Jakob Kristinsson fræðslumálastjóri fæddist í Syðra-Dalsgerði í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 13.5. 1882. Hann var sonur Kristins Ketilssonar, bónda í Öxnafellskoti, Miklagarði, Syðra-Dalsgerði og á Hrísum í Saurbæjarhreppi, og k.h.

Jakob Kristinsson fræðslumálastjóri fæddist í Syðra-Dalsgerði í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 13.5. 1882. Hann var sonur Kristins Ketilssonar, bónda í Öxnafellskoti, Miklagarði, Syðra-Dalsgerði og á Hrísum í Saurbæjarhreppi, og k.h., Salóme Hólmfríðar Pálsdóttur húsfreyju.

Kristinn var bróðir Davíðs, framkvæmdastjóra Pöntunarfélags Eyfirðinga, afa Davíðs Ólafssonar seðlabankastjóra, föður Ólafs, fyrrv. ráðuneytisstjóra og Sigrúnar fréttaritara, en bróðir Davíðs Ólafssonar var Gísli ritstjóri, faðir Ólafs listfræðings. Kristinn var einnig bróðir Sigurðar, bónda í Miklagarði, afa Jónasar Haralz bankastjóra. Kristinn var sonur Ketils Sigurðssonar, bónda á Litla-Eyrarlandi og í Miklagarði, og Sigríðar Jakobsdóttur húsfreyju.

Salóme Hólmfríður var systir Þorsteins Indriða, föður Hólmgeirs, oddvita í Hrafnagilshreppi. Salóme Hólmfríður var dóttir Páls Jónssonar, bónda á Hánefsstöðum í Svarfaðardal, og á Efri-Glerá í Glæsibæjarhreppi, og Sigríðar Gísladóttur húsfreyju.

Meðal systkina Jakobs voru Hallgrímur Kristinsson, fyrsti forstjóri SÍS, Sigurður Kristinsson, ráðherra og forstjóri SÍS, og Aðalsteinn Kristinsson, framkvæmdastjóri SÍS.

Fyrri kona Jakobs var Helga Jónsdóttir sem lést 1940, en seinni kona hans var Ingibjörg Tryggvadóttir sem lést 1986.

Jakob lauk stúdentsprófi frá MR 1911 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1914. Hann var prestur í Saskatchewan í Kanada 1914-19, var skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum 1928-38, var skipaður fræðslumálastjóri 1939 og gegndi því embætti til 1944 er hann fékk lausn frá störfum vegna heyrnarleysis.

Jakob starfaði mikið í Guðspekifélaginu, var forseti þess 1920-28, skrifaði mikið um guðspekileg efni og var ritstjóri Ganglera, tímarits Guðspekifélagsins, 1926-30.

Jakob lést 11.7. 1965.