifarinn væri íslenskur, sem var skynsamleg regla, enda voru það þá öll handrit sem Íslendingar höfðu skrifað. Danir miðuðu við verkið sjálft. Nægði ekki að það væri skrifað af Íslendingi. Það þurfti að vera samið eða þýtt af Íslendingi og jafnframt varð það efnislega, einvörðungu eða að meirihluta, að snerta Ísland og íslenskar aðstæður. Undantekning þó skáldverk frá síðmiðöldum. Innan danska þingsins voru andstæðingar málsins. Og lögin áttu ekki að taka gildi fyrr en þau hefðu verið samþykkt aftur að loknum kosningum. Það varð á árinu 1965. Voru þau þá samþykkt óbreytt. Þá brakaði í öllu í Danmörku. Kom til tals að leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, en til þess þurfti 60 atkvæði, og lá við að það næðist. Hefði málið þá ef til vill verið ónýtt, því andstaðan fór vaxandi í Danmörku. Þetta var æsispennandi og með þessu öllu fylgdist maður af áhuga. Nú var gerður sáttmáli um heimflutning íslensku handritanna. Þá fór Árnanefnd undir forustu Chr. Westergårds-Nielsens í mál við danska ríkið. Það urðu tvenn málaferli, þau seinni frá hendi danska ríkisins til að tryggja sig, svo ekkert kæmi nú í bakið á því. Málinu lauk í Hæstarétti 1971 og þá var hægt að fara að skila handritunum. 1. apríl 1971 var fullgiltur sáttmálinn, sem hafði verið tilbúinn síðan 1965. Ég var búinn að starfa frá 1963 hjá Stofnun Árna Magnússonar og orðinn forstöðumaður þegar seinni hæstaréttardómurinn féll og sáttmálinn var staðfestur."

Málið var sem sagt lengi í hættu. En ef að dómurinn hefði nú fallið á annan veg og íslensku handritin ekki átt afturkvæmt, hvað hefði þá orðið um Handritastofnunina sem Íslendingar voru búnir að koma upp átta árum áður til að hýsa þau? Jónas segir að hún hefði haldið áfram, en það hefði ekki verið svipur hjá sjón.

Einstakt drengskaparbragð

Jónas Kristjánsson fékk því notið þess að að taka við til varðveislu fyrstu handritunum sem Danir sendu með herskipi og afhentu með mikilli viðhöfn 1. apríl 1971. "Það voru Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, sem voru sérstaklega nefndar í lögunum. Ekki var alveg öruggt að þær féllu undir skilaákvæðin og Íslendingar vildu endilega fá þær. Helge Larsen menntamálaráðherra Dana rétti Gylfa Þ. Gíslasyni menntamálaráðherra Flateyjarbók við athöfn í Háskólabíói síðdegis og sagði "Vær så god, Flatøbogen! Það var áhrifamikil stund", segir Jónas. Og að þessu máli átti hann eftir að vinna alla starfsævina.

"Skipuð var fjögurra manna skilanefnd, sem skyldi ákveða hvaða handrit féllu undir ákvæðin og yrði skilað til Íslands. Í henni voru tveir Íslendingar frá Háskóla Íslands, Magnús Már Lárusson og Jónas Kristjánsson, og tveir Danir, Christian Westergård-Nielsen prófessor og Ole Widding orðabókarstjóri. "Þetta varð gríðarleg vinna, sem ekki var lokið fyrr en á árinu 1986. Við héldum fjóra fundi á ári, tvo á Íslandi og tvo í Kaupmannahöfn. Í Árnasafni eru um 2.800 handrit, ekki þó öll íslensk. Erfitt að segja nákvæmlega hve mörg, en íslensku handritin munu vera um 2.400. Dálítið var skilið eftir, en heim koma um 1.700 úr Árnasafni og á annað hundrað úr Konunglega bókasafninu. Samkvæmt sáttmálanum áttu þau síðustu að vera komin heim eftir 25 ár. Nokkrar tafir hafa orðið, staðið á viðgerðum og ljósmyndun, en öll eru handritin ljósmynduð í Árnastofnun áður en þau fara til Íslands og stundum er verið að nota þau. Endanlega er ákveðið að þau síðustu komi á árinu 1996 og málinu sé þá lokið," segir Jónas.

Við ræðum svolítið um þessi merkilegu samskipti landanna tveggja og Jónas segir: "Að skila svona gersemum til annarrar þjóðar er af Dana hálfu einstakt drengskaparbragð, sem hefur verið metið á Íslandi. Engin önnur þjóð hefur gert neitt sambærilegt. Það kunnu allir að meta og það breytti alveg viðhorfinu til Dana. Svolítið eimdi alltaf eftir af óvild, sem ég held að hafi alveg horfið. Það voru dönsku stjórnmálamennirnir sem leystu þetta mál."

Vísað í átt til handritanna

Jónas er Þingeyingur, fæddur að Fremstafelli í Ljósavatnshreppi. Þar um slóðir höfðu menn orð fyrir að vera harðir í frelsisbaráttunni. Drakk hann ekki í sig tortryggni í garð Dana í uppvextinum? "Jú, jú. Jónas frændi minn frá Hriflu hafði skrifað Íslandssöguna með mikilli andúð á Dönum. Hún var skrifuð sem áróðursrit. Þetta var gamla aðferðin og þetta voru sjálfstæðismenn sem vildu frelsi Íslands. Aðferðin komin allt frá Jóni Sigurðssyni, enda þurfti þess með. Ég drakk þetta í mig. Þó var ég ekki alinn upp við neina óvild til Dana heima hjá mér. Löngu seinna hitti ég einu sinni Bodil Bergtrup, sem var hér sendiherra. Hún kvaðst hafa verið að lesa kennslubækur í Íslandssögu og alveg blöskrað. Ein væri þeirra allra verst. Sú væri eftir Jónas nokkurn Jónsson, sem ég sagði henni að væri föðurbróðir minn. Þetta hefur nú verið lagfært í íslenskum sögubókum. En engin þeirra stenst samanburð við sögu Jónasar að ritsnilli og á sínum tíma vinsældum meðal æskumanna. Mér var ekki illa við Dani, enda fór ég til Danmerkur."

Það átti sér nokkra forsögu og lá ekki beint við. Jónas hafði farið í Menntaskólann í Reykjavík og síðan í íslensk fræði við Háskóla Íslands 1943­48. "Það var ekki sjálfsagt að menn færu í skóla. Ég var búinn í Laugaskóla árið sem ég var fermdur. Sigurður Thorlacius, mágur minn, var skólastjóri Austurbæjarskólans og hann og Áslaug systir mín voru á sumrin með börnin hjá okkur í Fremstafelli. Það varð að samkomulagi að á móti tækju þau mig og settu mig í skóla á vetrum. Ég bjó svo hjá þeim í Austurbæjarskólanum á menntaskólaárunum og eftir að Áslaug varð ekkja hjá henni þar til ég gifti mig."

Jónas segir alls ekki víst að hann hefði farið í íslensk fræði eftir að hann varð stúdent ef það hefði ekki verið í miðju stríðinu 1943. Hann hafði útþrá og langaði mest utan til náms. "En ég gat vel hugsað mér að læra íslensk fræði. Var mikill aðdáandi Sigurðar Nordals. Hann og Jónas föðurbróðir minn voru miklir vinir. Þeir höfðu dvalið saman í Hriflu sumarið 1909, þar sem faðir minn hafði tekið við búi eftir föður sinn. Þegar móðurafi minn hætti búskap fluttust foreldrar mínir svo að Fremstafelli, sem var meiri jörð og raunar næsti bær við Hriflu."

Eftir að hann hafði lokið cand. mag. prófi í íslenskum fræðum hugðist Jónas svala útþránni og fara til Engslands, enda stríðið búið. Hafði verið að safna sér farareyri. "En áður en það gerðist fékk Sigurður Nordal þá hugmynd að senda mig til Jóns Helgasonar til að læra útgáfu handrita, svo að ég yrði tilbúinn þegar handritin kæmu. Hann skrifaði í Fremstafell. Ég ætlaði að halda mínu striki, en faðir minn vildi að ég færi að hans ráðum. Þegar þeir lögðust báðir á eitt varð það úr. Svo að ég var í fjögur ár að vinna í Árnastofnun í Kaupmannahöfn undir handarjaðri Jóns Helgasonar. Enginn Íslendingur hafði verið þar um sinn. Ég var sá fyrsti til að vinna að handritunum eftir stríð. Svo komu fleiri, Bjarni Einarsson, Ólafur Halldórsson, Stefán Karlsson og Jón Samsonarson. Enda var farið að liggja í loftinu að fá handritin heim. Við vorum allir að vinna þarna og komum allir þessir lærisveinar Jóns til starfa hér heima í Stofnun Árna Magnússonar. Og nú tekur Stefán Karlsson við af mér sem forstöðumaður."

Einar Ólafur Sveinsson prófessor var þar fyrstur forstöðumaður á árunum 1962­70. "Seinni árin var ég mikið með honum," heldur Jónas áfram. "Ég var nemandi hans úr Háskólanum og hafði unnið með honum við útgáfur Hins íslenska fornritafélags, en hann var þar útgáfustjóri. Þá vann ég við kennslu í Samvinnuskólanum og í Þjóðskjalasafni og utan þess var ég að gefa út Eyfirðingasögur. Einnig vann ég með Einari Ólafi að undirbúningi handritamálsins. Það kom sjálfkrafa að ég yrði eins og hans hægri hönd. Mér þótti vænt um Einar Ólaf og það var náið á milli okkar. Sú vinátta hefur haldist í ættliði. Eftir að Einar Ólafur og Kristjana voru bæði fallin frá og Sveinn sonur þeirra ætlaði að selja húsið þeirra við Oddagötu, þá vildi hann að við Sigríður fengjum það og við keyptum það. Má því segja að ég hafi hreiðrað um mig í Einars Ólafs sætum og rúmum." Jónas Kristjánsson er því ekki farinn langt frá Handritastofnun þótt hann hætti þar daglegum störfum.

Kona Jónasar er Sigríður Kristjánsdóttur húsmæðrakennari og íslenskufræðingur. Hún var kennari við Húsmæðrakennaraskólann og starfaði síðan lengi hjá Kvenfélagasambandi Íslands, var ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar og veitti forstöðu Leiðbeiningarstöð heimilanna. Síðan innritaðist hún í Háskólann og tók BA próf í íslensku. Heimili þeirra hjóna er annálað fyrir greiðasemi, jafnt við innlenda sem erlenda gesti. Og oftast hefur mátt sjá Sigríði á ferð með Jónasi á fyrirlestrarferðum hans. "Ég var nú kominn yfir þrítugt þegar mér varð konu auðið, en það skal vel vanda sem lengi á að standa. Og ég er ekki hræddur um að hjónaband okkar Sigríðar bili meðan við lifum bæði. Við höfum nú bráðum bollokað saman í 40 ár," segir Jónas.

Handritin okkar skartgripaskrín

Eins og ævinlega á sumrin er síðdegis opin sýning á handritum í Stofnun Árna Magnússonar og fólk að koma. Talið berst að því og Jónas segir: "Við eigum svo lítið af fornum minjum. Handritin eru það merkilegasta sem við eigum. Það fer saman við bókmenntaarfinn og því eðlilegt að það séu handritin sem við sýnum. Þau eru okkar skartgripaskrín. Eins og kastalar og forn listaverk sem aðrar þjóðir geta sýnt. Við eigum engar gamlar byggingar og næstum allar fornminjar okkar eru saman komnar í Þjóðminjasafninu. En svo eigum við handritin," segir Jónas og bætir við að hann verði aldrei leiður á að sýna háum sem lágum handritin. Hans síðasta verk sem forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar hafi verið að sýna Beatrix Hollandsdrottningu handritin. Hún og maður hennar hafi verið mjög áhugasöm og spurt margs. Eins hafi verið mjög ánægjulegt einn af síðustu dögum hans í starfi að sýna Helveg Petersen, utanríkisráðherra Dana, handritin, en faðir hans hafði ásamt Jörgen Jörgensen frá Radikale venstre verið einn af baráttumönnunum fyrir framgangi handritamálsins. "Við höfum á sumrin opna sýningu hér síðdegis fyrir gesti og svo kemur fólk þess á milli, einstaklingar, hópar og skólabörn. Þau eru auðvitað aufúsugestir. Það er gaman að fá þau og það er æskilegur þáttur í uppfræðslu æskulýðsins," segir Jónas.

Jónas segir að síðan hann varð forstöðumaður hafi mestur tími hans farið í safnið og hann lítið komist til að stunda fræðslustörf. Þó hafi hann öðru hvoru fengið smáfrí til að dvelja erlendis samkvæmt reglum Háskólans. En forstöðumaður Handritastofnunar hefur þar takmarkaða kennsluskyldu, sem hann hefur á seinni árum fært yfir á yngri menn. En alltaf er á stofnuninni sjálfri innlent og erlent fólk með verkefni og við að búa rit til prentunar og því þarf að leiðbeina.

Jónas hafði gefið út allnokkur rit áður en hann varð forstöðumaður. M.a. gaf hann út Riddarasögu eftir að hann kom heim og skrifaði doktorsritgerð sína Um Fóstbræðrasögur. Stærsta verkefnið var Bókmenntasagan í Sögu Íslands. Svo fékk hann Peter Foote í London í lið með sér og "Eddas and Sagas, Iceland's Medieval Literature" kom út á ensku 1988. "Ég vildi gjarnan að Íslendingur gæfi þetta út. Þótt það sé kannski steigurlæti, þá er enginn eins handgenginn þessum verkum sem við eða hefur sama skilning á þeim. Þessvegna þykir mér vænt um að hafa komið þessu út á ensku," segir hann.

Að boða fagnarerindið

Þetta leiðir talið að kynningu á íslenska bókmenntaarfinum erlendis og hans eigin fyrirlestrum, sem hann segir að áreiðanlega séu komnir hátt á annað hundrað þótt ekki hafi hann talið þá. "Þetta kalla ég að að boða fagnaðarerindið. Þá sýni ég myndir úr handritunum og tala bæði um bókmenntirnar og handritin. Stundum um sögu Íslands og fleira því skylt." Hann kveðst mest hafa farið um löndin sem liggja eins og í hálfhring um Ísland, þ.e. Norðurlöndin, Þýskaland, Austurríki, Sviss með afleggjara niður á Ítalíu og til Frakklands og Bretlands. Um þessi lönd hefur hann þvælst, eins og hann orðar það, og boðað fagnaðarerindið. Líka farið til Bandaríkjanna og Kanada í sömu erindum. Hann segir mikla eftirspurn eftir þessum fyrirlestrum þar sem verið er að kenna í háskólum miðaldabókmenntir og þá sérstaklega íslenskar bókmenntir.

"Nú hafa húmanísk fræði átt erfitt uppdráttar undanfarna tvo áratugi. Þar fer saman að velmegun dróst saman og svo kom upp úr 1968 unga fólkið sem ekki vildi læra svona gamalt og óþarft efni. Í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi hefur slíkur óþarfi verið strikaður út og stöður lagðar niður við háskólana. Stöður Hermanns Pálssonar í Edinborg og Peters Footes hurfu til dæmis, þó tækist að bjarga lektorsstöðu í London með því að Íslendingar borgi helminginn. Og Svíinn Rausing, sá sem framleiðir Tetrapak, gaf starfsfé til að halda við íslensku stöðunni í Oxford. Ýmislegt kemur þó á móti. Í Þýskalandi hefur glaðnað áhuginn, sem féll niður eftir stríð þegar óorð komst á norrænar bókmenntir. Þar vantar sums staðar kennara. Í Íþöku í Bandaríkjunum er stærsta bókasafn íslenskra bóka utan Íslands fyrir utan Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Háskólinn þar virðist ekki hafa lengur bolmagn til að hafa þar íslenskan kennara, eins og auðvitað á að vera. Sama er í Caen í Frakklandi, svo fátt eitt sé nefnt. Þannig mætti lengi telja. Ég held að Íslendingar eigi að kosta slíkar stöður umfram margt annað, því slík kennsla á íslensku efni hefur margföld áhrif í kynningu umfram eitt og eitt átak, sem rokið er í." Jónas bætir við að þýðingar á ensku á Íslendingasögum hafi þó gert mikið gagn. Til dæmis þýðingar Hermanns Pálssonar, sem hafi komið í Penguin útgáfu og selst feikilega vel. Njála mest. Og ein af björtu hliðunum er að í Svíþjóð er kominn heim hress maður, Lars Lönnroth, og er að drífa þetta upp úr lægðinni sem kom þar upp úr 68. En þar var Peter Hallberg áður drjúgur liðsmaður og fleiri merkir fræðimenn.

Fóðurbætir ofan í rudda

Undir lokin spyr ég Jónas hvað hann hyggist nú fyrir, þegar hann er laus við daglegt amstur forstöðumannsins. "Ég ætla að gefa út Eddukvæðin fyrir Fornritafélagið. Þau þurfa að koma út. Vésteinn Ólafsson ætlar að vinna þetta með mér," svarar Jónas að bragði. "Ég mun líka halda áfram að vinna eitthvað hjá þessari stofnun ef ég held heilsu. Að textaútgáfum, sem ég mundi þá ýmist vinna sjálfur eða hafa umsjón með útgáfum annarra."

Jónas kveðst bera sig vel sem Íslendingur og telur upp margt sem við Íslendingar höfum byggt upp á undanförnum áratugum. Og bætir við að fyrir utan allt annað höfum við handritin og tungumálið. Að hér skuli vera tungumál, sem skrifað var á fyrir 1000 árum sé mikils virði. "Þegar verið er að kenna skyldar tungur og farið að læra gamla málið, fornensku eða fornþýsku, þá fara menn einnig að lesa íslensku og komast þarna í kynni við stórkostlegar bókmenntir. Ég segi að það sé eins og að fá fóðurbæti ofan í rudda. Á þessum tungum er til eitthvað af fornum bókmenntum, en ekkert í líkingu við Eddukvæðin og fornsögurnar. Það þarf að stuðla að því að þetta tungumál verði kennt við háskóla úti í heimi," segir hann. Með því ljúkum við samtalinu, þótt fleira hafi borið á góma og enn fleira verið ósagt.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Jónas Kristjánsson prófessor og fráfarandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.

Morgunblaðið/Ól.K.Mag.

Jónas Kristjánsson með Gráskinnu, sem er Njáluhandrit.

Jónas var gerður heiðursdoktor við Uppsalaháskóla við hátíðlega athöfn 1991.

Skreyttur upphafsstafur úr Flateyjarbók. Haraldur konungur hárfagri og skutilsveinn hans. Handrit í Stofnun Árna Magnússonar.